139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

frétt um olíuleka vegna borana á hafsbotni.

[11:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í þeim fyrirspurnatíma sem hér var að ljúka var hæstv. umhverfisráðherra ekki til andsvara eins og boðað hafði verið. Hefði hann verið hér hefði ég bent á áhugaverða frétt sem birtist í breska blaðinu Guardian í dag og tekin er upp á vefnum Evrópuvaktinni. Þar segir að olíulekar úti fyrir ströndum Bretlands gætu samkvæmt skýrslum … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Já, já. Gætu samkvæmt skýrslum hugsanlega náð til austurstrandar Íslands og Grænlands. Þetta er vegna þeirra hagsmuna (Forseti hringir.) sem í húfi eru alvarlegt mál og alvarleg frétt (Forseti hringir.) sem ber að taka alvarlega.

(Forseti (ÁRJ): Þetta er ekki fundarstjórn forseta.)

Nei en þetta er alvarlegt mál, frú forseti, (Forseti hringir.) og ég ætla að óska eftir því að frú forseti mundi beita sér fyrir því að um málið yrði fjallað í nefndum Alþingis, (Forseti hringir.) svo sem hv. umhverfisnefnd, allsherjarnefnd (Forseti hringir.) og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn.)

Tíminn er liðinn, það er rétt, hæstv. forseti, en ég fékk heldur illa að nýta hann vegna bjölluhringinga hér. (Forseti hringir.) Ég vildi í fullri vinsemd koma þessari ábendingu á framfæri vegna þessara olíuleka sem eiga sér stað nú fyrir norðan Bretlandseyjar.