139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

úrvinnslugjald.

336. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í þessu frumvarpi er lagt til að frestað verði framkvæmd ákvæðis í lögunum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, um að leggja úrvinnslugjald á einnota drykkjarvöruumbúðir, í stað núverandi skilagjalds og umsýsluþóknunar á einnota drykkjarvöruumbúðir úr áli, stáli, gleri og plastefnum, til 1. janúar 2012, þannig að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði óbreytt til ársins 2012, en samkvæmt ákvæðinu er gildistíminn aðeins til 1. janúar 2011. Til næstu mánaðamóta.

Forsaga málsins er sú að umhverfisráðherra lagði fram fyrir stuttu á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem nú er til umfjöllunar í umhverfisnefnd og umsagnarfrestur stendur yfir. Ég held að honum ljúki 21. desember. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði framleiðendaábyrgð á drykkjarvöruumbúðir úr áli, stáli, gleri og plastefnum, í stað núverandi skilagjalds og umsýsluþóknunar. Aðstæður eru þær að ekki næst að afgreiða frumvarpið með góðu móti fyrir áætlaðan gildistökutíma laganna, 1. janúar 2011. Af þeim ástæðum er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða I í þessum ágætu lögum nr. 162/2002 verði framlengdur til þess að starfsemi Endurvinnslunnar hf. geti haldið áfram óbreytt þar til frumvarpið fær afgreiðslu.

Við leggjum til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur um eitt ár. Í því felst ekki stefnuyfirlýsing eða verkáætlun af okkar hálfu í umhverfisnefnd eða fyrir hönd Alþingis heldur gerum við ráð fyrir að veita þokkalegt svigrúm þannig að ekki þurfi aftur hér um að binda.

Umhverfisnefnd öll flytur frumvarpið þannig að ég geri ekki ráð fyrir að sjá það aftur í nefndinni nema sérstaklega verði óskað eftir. Ég tel að ekki sé ástæða til þess að málið þvælist fyrir þingheimi.