139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

álögur á eldsneyti.

[10:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er hv. þingmanni ákaflega þakklátur fyrir það að hann skuli ekki ætla að kenna mér um kulda í Evrópu eða gengisþróun úti í löndum eða annað slíkt sem hefur áhrif á heimsmarkaðsverð á olíuvörum. Það er rétt að þær hafa hækkað. Að vísu gengur ýmsum illa að skilja að hækkanirnar hér á landi þurfi að koma svona bratt inn sökum þess m.a. að gengi krónunnar hefur heldur styrkst gagnvart dollara sem ætti að hjálpa. En hvað um það, ég ætla ekki að blanda mér sérstaklega í þá umræðu.

Það er ekki verið að auka almennar álögur á bensín og olíu heldur eingöngu að láta þau gjöld sem fyrir eru fylgja verðlagi. Það er breytingin sem er á ferðinni í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi, eins og á fjölmörgum öðrum sviðum þar sem sambærileg gjöld, krónutölugjöld og skattar eru látin fylgja verðlagi. Það er ekki hægt að kalla það nýjar hækkanir eða sérstakar álögur að þau gjöld fylgi verðlagi. (Gripið fram í: Ef það er umfram verðlag?) Ef það er umfram verðlag er það raunhækkun, já. (Gripið fram í.) Það kemur okkur vissulega vel að verðbólgan hefur lækkað og verðbólguspáin er orðin hagstæðari en gert var ráð fyrir. Það hlýtur líka að gleðja hv. þingmenn að Seðlabankinn lækkaði myndarlega vexti í morgun sem er til marks um það að við erum á réttri leið í efnahagsmálum. Allt leggst það með okkur að hér er kominn meiri stöðugleiki, að verðlag hefur þróast með réttum hætti og vextir hafa lækkað mjög myndarlega þannig að nú eru þeir loksins að komast niður á það stig sem við getum sætt okkur við.

Ég endurtek að það er ekki verið að hækka álögur á bensín og olíur nema að því slepptu þó þar sem kolefnisgjaldið hefur áhrif en það er óveruleg hækkun sem leggst á allt jarðefnaeldsneyti í landinu, ekki bara á bílaflotann. Þar erum við að fara mjög hóflega fram, færa okkur úr u.þ.b. eða tæplega 50% af verði losunarkvóta innan ESB og upp í 75%.