139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

mál frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[11:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að boðuð eru frumvörp um þau atriði sem hann rakti. Þau munu sum líta dagsins ljós fyrir áramót og verður dreift í þinginu. Það er nú samt gjarnan svo með haustþingið, ekki síst svo skammt haustþing sem þetta og annasamt, það varðar ýmislegt sem tengist fjárlagagerð og efnahagsmálum, að þau mál fá eðlilega forgang á haustþingi. Önnur almennari mál koma þá frekar fram á vorþingi.

Þau tilgreindu mál sem hv. þingmaður nefndi, eins og lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem var flutt á síðasta vetri og vori en komu ekki til endanlegrar afgreiðslu úr þinginu — það er alveg klárt, það er alveg hárrétt, að það var vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna um ákveðna þætti í landbúnaðarmálunum. Það frumvarp verður nú skoðað og farið yfir það þannig að samkomulag geti náðst um þau meginatriði sem þar voru flutt. En sá ágreiningur byggðist reyndar á misskilningi um hvað frumvarpið sjálft innihéldi.

Hitt er svo um ábúðar- og jarðalögin. Þau eru komin í vinnslu og þau byggja á starfi nefndar sem ég skipaði um það mál, víðtæks samráðshóps sem skilaði af sér fyrir einum tveimur vikum. Þau mál eru því í fullum gangi og ég geri ráð fyrir að frumvarp hvað þau varðar líti dagsins ljós fyrir jól, að því verði dreift hér á þinginu.

Landshlutaverkefni í skógrækt er sömuleiðis í skoðun en þar var líka starfshópur sem vann að tillögugerð og hann skilaði í október og er líka væntanlegt frumvarp hvað það varðar innan skamms. Þetta er allt að koma. Ég lofa því, frú forseti, að þetta kemur allt saman fram á næstu dögum.