139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

álögur á eldsneyti.

[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Enn berast fregnir af því að verð á eldsneyti fari hækkandi og er það skýrt ýmist með hækkunum á heimsmarkaðsverði, breytingum á gengi eða aukinni álagningu olíufélaganna. Ekki ætla ég að kalla hæstv. fjármálaráðherra til ábyrgðar vegna slíkra þátta og veit að hann getur ekki svarað fyrir það. Á hinn bóginn vildi ég beina því til hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé rétt og skynsamlegt að gera eins og hæstv. ríkisstjórn hefur í hyggju, að auka opinberar álögur, skattheimtu á eldsneyti á þessum tíma þegar ljóst er að stór hluti þjóðarinnar er í vandræðum vegna kaupmáttarskerðingar og vegna ýmissa áfalla. Hvort rétt sé að auka álögur á almenning með þeim hætti sem ráð er fyrir gert, m.a. í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem nú eru til umræðu í þinginu en það er ljóst að afleiðingar af því frumvarpi, verði það samþykkt, eru enn frekari hækkanir á gjaldtöku af eldsneyti sem auðvitað munu lenda á almenningi í landinu.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé nóg að gert í þeim efnum í ljósi þess að skattheimta á eldsneyti, olíuvörur, bensín og dísil er sennilega u.þ.b. helmingur af verði þeirra vörutegunda, ríkið tekur til sín helminginn. Er ástæða til að bæta í eins og gert er ráð fyrir í þeim þingmálum sem liggja fyrir þinginu þessa dagana?