139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

verðbréfaviðskipti.

218. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 7. mgr. 100. gr. í því skyni að fella brott tilvísun til þess að aðili auki ekki við atkvæðisrétt sinn umfram næsta margfeldi af fimm. Þá er lagt til að við 100. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að eigandi hlutafjár, sem átti meira en 30% atkvæðisréttar í félagi sem hafði fjármálagerninga tekna til viðskipta fyrir 1. apríl 2009, sé ekki tilboðsskyldur skv. 100. gr. enda auki hann ekki við hlut sinn. Ákvæðið miðar að því að taka aftur breytingu sem var gerð á lögum um verðbréfaviðskipti með lögum nr. 22/2009. Í þeim voru yfirtökumörkin lækkuð úr 40% niður í 30% og þeim aðilum sem áttu yfir 30% gert að minnka hlut sinn niður fyrir þau mörk fyrir 31. mars 2011, en þó með möguleika á framlengingu í allt að ár.

Við umfjöllun um málið í nefndinni var bent á að í frumvarpinu fælist að eigandi hlutafjár sem væri yfir yfirtökumörkum og félli undir undanþáguákvæði laganna yrði tilboðsskyldur ef hann yki við hlut sinn. Fram kom athugasemd um að réttlætanlegt væri að sama viðmið og nú gildir héldist, þannig að hluthafar hefðu svigrúm til að auka við hlut sinn upp að næsta margfeldi af fimm til samræmis við reglur annarra ríkja. Nefndin telur eðlilegra að ein regla gildi, sér í lagi með hliðsjón af því að í lögunum er mælt fyrir um möguleika á undanþágu frá tilboðsskyldu.

Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ný grein í því skyni að lagfæra rangar tilvísanir í lögunum.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessari breytingu.

Við afgreiðslu málsins í hv. viðskiptanefnd var hv. þm. Eygló Harðardóttir fjarverandi en undir nefndarálitið rita: Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Skúli Helgason, Atli Gíslason, Sigurður Kári Kristjánsson, Valgerður Bjarnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.