139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

mál frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni um að það sé mjög duglegt og afkastamikið fólk sem vinnur í ráðuneytinu. Það er að vísu takmarkað að fjölda. Því er ekki að leyna að verkefni þar eru ýmis þessa dagana og allmikill tími fer í þá vinnu sem ráðuneytið þarf að inna af hendi sem tengist aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þar eru mjög margir þættir sem lúta að landbúnaðarmálum, matvælamálum og sjávarútvegsmálum og allt er gert til að inna þá vinnu sem ráðuneytið þarf að standa skil á sem faglegast af hendi.

Önnur þau frumvörp sem hér voru nefnd eru í vinnslu og ég legg áherslu á að þau geti flest komið fram og að þeim verði dreift í þinginu a.m.k. fyrir jól. En þingið hefur þá tíma til að taka á þessum málum þegar fjárlög, og það sem þeim tengist, hafa verið afgreidd.