139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

álögur á eldsneyti.

[10:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég endurtek að það að láta gjöld af þessu tagi fylgja verðlagi hefur almennt ekki verið flokkað undir skattahækkanir eða nýjar álögur.

Ég nefni líka að fyrir þinginu er frumvarp um breytingu á vörugjöldum og bifreiðagjöldum sem gera fjölskyldunum kleift hvort heldur að endurnýja eða reka venjulega fjölskyldubíla og sparneytna bíla með ódýrari hætti en áður hefur verið hægt. Það er liður í þeirri stefnumótun að stuðla að þróun bílaflotans í átt til umhverfisvænni samsetningar. (Gripið fram í: … landsbyggðina.) Ég held að hv. þingmenn hljóti að — enda lýstu allir sig fylgjandi þeirri kerfisbreytingu að það væri það sem við þyrftum að stefna að. (TÞH: Það er náttúrlega ekki rétt.) Ja, enginn talaði gegn því að það ætti að þróa bílaflotann í átt til umhverfisvænni samsetningar svo ég heyrði a.m.k. Það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið í þeim efnum frekar en mörgum öðrum. Annaðhvort viljum við fara inn í framtíðina í þessum efnum eða ekki.