139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[22:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég tel mikilvægt að málið komi sem fyrst inn í félags- og tryggingamálanefnd og fái þar skjótan framgang. Það hafa komið nokkrar spurningar frá hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta frumvarp.

Það er í fyrsta lagi varðandi kostnaðinn við að breyta úr 20% í 30%. Það kom athugasemd frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni þar sem hann velti því fyrir sér að málið yrði skoðað í félags- og tryggingamálanefnd. Þarna er um að ræða breytingu sem m.a. er gerð vegna þess að skoðanir hafa verið skiptar um þessar hlutaatvinnuleysisbætur. Það er ekki síður vegna þess að menn eru að spara sér pening. Þess vegna eru reglurnar hertar. Það mætti segja að það væri fengur að því að halda áfram að vera með 20% en þarna er fyrst og fremst verið að bregðast við vegna fjárlagagerðarinnar.

Það svarar í sjálfu sér spurningu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þegar talað er um tvær aðgerðir. Annars vegar var í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að hlutaatvinnuleysisbæturnar yrðu óbreyttar á næsta ári. Nú er því seinkað þannig að gildistíminn verður ekki fyrr en 1. maí, sem sagt upp í 30%. Við það sparast peningar. Þetta eru sem sagt breytingarnar sem eru gerðar. Svo ég vandi mig svolítið, það er fyrst og fremst þessi breyting um 30 prósentin sem sparar. Hitt er í rauninni hrein aukning vegna þess að þetta með fjórða árið var ekki í boði áður.

Á móti kemur að við reiknum með því að gera auknar kröfur á sveitarfélögin um að þau hækki framfærslustyrkinn. Það eru settar viðmiðunarreglur frá félagsmálaráðuneytinu sem eru leiðbeinandi vegna þess að við getum ekki verið með neitt valdboð á sveitarfélögin. Þessar viðmiðunareglur miðast við rúmar 125 þús. á mánuði. Reykjavíkurborg er búin að hækka aðstoð við einstakling upp í 149 þús. og það er í undirbúningi að breyta tölunni hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu upp í 143–145 þús. að minnsta kosti. Sveitarfélögin bera viðbótarkostnaðinn vegna þess að fólk er að fara yfir þrjú árin á atvinnuleysisbótum. Framfærsla þess verður færð yfir til sveitarfélaganna.

Ég get tekið undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að frumvarpið er fyrst og fremst viðbrögð við vanda. Annars vegar atvinnuleysið og hins vegar heilbrigðismálin þar sem við erum að reyna að draga úr niðurskurðinum með því að breyta reglunum um framkvæmdasjóðinn fyrir árið 2011. Þá skiptir líka miklu varðandi atvinnuleysið að menn reyni að halda öllum virkniúrræðum. Að menn reyni að tryggja það að við getum haldið því sem hefur verið unnið með að allir þeir ungu aðilar sem verða atvinnulausir komist í virkniúrræði innan þriggja mánaða og hinir á sex til níu mánuðum, í síðasta lagi. Að úrræði séu í gangi fyrir fólk til þess að reyna að tryggja að ekki verði um langvarandi örorku að ræða vegna atvinnuleysis.

Það má taka undir það að stærsta vandamálið í samfélaginu er atvinnuleysið og það skiptir miklu máli að við bregðumst við því. Þar hefur heilmikið verið gert þó að það dugi ekki að öllu leyti. Það eru að fara í gang umtalsverðar framkvæmdir og við treystum á að það takist að snúa þessari þróun við þannig að atvinnuleysi dragist saman á næsta ári. Raunar er gert ráð fyrir því í hagspám og í fjárlagafrumvarpinu, þannig að við treystum á að svo verði.

Ég vona að málið fái vandaða umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd. Þegar málið kemur síðan til afgreiðslu í fjárlagafrumvarpinu, lokaútgáfunni, þá sjáum við hvernig það lítur út á endanum þegar búið er að afgreiða það.