139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

verðbréfaviðskipti.

218. mál
[22:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega góð samstaða um þetta mál innan hv. viðskiptanefndar og í rauninni allra þeirra sem að málinu komu. Þó að það sé alltaf hættulegt þegar mikil samstaða er um mál þá held ég samt sem áður að við ættum að samþykkja þetta.

Ég vil vekja athygli á einu sem kom fram í frumvarpinu og kom skýrt fram hjá umsagnaraðilum. Það er mikilvægt að það liggi fyrir að misskilningur var í gangi að Össur hefði skráð sig annars staðar vegna gjaldeyrismála. Þessi mistök, ég held að það sé ekki hægt að orða það neitt öðruvísi, sem hv. viðskiptanefnd gerði, enginn sem er í núverandi hv. viðskiptanefnd var í viðskiptanefnd á sínum tíma, varð þess valdandi að Össur neyddist til þess að fara úr landi. Það var hætta á að Marel gerði það líka. Það sem við erum að gera núna og hv. þm., formaður nefndarinnar, Lilja Mósesdóttir, fór ágætlega yfir, ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að endurtaka ræðu hennar, er að samræma hlutina í takt við það sem gerist annars staðar til að koma í veg fyrir að jafnstór og öflug fyrirtæki og Marel, því miður er fyrirtækið Össur farið, sjái sér hag í því að færa sig yfir í aðrar kauphallir.

Ég vonast til þess að allir fjölmiðlamenn sem eru vakandi og fylgjast með muni láta vita af þessu í öllum helstu fjölmiðlum og fréttatímum á morgun. Ég er sannfærður um að það verði. Ef hv. þm. Mörður Árnason fer í hljóðvarp eða sjónvarp veit ég að hann mun koma þessum skilaboðum áleiðis.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessu að um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál. Ég þakka meiri hlutanum og hv. formanni fyrir farsælt samstarf í þessu máli. Megi það vera í sem flestum málum.