139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[10:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Nú þegar við erum að fara í fjárlagaumræðuna í dag er áhugavert að heyra álit hæstvirtra ráðherra á ýmsum þeim málum sem þar koma fram eða öllu heldur ættu að koma þar fram. Nú eru liðnar einhverjar vikur frá því að ríkisstjórnin fundaði sérstaklega á Suðurnesjum vegna atvinnumála. Sum hver af þeim málum sem þar var um fjallað kosta ekki mikla fjármuni en mundu hins vegar skila talsvert miklu til fólksins, ekki bara á Suðurnesjum heldur á landinu öllu, um að menn hefðu trú á því að ríkisstjórnin ynni í raun og veru af heilindum að því að byggja upp atvinnu í landinu, m.a. því að færa atvinnu til Suðurnesja, eins og til að mynda Landhelgisgæsluna.

Mig langar að heyra frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé unnið að því máli af heilum hug. Þetta er í sjálfu sér bara ákvörðun. Því var lýst yfir að vilji væri til að skoða það. Nú hafa menn skoðað það í nokkur ár og þessi umræða er ekki ný af nálinni en það sem þyrfti til væri fyrst og fremst að ráðherrann og ríkisstjórnin kæmu fram með þá ákvörðun að hefja undirbúning að flutningi til að mynda Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég veit að í því felst enginn gríðarlegur sparnaður, ekki á fyrsta ári þótt það verði kannski til lengri tíma litið, en það mundi líka sýna að menn meintu eitthvað af því sem þeir segja og framkvæmdu það einnig.

Hæstv. ráðherra er ráðherra margra mála og því mætti einnig spyrja hann: Hvar liggur flugverkefnið ECA (Forseti hringir.) og önnur slík verkefni sem kosta ríkissjóð ekki mikla peninga en væri mjög ágætt að kæmu fram við fjárlagaumræðuna?