139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011.

Nefndin hóf störf 8. október sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana. Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 33 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa ráðuneyta og Ríkisendurskoðunar.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði bréflega eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.

Fram kemur í nefndaráliti hv. efnahags- og skattanefndar að í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 15. júní 2010 sem liggur fjárlagafrumvarpinu til grundvallar er reiknað með að hagvöxtur á árinu 2011 verði 3,2%, endurskoðun þjóðhagsspár var birt 23. nóvember síðastliðinn og er þar gert ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði 1,3% minni en áður var talið eða 1,9%.

Breytingartillögur eru gerðar í samræmi við endurskoðaða hagspá. Breytingar á hagvaxtarspá Hagstofunnar skýrast aðallega af frestun framkvæmda við stóriðju í Helguvík. Að öðru leyti eru ekki veigamikil frávik frá fyrri spá. Gert er ráð fyrir að einkaneysla vaxi um 2,6% í stað 3,4%, samdráttur samneyslunnar verði um 4,3% í stað 3,8%, að atvinnuleysi verði 7,3% í stað 8,3% og að verðbólga verði um 2,3% í stað 3,5%. Miklum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum er áfram spáð en óvissu gætir varðandi ýmsa þætti eins og uppbyggingu stóriðju, alþjóðlega efnahagsþróun, úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja og kjarasamninga.

Efnahags- og skattanefnd ræddi áhrif uppfærslu þjóðhagsspár á helstu liði skatttekna ríkissjóðs og óskaði eftir minnisblaði frá fjármálaráðuneyti þar að lútandi. Þar kemur fram að allir helstu liðir innlendrar eftirspurnar muni leggja minna til hagvaxtar en í fyrri spá. Forsendur tekjuáætlunar eru því verri en áður en á móti vegur að kaupmáttur ráðstöfunartekna helst nánast óbreyttur vegna minna atvinnuleysis og lægri verðbólgu. Fram kemur að neikvæð áhrif dekkri þjóðhagshorfa fyrir næsta ár á skatttekjur ríkissjóðs séu metin um 6 milljarðar kr.

Meiri hluti efnahags- og skattanefndar gerir þann fyrirvara í áliti sínu að enn séu óafgreiddar lagabreytingar í tengslum við tekjuöflunaraðgerðir næsta árs sem haft getur áhrif á niðurstöðu tekjuáætlunarinnar. Einnig hefur verið bent á að óvissuþættir um framgang áætlunarinnar lúti að aukningu einkaneyslu og efnahagsþróun í helstu viðskiptalöndum okkar.

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 er samið í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn íslensks efnahagslífs.

Í skýrslunni um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013 voru sett fram viðbrögð við þeim mikla vanda sem við blasti. Með kynningu hennar í júní á síðasta ári hefur verið ljóst í hvað stefndi og að árið 2011 verði þungt hvað varðar niðurskurð útgjalda, einkum þar sem sá niðurskurður kemur til viðbótar þeim sem farið var í um mitt ár 2009 og í ár. Stefnan varðandi ríkisfjármálin miðar að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkisins. Nái hún fram að ganga mun verða unnt að verja rekstrarafgangi til að grynnka jafnt og þétt á skuldum vegna efnahagshrunsins.

Innan fjárlaganefndar hefur verið unnið að breyttu vinnulagi við úthlutun safnliða. Í þeirri vinnu er haft að leiðarljósi að enn betur sé farið með opinbert fé til þessara liða og þarfagreining, aðhald og eftirlit aukist. Það verður gert með því að auka hlutverk lögbundinna sjóða, en einnig með öðrum hætti, svo sem með því að færa aukið fjármagn til menningarráða sveitarfélaganna og auka ábyrgð þeirra á úthlutun og eftirliti. Ef samkomulag næst er þetta í síðasta skipti sem þingið kemur að skiptingu safnliða og viðræður við sveitarfélögin og lögbundna sjóði um útfærslu og útvíkkun á hlutverki þeirra hvað þetta varðar eiga sér stað snemma á næsta ári. Þeir aðilar sem sótt hafa um styrki til hv. fjárlaganefndar fá þá senda tilkynningu um breytingarnar með svörum við umsóknum þeirra í janúar. Þannig ættu fyrirhugaðar breytingar ekki að koma þeim í opna skjöldu ef af þeim verður.

Hér á eftir mun ég gefa skýringar á helstu breytingartillögum meiri hlutans við sundurliðun 2 í fjárlagafrumvarpinu.

Liður æðstu stjórnar ríkisins hækkar um 216 millj. kr. Útgjöldin skiptast þannig:

Gerð er tillaga um 36,5 millj. kr. hækkun á tímabundnu framlagi til reksturs stjórnlagaþings. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi sem byggist á gróflegu mati fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt áætlun undirbúningsnefndar er gert ráð fyrir að kostnaður við stofnun og rekstur stjórnlagaþings sem stæði í tvo mánuði verði 260 millj. kr. Af því sem upp á vantar féllu 23,5 millj. kr. á árið 2010 og því vantar 36 millj. kr. til að nægir fjármunir verði til reksturs þingsins á árinu 2011 miðað við kostnaðaráætlun undirbúningsnefndarinnar.

Gerð er tillaga um 24,4 millj. kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar við störf saksóknara Alþingis og málsreksturs fyrir landsdómi. Tillagan byggir á áætlun saksóknara Alþingis. Í henni felast launagjöld fyrir fjóra starfsmenn, sérfræðiþjónusta, húsaleiga svo og annar rekstrarkostnaður og nær áætlunin til miðs árs 2011.

Gerð er tillaga um 40 millj. kr. fjárveitingu til að standa undir launum þriggja dómara til viðbótar í Hæstarétti. Í frumvarpi um breytingu á lögum um dómstóla er lagt til að hæstaréttardómarar verði 12 frá 1. janúar 2011, en að ekki skuli skipað í embætti hæstaréttardómara sem losna eftir 1. janúar 2013 fyrr en þess gerist þörf til að ná fyrri fjölda.

Einnig er gerð tillaga um 5 millj. kr. hækkun á rekstrarframlagi til Ríkisendurskoðunar.

Gerð er tillaga um að hagræðingarkrafa til Alþingis verði 60 millj. kr. í stað 131. Heildarniðurskurður Alþingis á árunum 2009–2011 yrði þá alls 375 millj. kr. Á sama tíma hefur fjöldi þingskjala margfaldast og lengd og fjöldi bæði þingfunda og nefndarfunda rúmlega þrefaldast vegna aukins álags og verkefna í kjölfar efnahagshrunsins.

Loks er gerð tillaga um 40 millj. kr. tímabundið framlag til hlutlausrar upplýsingaveitu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem starfa mun í samræmi við reglur sem forsætisnefnd þingsins setur samkvæmt tillögum utanríkismálanefndar. Af þessari fjárhæð eru 20 millj. kr. millifærðar af fjárheimild sem ætluð er til varnarmála á nýjum lið hjá utanríkisráðuneytinu.

Gerð er tillaga um 3,1 millj. kr. tímabundið framlag til nefndar um eflingu græns hagkerfis í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 10. júní sl. Var skipuð nefnd níu fulltrúa þingflokka sem hefur það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar. Gert er ráð fyrir að hún skili niðurstöðum fyrir 1. mars 2011.

Til annarra sérverkefna er gerð tillaga um 9 millj. kr. lækkun.

Framlög til forsætisráðuneytisins lækka um 30 milljónir. Ákveðið hefur verið að Þjóðskrá Íslands taki yfir rekstrarverkefni sem til þessa hefur verið sinnt undir merkjum upplýsinga- og þjónustuveitunnar island.is, að frátöldum þeim verkum sem tengjast starfssviði forsætisráðuneytisins með beinum hætti og flutt verða undir aðalskrifstofu ráðuneytisins. 40 millj. kr. fjárveiting til rafrænnar þjónustuveitu hins opinbera falli brott og 10 millj. kr. færist á aðalskrifstofu ráðuneytisins en 30 millj. kr. veittar til Þjóðskrár Íslands.

Samkvæmt breytingartillögum hækka framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um 646 millj. kr. Þar munar mest um eftirfarandi:

Að dregið verði úr aðhaldskröfu til Háskóla Íslands sem nemur 140 millj. kr. Fjárhæðin svarar til greiðslu fyrir kennslu 200 ársnema, 100 í reikniflokki 5, raunvísindum, og 100 í reikniflokki 1, félags- og hugvísindum. Nemendur við Háskóla Íslands eru umtalsvert fleiri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Ljóst er að skólinn á erfitt með að mæta aðhaldsmarkmiðum ársins 2011 á sama tíma og nemendum fjölgar við skólann

Lagt er til að veitt verði 30 millj. kr. tímabundið framlag til að efla nýsköpun og sjóð námsmanna, en þannig má tryggja fleiri háskólanemum í styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Með þessu aukna framlagi verða fjárveitingar til sjóðsins 50 millj. kr. á árinu 2011.

Þá er gerð tillaga um 9 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs sjávarrannsóknarmiðstöðvar í Vestmannaeyjum.

Einnig er lagt til að veitt verði 12 millj. kr. framlag til að draga úr aðhaldskröfu á Háskólasetur Vestfjarða og sama upphæð til að draga úr aðhaldskröfu Þekkingarnets Austurlands. Iðnaðarráðuneytið ákvað að framlengja ekki samninga sem runnir eru út, en vegna verkefnanna sem setrin sinna á árinu 2011 er tillagan gerð. Mikilvægt er að tryggja samskipti og upplýsingaflæði á milli ráðuneyta sem standa sameiginlega að samningum. Betra er að eitt ráðuneyti sé ábyrgt fyrir samningunum og það sé það ráðuneyti sem hefur skyldur á því sviði sem verkefnin lúta að. Í þeim tilfellum sem hér um ræðir er eðlilegt að samningarnir séu eingöngu á hendi menntamálaráðuneytisins.

Til liðarins Nýjungar í skólastarfi er lagt til að veitt verði 16 millj. kr. framlag til tveggja ára, m.a. til að tryggja samstarf menntastofnana á Suðurnesjum. Þetta er í samræmi við ákvörðun sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í Reykjanesbæ 9. nóvember 2010. Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og efla ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

Síðan er lagt til að veitt verði 8 millj. kr. framlag til Fisktækniskóla Íslands á Suðurnesjum og honum verði tryggt eitt stöðugildi. Nánari útfærsla verður unnin við gerð samkomulagsins um verkefnin.

Lagt er til að fallið verði frá aðhaldskröfu sem nemur 204,8 millj. kr. til framhaldsskóla. Tillagan er til komin vegna þess að erfitt er að útfæra aðhaldskröfuna þar sem sjálfsmat er tengt launakjörum kennara og ekki talið fært að taka fjárupphæðina af öðrum rekstri skólanna.

Þá er lagt til að framlag til Myndlistarskólans í Reykjavík hækki um 10,2 milljónir til samræmis við ákvæði í samningum milli ráðuneytisins og skólans. Á móti lækkar framlag á liðnum Framhaldsskólar óskipt um sömu fjárhæð. Einnig er gerð tillaga um 8 millj. kr. hækkun á framlagi til Myndlistarskólans í Reykjavík vegna breytinga á samkomulagi skólans við framhaldsskóla.

Gerð er tillaga um breytingar á fjárheimildum 23 framhaldsskóla vegna breytinga á húsnæðisframlagi til þeirra sem er ýmist til hækkunar eða lækkunar, en nettóheildarbreytingin er þó engin. Breytingarnar eru gerðar í kjölfar samkomulags við Fasteignir ríkissjóðs um húsaleigu árið 2011 og viðmiðum um fermetrafjölda sem húsaleiga er greidd af.

Gerð er tillaga um 4,2 millj. kr. framlag til Fjölbrautaskóla Suðurlands vegna aukinnar þarfar fyrir þjónustu námsráðgjafa, kennara og kennslustjóra í kjölfar þess að fangelsið í Bitru var tekið í notkun síðastliðið vor. Þessu til viðbótar er gerð tillaga um að 2,3 millj. kr. hækkun á framlagi til starfsnáms og starfsráðgjafa í fangelsum á Íslandi svo starfshlutfall verði 100% eins og upphaflega var gert ráð fyrir en það er nú 70%.

Lögð er til millifærsla á 10 millj. kr. vegna leiðréttingar á fjárheimild til Framhaldsskólans á Laugum. Lækkun fjárheimildar um 10 millj. kr. vegna framlags til framhaldsdeildarverkefnisins á Þórshöfn sem var fyrir mistök gert tvisvar, fyrst árið 2010 og aftur árið 2011.

Lagt er til að veitt verði 9 millj. kr. tímabundið framlag til tveggja ára til aðgerða gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Á ríkisstjórnarfundi 25. júní sl. var samþykkt að veita 9 millj. kr. af safnlið ríkisstjórnarinnar til aðgerða gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar frá ráðuneytunum kemur fram að tryggja þurfi fjármagn til næstu þriggja ára, alls 27 millj. kr.

Lagt er til að 45,9 millj. kr. verði millifærðar af fjárlagaliðnum Skólaakstur á liðinn Jöfnun á námskostnaði. Eftir leiðréttinguna endurspegla fjárframlög þá fjárveitingu sem er til skiptanna til dvalar og akstursstyrkja til samræmis við lög nr. 79/2003, um námsstyrki. Sú fjárveiting sem eftir stendur verður til ráðstöfunar til niðurgreiðslu á skólaakstri á landsbyggðinni.

Gerð er tillaga um 13,5 millj. kr. tímabundið framlag sem skiptist á þrjú skjalasöfn, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Héraðsskjalasafn Árnesinga. Framlagið er ætlað til þess að skrá og skanna ljósmyndasöfn sem til staðar eru í umdæmum þessara safna með það að markmiði að gera þann menningararf sem liggur í ljósmyndum aðgengilegan á netinu. Þannig gætu íbúar þeirra landshluta sem söfnin þjóna sem og aðrir áhugasamir í framtíðinni nálgast efnið frá heimilum sínum eða vinnustöðum.

Lagt er til að veitt verði 10 millj. kr. framlag til Lækningaminjasafns Íslands. Samkvæmt samningi sem ráðuneytið gerði á að greiða árlega 9,3 millj. kr. miðað við verðlag fjárlaga 2007. Miðað við breytingar á verðlagi er það orðið yfir 12 millj. kr. en hér er gert ráð fyrir 10 millj. kr.

Lagt er til að heiti fjárlagaliðar breytist og verði Fjölmiðlanefnd í stað Fjölmiðlastofa í samræmi við stjórnarfrumvarp um fjölmiðlalög sem lagt hefur verið fram á haustþinginu og tímabundið stofnkostnaðarframlag til fjölmiðlanefndar verði lækkað um 1,5 millj. kr. í samræmi við kostnaðarmat frumvarps til fjölmiðlalaga sem lagt hefur verið fram á haustþinginu. Stofnkostnaðarframlag verði því 2 millj. kr. Þá er lagt til að framlag til fjölmiðlanefndar verði lækkað um 10 millj. kr. í samræmi við kostnaðarmat frumvarps til fjölmiðlalaga. Þar er m.a. ekki gert ráð fyrir starfsemi allt árið 2011 og þess vegna er lögð til lækkun á framlaginu.

Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag til að styrkja svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins. Þegar reynsla ársins 2010 á rekstri stöðvanna var metin kom í ljós að aðhaldskrafan árið 2011 er of mikil og því er þessi tillaga til komin.

Gerð er tillaga um 6,3 millj. kr. framlag til verkefnisins Tónlist fyrir alla, sem felld var niður í frumvarpinu.

Til ýmissa framlaga mennta- og menningarmálaráðuneytisins er lagt til að dregið verði úr aðhaldskröfu sem nemur 42,2 millj. kr. Með þessu má gera ráð fyrir að ráðuneytið geti leyst mál eftirfarandi verkefna þó ekki sé hægt að segja til um hversu háa fjárhæð hvert verkefni fái. Verkefnin eru:

RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð, Barnamenningarhátíð, Lókal – leiklistarhátíð, Leiklistarsamband Íslands, SÍM, Samband íslenskra myndlistarmanna, Skrifstofa atvinnuleikhópa, ÚTÓN, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, og Afrekssjóður ÍSÍ.

Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytisins verði aukin um 27,2 millj. kr.

Lagt er til að 859 millj. kr. fjárheimild Varnarmálastofnunar verði millifærð á fjárlagaliðnum. Samkvæmt lögum um varnarmál verður Varnarmálastofnun lögð niður frá og með 1. janúar 2011 og skulu verkefni hennar færð til annarra stofnana. Ekki liggur fyrir hvernig fjárheimildum Varnarmálastofnunar verður skipt upp og því eru þær til að byrja með fluttar yfir á liðinn Varnarmál þar til endanlegar tillögur um skiptingu fjárheimilda hafa verið lagðar fram af verkefnisstjórn sem skipuð var sérstaklega til að hafa umsjón með daglegum rekstri og útvistun verkefna.

Jafnframt er gerð tillaga um að 20 millj. kr. verði millifærðar af þessum lið til Alþingis. Er framlagið ætlað hlutlausri upplýsingaveitu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu eins og áður hefur komið fram. Einnig verða fjárheimildir til tækja og búnaðar til Varnarmálastofnunar millifærðar yfir á liðinn Varnarmál.

Gerð er tillaga um 60 millj. kr. tímabundið framlag til tveggja ára vegna verkefna á sviði loftslagsmála til aðstoðar þróunarlöndum á árunum 2011–2012 í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 9. nóvember 2010. Meðal iðnríkja er breið samstaða um að stórauka þurfi fjármögnun til aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum og aðstoða fátækustu þróunarríkin við að takast á við afleiðingar þeirra.

Þá er lagt til að fjárheimild til Íslandsstofu lækki um 12,8 millj. kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um ríkistekjur af markaðsgjaldi.

Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins verði aukin um 21,7 millj. kr.

Vegna Fiskistofu er gert ráð fyrir 22,4 millj. kr. lækkun á greiðslu úr ríkissjóði í samræmi við samsvarandi hækkun ríkistekna Fiskistofu. Er hækkunin komin til vegna hækkunar á ýmsum gjöldum stofnunarinnar til samræmis við verðlagshækkanir, en þau hafa ekki verið hækkuð allt frá árunum 1999–2002. Gjöldin sem hér um ræðir eru gjöld vegna leyfa til veiða í atvinnuskyni, vegna tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks, vegna flutnings aflahlutdeildar og vegna eftirlits um borð í fiskiskipum.

Hjá Matvælastofnun er lagt til að veitt verði 1,5 millj. kr. framlag vegna væntanlegrar reglugerðar um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. Einnig er lögð til 6 millj. kr. lækkun á framlagi til liðarins, en um er að ræða leiðréttingu á 10 millj. kr. millifærslu frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar sem gerð var í frumvarpinu vegna yfirfærslu forðagæsluverkefna. Sú millifærsla var of há og færast því 6 millj. kr. aftur til Bændasamtaka Íslands í samræmi við forsendur nýgerðs búnaðarlagasamnings.

Lagt er til að launagrunnur Hafrannsóknastofnunar verði hækkaður um 20,2 millj. kr. vegna nýs kjarasamnings við sjómenn sem tók gildi 1. ágúst 2010.

Gert er ráð fyrir að velta Framleiðnisjóðs landbúnaðarins lækki um 59 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um sértekjur hans á næsta ári.

Lagt er til að fjárheimild dómsmála og mannréttindaráðuneytisins verði aukin um 424,3 millj. kr. og þar munar mest um eftirfarandi:

Gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Framlagið er til leiðréttingar á rekstrarstyrk sem félagið átti að fá samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið. Í tengslum við endurskoðun framsetningar vegna sameiningar ráðuneyta er lagt til að 106,8 millj. kr. fjárheimild sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu á þessu viðfangi flytjist á liðinn Almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum í málaflokknum Löggæslustofnanir og öryggismál.

Gerð er tillaga um 23,8 millj. kr. fjárheimild vegna fjölgunar starfsfólks Hæstaréttar. Um er að ræða fjölgun aðstoðarmanna dómara um tvo, auk þess sem áformað er að bæta við hálfu stöðugildi skrifstofumanns. Þetta er gert samhliða fjölgun dómara við Hæstarétt um þrjá sem áður er getið um. Gert er ráð fyrir að á móti hækkunum hjá Hæstarétti og héraðsdómstólum komi hækkun á dómsmálagjöldum, en tekjur vegna þeirra renna í ríkissjóð samkvæmt lögum um aukatekjur ríkisins.

Lagt er til að fjárheimild verði aukin um 64,4 millj. kr. vegna fjölgunar héraðsdómara. Fjárheimildin er vegna launakostnaðar, auk þess sem gert er ráð fyrir að leigja þurfi viðbótarhúsnæði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að mæta auknu álagi við réttinn.

Þá er lagt til að veitt verði 113,4 millj. kr. fjárheimild vegna þingsályktunartillögu Alþingis um að kalla saman landsdóm. Dómurinn byggist á lögum nr. 3/1963 og nú liggur fyrir kostnaðaráætlun vegna væntanlegs málsreksturs. Útgjöldin eru háð mikilli óvissu um lengd málsmeðferðarinnar. Í fyrirliggjandi áætlun er miðað við starfsemi í sex mánuði, þar af fjóra mánuði í sjálfa málsmeðferðina.

Lagt er til að hagræðingarkrafa vegna löggæslu lækki frá því sem ákveðið var í frumvarpinu um 100 millj. kr. og er ætlað að draga úr þeim niðurskurði sem ella yrði hjá einstökum lögregluembættum. Skiptingunni er lýst í skýringum með nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Gerð er tillaga um 8,7 millj. kr. hækkun á framlagi til Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi.

Lagt er til að launagrunnur Landhelgisgæslunnar verði hækkaður um 35,5 milljónir vegna nýs kjarasamnings við sjómenn sem tók gildi 1. ágúst 2010.

Lagt er til að 5 millj. kr. verði veittar til sýslumannsins í Reykjanesbæ vegna tilflutnings verkefna varðandi stefnubirtingar. Að undanförnu hefur orðið veruleg fjölgun mála þar sem annars vegar þarf að birta stefnur og önnur réttarskjöl í útlöndum vegna dómsmála hér á landi og hins vegar að birta stefnur vegna dómsmála í útlöndum.

Þá er gerð tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja meðferðarúrræði á Litla-Hrauni.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Þjóðskrár Íslands til uppsetningar á vef vegna þjónustutilskipunar Evrópusambandsins, Points of Single Contact, en það er sjálfstætt verkefni sem þróað hefur verið til undirbúnings fyrir innleiðingu á þjónustutilskipun ESB.

Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði lækkuð um 1.205,8 millj. kr. Breytingartillögurnar eru þessar helstar:

Lagt er til að varið verði 10 millj. kr. til að ráða starfsmann sem annist samstarf og samráð við sveitarfélög á Suðurnesjum um sértæk mál er varða íbúa svæðisins. Sérstakri verkefnisstjórn sem skipuð verði fulltrúum sveitarfélaga og þriggja stofnana félags- og tryggingamálaráðuneytisins auk velferðarvaktarinnar verði falið að annast umsjón verkefnisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og félags- og tryggingamálaráðherra. Ríkisstjórnin samþykkti tillögur þessa efnis á fundi sínum á Suðurnesjum þann 9. nóvember 2010.

Lagt er til að fjárheimild aðalskrifstofu verði lækkuð um samtals 19 millj. kr. vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Með yfirfærslunni mun stór hluti af stjórnsýsluverkefnum ráðuneytisins einnig færast yfir eða falla niður.

Lagt er til að veittar verði 10 millj. kr. til að gera heildstæða rannsókn á aðstæðum fólks á Suðurnesjum sem er að missa íbúðarhúsnæði sitt eða hefur nú þegar misst það á nauðungarsölu. Atvinnuleysi er hæst þar og nauðungarsölur hlutfallslega flestar. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að greina áhættuþætti sem líklegir eru til að hafa áhrif á að fjölskyldur missa heimili sín við nauðungarsölu. Rannsóknin er unnin í samráði við sýslumanninn í Keflavík.

Þá er lagt til að fjárheimild umboðsmanns skuldara hækki um 100 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Mikið álag hefur verið á starfsemi frá haustmánuðum og hafa að jafnaði borist 70–80 mál í hverri viku. Alls eru um 1.000 mál í vinnslu hjá embættinu. Í fyrri áætlunum var gert ráð fyrir að starfsmenn embættisins yrðu 50 talsins á árinu 2011. Þegar er búið að ráða 67 starfsmenn og er unnið að ráðningu tveggja til viðbótar sem staðsettir verða í Reykjanesbæ samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Að auki hefur verið leitað til sjálfstætt starfandi lögmanna um vinnu við úrlausn mála. Öll útgjöld stofnunarinnar eru fjármögnuð með sérstöku gjaldi á lánastofnanir og er því gert ráð fyrir að það hækki jafnmikið.

Á liðnum Hjúkrunarheimili almennt er lagt til að sértekjur hækki um 475 millj. kr. Annars vegar er vegna aðstæðna í ríkisfjármálum lagt til að 400 millj. kr. af fjárheimild Framkvæmdasjóðs aldraðra verði varið til reksturs á árinu 2011 og koma þau framlög frá sjóðnum fram sem sértekjur hjá öldrunarstofnunum. Tillagan er liður í heildarendurskoðun á áformum um aðhaldsmarkmið í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Hins vegar er lagt til að sértekjur hækki um 75 millj. kr. vegna þátttöku Framkvæmdasjóðs aldraðra í viðhaldi á fasteignum öldrunarstofnana. Skipting sérteknanna á einstök viðfangsefni er sýnd í sérstöku yfirliti III með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar og munu breytingarnar koma fram á viðkomandi fjárlagaliðum í stöðuskjali frumvarpsins eftir 2. umr. þess.

Lagt er til að útgjaldaheimild og sértekjur á óskiptu framlagi til öldrunarstofnana hækki um 225 millj. kr. Vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs er lagt til að nýta hluta af fjárheimild Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs í stað framkvæmda á árinu 2011. Með tillögunni er ætlunin að fjölga hjúkrunarrýmum um 30, en þar af eru 10 rými sem tilheyra Hvammi á Húsavík og 20 rými sem tilheyra Reykjanesbæ en til að byrja með mun Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sjá um rekstur þeirra.

Gert er ráð fyrir að sértekjur sem færast vegna greiðslna frá vistmönnum fyrir dvöl á öldrunarstofnunum hækki um 557 millj. kr. Í gildandi fjárlögum og í fjárlagafrumvarpinu er þessi fjárhæð áætluð 373 millj. kr. en á undanförnum árum hefur farist fyrir hjá þeim ráðuneytum sem hafa haft umsjón með málaflokknum að uppfæra áætlanir til samræmis við raunverulega þróun greiðslna frá vistmönnum. Á sama tíma hafa lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur vistmanna farið hækkandi eftir því sem fjölgað hefur í hópi þeirra sem hafa betri lífeyrisrétt úr almennum lífeyrissjóðum en áður var. Þessi leiðrétting á áætlun fjárlaganna hefur engin áhrif á útkomuna í þessum greiðslum vistmanna á árinu.

Lagt er til að tímabundið framlag að fjárhæð 55,5 millj. kr. sem veitt var til byggingar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut falli niður þar sem framkvæmdum er lokið. Af sömu ástæðu er lagt til að tímabundið framlag að fjárhæð 61 millj. kr. sem veitt var til byggingar hjúkrunarheimilis í Kópavogi falli niður.

Þá er lagt til að 400 millj. kr. verði varið á árinu 2011 til reksturs hjúkrunarheimila úr Framkvæmdasjóði aldraðra eins og áður sagði. Í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 13. október 2009 um samstarf við níu sveitarfélög um byggingu hjúkrunarheimila samkvæmt svokallaðri leiguleið hafa ekki verið teknar nýjar ákvarðanir um byggingu hjúkrunarheimila með framlögum á fjárlögum og úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs er talið réttmætt að nýta hluta af fjárheimild sjóðsins til reksturs á árinu 2011 og er tillagan liður í heildarendurskoðun á áformum um aðhaldsmarkmið í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu.

Gerð er tillaga um 300 millj. kr. fjárveitingu vegna niðurlagningar á öllum sex svæðisskrifstofum málefna fatlaðra. Með yfirfærslu á málaflokknum til sveitarfélaga frá 1. janúar 2011 verður öllum svæðisskrifstofum lokað og starfsmönnum þeirra sagt upp. Gera má ráð fyrir að nokkur hópur muni þiggja biðlaun og nýta sér uppsagnarrétt sinn. Við þetta bætist kostnaður vegna starfsmanna sem starfa munu nokkra mánuði á næsta ári við frágang á gögnum og skjölum áður en kemur til uppsagnar og biðlauna. Því er áætlað nú að starfsmannakostnaður verði allt að 230 millj. kr. og leiga og annar rekstrarkostnaður er áætlaður allt að 70 millj. kr.

Þá er lagt til að fjárheimildir samtals að fjárhæð 10.018,5 millj. kr. verði felldar niður vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Frá 1. janúar 2011 munu sveitarfélög taka yfir alla almenna þjónustu við fatlaða einstaklinga. Unnið hefur verið að yfirfærslunni frá því snemma árs 2007 en þá var tekin ákvörðun um að endurskoða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þá sérstaklega þjónustu við fatlaða, öldrunarmál og menntamál. Nú liggur fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem gerir ráð fyrir að öll almenn þjónusta við fatlaða færist yfir til sveitarfélaga. Undanskildar eru Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta og stofnanir tengdar vinnumarkaðsúrræðum. Auk þess mun almenn hagsmunagæsla fatlaðra verða áfram á ábyrgð ríkisins. Markmið tilfærslunnar eru m.a. að bæta þjónustu og laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum, stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, draga úr skörun ábyrgðarsviða, stjórnsýslustiga, tryggja góða nýtingu fjármuna og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Mynduð verða þjónustusvæði um rekstur þjónustu við fatlaða og skulu þau hafa að lágmarki 8.000 íbúa. Því verða þau sveitarfélög sem ekki ná þessari íbúatölu að sinna þjónustunni í samvinnu við önnur. Ráðherra getur hins vegar undir ákveðnum skilyrðum veitt undanþágu frá viðmiðinu um fjölda íbúasvæða. Stofnuð verður sérstök deild innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem tryggja á að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og mismunandi þjónustuþarfa þeirra.

Gert er ráð fyrir að fasteignir Framkvæmdasjóðs fatlaðra renni til sérstaks fasteignasjóðs í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en við stofnsetningu fasteignasjóðsins skal Framkvæmdasjóður fatlaðra lagður niður. Samkvæmt fasteignamati er áætlað heildarvirði þeirra eigna sem ríkissjóður lætur af hendi við yfirfærslu um 3,7 milljarðar kr.

Við yfirfærsluna verða svæðisskrifstofur lagðar niður. Samhliða yfirfærslu á framkvæmd og ábyrgð á þjónustu við fatlaða taka sveitarfélögin yfir fjárhagslega ábyrgð málaflokksins. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 6. júlí sl. um fjárhagsleg málefni yfirfærslunnar var samið um að útsvarshlutfall sveitarfélaga hækki um 1,2 prósentustig og að tekjuskattshlutfall ríkisins lækki á móti um samsvarandi hlutfall. Gert er ráð fyrir að til lengri tíma muni þessi hækkun útsvarshlutfallsins duga sveitarfélögum til fjármögnunar þjónustunnar og hefur þá verið tekið tillit til ýmiss kostnaðar sem auka muni útgjöldin í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá er í samkomulaginu um fjárhagsrammann einnig kveðið á um greiðslur yfir sama tímabil til sveitarfélaganna vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins um þessar mundir, nýrra verkefna í þjónustu, eyðingar biðlista og vegna ýmiss kostnaðar sem tengist yfirfærslunni. Að samanlögðu nema þessi sérstöku, tímabundnu aukaframlög um 623 millj. kr. á næsta ári og er nánari skýringar á þeim að finna í greinargerð með tillögum sem fluttar eru undir lið Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Skipting niðurfelldra fjárveitinga á einstök viðfangsefni eru sýnd í sérstöku yfirliti IV með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar og munu breytingarnar koma fram í viðkomandi fjárlagaliðum í stöðuskjali frumvarpsins eftir 2. umr. þess.

Gert er ráð fyrir að beint framlag úr ríkissjóði til að fjármagna lífeyristryggingar hækki um 592,3 millj. kr. til þess að vega upp á móti lækkun tekna af tryggingagjaldi sem varið verður til þessara verkefna á næsta ári.

Lagt er til að fjárheimild Atvinnuleysistryggingasjóðs verði hækkuð um 640 millj. kr. vegna lengingar á rétti til greiðslu atvinnuleysisbóta um eitt ár. Samkvæmt gildandi lögum geta atvinnulausir fengið bætur í allt að þrjú ár en með frumvarpi til breytingar á lögunum er lagt til að það verði lengt tímabundið í fjögur ár. Miðað er við að breytingin taki gildi fyrir þá sem urðu atvinnulausir frá og með 1. maí 2008. Áætlað er að tæplega 2.000 manns muni á næsta ári hafa þegið atvinnuleysisbætur í þrjú ár.

Einnig er lagt til að fjárheimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs verði lækkaðar um 2.900 millj. kr. vegna nýrrar spár um atvinnuleysi. Í frumvarpinu var miðað við 8,3% atvinnuleysi en nú er reiknað með að atvinnuleysið nemi 7,3% á næsta ári í samræmi við nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Gert er ráð fyrir að fjárheimild Fæðingarorlofssjóðs hækki um 1.000 millj. kr. og fallið um leið frá sömu hagræðingarkröfu til sjóðsins.

Þá er gerð tillaga um 10 millj. kr. framlag til Stígamóta til að koma á fót athvarfi fyrir konur á leið úr vændi og mansali.

Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytisins verði aukin um 1.504 millj. kr. Þar munar mest um eftirfarandi:

Lagt er til að fjárveitingin hækki um 100 millj. kr. vegna upptöku nýrra S-merktra lyfja og meðferðar einstaklinga sem greinst hafa með Fabry-sjúkdóminn.

Þá er lagt til að 148 millj. kr. sem skráðar voru sem tilfærslur í fjárlagafrumvarpinu verði skráðar sem önnur gjöld til samræmis við aðrar fjárheimildir S-merktra lyfja.

Lagt er til að hagræðingarkrafan á heilbrigðisstofnanir verði lækkuð til muna. Þeirri tölu fylgja ýmsar millifærslur og einnig lækka framlög til heimahjúkrunar og sjúkraflutninga til samræmis.

Markmiðið með endurskoðuninni er að áætla kostnað við rekstur sjúkrarýma með hliðsjón af þjónustunni sem þar er veitt. Þá er heilsugæslulíkan uppfært og stillt af og greiðsla fyrir hjúkrunarrými samræmd. Þessi aðferð leiðir til þess að hagræðingarkrafa á heilbrigðisstofnanir lækkar um samtals 1.118,5 millj. kr. frá frumvarpinu og fer úr 3.022,7 millj. kr. í 1.904,2 millj. kr. Það er ljóst að vegna endurskoðunarinnar verður ekki mögulegt að ná fram áhrifum aðgerðanna fyrr en liðið er á árið 2011. Af þeim sökum er lagt til að 3/12 hlutum kröfunnar, eða 453,4 millj. kr. verði frestað fram á árið 2012. Þá er einnig lagt til að engin stofnun standi frammi fyrir meiri samdrætti en sem nemur 12% frá gildandi fjárlögum, en það þýðir frestun að fjárhæð 119 millj. kr. til viðbótar.

Lögð er til 10,7 millj. kr. hækkun á framlagi til samnings við sveitarfélagið Hornafjörð um öldrunarþjónustu til að mæta leiðréttum og samræmdum daggjaldataxta á hjúkrunarsviði í kjölfar endurskoðunar á fjárveitingum til heilbrigðisstofnana.

Lögð er til 61 millj. kr. lækkun á fjárveitingu til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands sem er til viðbótar við 39 millj. kr. lækkun sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Tillagan er í endurskoðun og kemur aftur til umfjöllunar við 3. umr. frumvarpsins.

Lögð er til 300 þús. kr. millifærsla af safnlið heilsugæslustöðva til Heilsugæslustöðvarinnar Lágmúla til að standa undir kostnaði við læknisfræðilegar rannsóknir í fangelsum á höfuðborgarsvæðinu.

Lagt er til að millifærðar verði 3,6 millj. kr. af safnlið yfir á Miðstöð heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu til að mæta kostnaði vegna sáraumbúða.

Lögð er til 5 millj. kr. millifærsla á safnlið heilsugæslustöðva til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að efla einingu, geðheilsu/eftirfylgdar innan heilsugæslunnar.

Lögð er til 11 millj. kr. lækkun á framlagi til stöðugilda í kennslu í hjúkrun til að mæta endurskoðun á hagræðingarkröfu á heilbrigðisstofnanir.

Lögð er til 35 millj. kr. lækkun á safnlið til að mæta endurskoðun á hagræðingarkröfu á heilbrigðisstofnanir.

Jafnframt er lögð til 96,4 millj. kr. lækkun á framlagi til heimahjúkrunar til að mæta endurskoðun á hagræðingarkröfu á heilbrigðisstofnanir.

Lögð er til 17 millj. kr. lækkun á framlagi til sjúkraflutninga. Í kjölfar endurskoðunar á samdrætti í útgjöldum heilbrigðisstofnana þar sem dregið er úr hagræðingarkröfu á sjúkrasviði þeirra er ekki reiknað með aukningu í sjúkraflutningum.

Lögð er til 18 millj. kr. lækkun á framlagi til hjúkrunar í framhaldsskólum til að mæta endurskoðun á hagræðingarkröfu á liðinn Heilbrigðisstofnanir. Einnig er lögð til af sömu ástæðu 3 millj. kr. lækkun á framlagi til hjúkrunar í framhaldsskólum á Akureyri.

Lögð er til 37,4 millj. kr. millifærsla yfir á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki til að mæta lækkun á hagræðingarkröfu á sjúkrasviði stofnunarinnar.

Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands hækkar hagræðingarkrafan um samtals 106,5 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnuninni Patreksfirði lækkar hagræðingarkrafan samtals um 16,4 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða lækkar hagræðingarkrafan fyrir stofnunina í heild um samtals 153,8 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi lækkar hagræðingarkrafan um 33,3 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki lækkar hagræðingarkrafan um 152,1 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð lækkar hagræðingarkrafan um samtals 37,9 millj. kr

Á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga lækkar hagræðingarkrafan um samtals 266,9 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnun Austurlands lækkar hagræðingarkrafan um samtals 344, 8 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands lækkar hagræðingarkrafan fyrir stofnunina í heild um samtals 38,9 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnuninni Vestmannaeyjum lækkar hagræðingarkrafan samkvæmt breytingartillögunum um 84,2 millj. kr. Tölur er varða Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja munu breytast við 3. umr. frumvarpsins vegna leiðréttinga á forsendum þeirra. Hagræðingarkrafan lækkar meira en hér kemur fram.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands lækkar hagræðingarkrafan um samtals 229, 1 millj. kr.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja lækkar hagræðingarkrafan um 270, 6 millj. kr.

Á St. Jósefsspítala, Sólvangi, lækkar hagræðingarkrafan um 137 millj. kr., en viðræður eru nú um sameiningu stofnunarinnar við Landspítalann.

Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytisins lækki um 4.239,1 millj. kr. Breytingar eru þessar helstar:

Lagt er til að fjárheimild á liðnum Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða lækki um 17,2 millj. kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi.

Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum, arðgreiðslum og söluhagnaði eigna lækki um 400 millj. kr. og verði 2.200 millj. kr. Gert er ráð fyrir að greiðsla vegna fjármagnstekjuskatts lækki um 300 millj. kr. og verði 2.100 millj. kr. Fjármagnstekjuskatturinn færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur þessi breyting því ekki áhrif á afkomu ársins.

Gert er ráð fyrir að fjárheimild 3.072 millj. kr. falli niður á liðnum Ríkisábyrgðir. Samþykkt hefur verið tillaga við 3. umr. frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2010 um að uppreiknaður höfuðstóll skulda með ríkisábyrgð sem fallið geta á ríkissjóð vegna innleystra ábyrgða föllnu bankanna þriggja frá og með 31. des. 2010 verði tekinn yfir af ríkissjóði og gjaldfærður á árinu 2010. Ríkissjóður mun eftir sem áður gera kröfur í þrotabú bankanna um endurheimtur.

Lagt er til að millifærðar verði tímabundið í tvö ár 16 millj. kr. af safnlið fjármálaráðuneytisins sem ætlað er að mæta ýmsum ófyrirséðum kostnaði á Bankasýslu ríkisins.

Gert er ráð fyrir að leigutekjur Fasteigna ríkissjóð lækki um 48,8 millj. kr. á milli ára og að rekstur fasteigna lækki um rúmar 166,5 millj. kr. vegna áætlunar um lækkun fasteignagjalda og þannig lækki rekstrargjöld umfram sértekjur um tæpar 118 millj. kr. Það veitir Fasteignum ríkissjóðs svigrúm til að ráðstafa meira fé í viðhald bygginga í eigu ríkisins sem því nemur.

Gert er ráð fyrir að fjárheimildir stofnana lækki samtals um 333,7 millj. kr. vegna nýgerðs kjarasamnings við Sjúkraliðafélag Íslands sem tók gildi 14. október sl.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 3,5% hækkun á almennu verðlagi og var þá miðað við forsendur þjóðhagsspár Hagstofu Íslands frá 15. júlí sl. um breytingar á vísitölu neysluverðs. Sú spá hefur verið endurmetin eins og áður hefur komið fram og spáð er nú að verðbólgan verði 2,3%. Verðlagsforsendur frumvarpsins hafa verið endurreiknaðar með tilliti til þessarar breytingar og hefur það í för með sér nokkra lækkun á fjárheimildum. Samhliða þessu eru gengisforsendur frumvarpsins endurreiknaðar og er nú miðað við gengi Seðlabanka Íslands 15. nóvember sl. en í frumvarpinu var miðað við gengisskráningu 1. september. Styrking íslensku krónunnar er 1,43% á þessu tímabili. Miðað við þennan endurútreikning eru fjárheimildir lækkaðar um 1.089,9 millj. kr. Skipting á einstök viðfangsefni er sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar.

Lagt er til að fjárheimild samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verði aukin um 1.541,2 millj. kr. og þar munar mest um eftirfarandi:

Lagt er til að fjárheimildir Vegagerðarinnar verði settar fram á einum fjárlagalið og því fylgja ýmsar millifærslur og gerðar eru breytingartillögur þar um.

Lögð er til 114,4 millj. kr. hækkun á framlagi styrkja til ferja og sérleyfishafa vegna breytinga á uppbyggingu styrkja til almenningssamgangna en í annarri tillögu er gert ráð fyrir að 94,5 millj. kr. lækkun á framlögum á liðnum Styrkir til innanlandsflugs.

Lagt er til að útgjaldaheimild Siglingastofnunar verði hækkuð um 7,8 millj. kr. Í 6. gr. laga um lögskráningu sjómanna, sem tók gildi 1. nóvember á þessu ári, er að finna tvær nýjar gjaldtökuheimildir, annars vegar fyrir aðgang að lögskráningarkerfinu og hins vegar fyrir þau störf sem innt verða af hendi við framkvæmd lögskráningar samkvæmt lögum. Vitað var að eftir sem áður mundi einhver hluti útgerða óska eftir að lögskrá eftir eldra fyrirkomulaginu sem nú er gert ráð fyrir að Siglingastofnun sjái um framkvæmd á. Gert er ráð fyrir að tekjur af þeirri gjaldheimtu verði 7,8 millj. kr. á árinu 2011.

Lögð er til 9 millj. kr. fjárheimild til reksturs Landeyjahafnar en gert er ráð fyrir að Landeyjahöfn verði að öllu leyti fjármögnuð með sértekjum.

Þá er lögð til 300 millj. kr. lækkun á framlagi til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu vegna aðhaldsaðgerða. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að hækkun gjalda af áfengi og tóbaki mundi skila um 1.000 millj. kr. í tekjur, en nú er gert ráð fyrir að sú hækkun verði minni en áformað var og að tekjuaukinn verði 700 millj. kr. lægri eða samtals um 300 millj. kr. Í ljósi þessa er gert ráð fyrir 300 millj. kr. lækkun á framlagi til starfsemi Isavia ohf., en gera má ráð fyrir að þessu verði mætt að einhverju marki með hækkun þjónustugjalda félagsins og verðlagningar í vörusölu. Aðhaldsaðgerð þessi kemur aftur til umræðu við 3. umr. frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækki um 170 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög í sjóðinn af skatttekjum og útsvarsstofnum árið 2011. Spáin miðast við að innheimtar skatttekjur verði 413.477 millj. kr. á árinu 2011 og útsvarsstofn ársins 2010 verði 825.915 millj. kr,

Lögð er til 700 millj. kr. hækkun á framlagi til sérstakra viðbótarframlaga til jöfnunarsjóðs og er því aukaframlagi ætlað að skapa svigrúm til að koma til móts við þau sveitarfélög sem eru í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Þá er gert ráð fyrir að 600 millj. kr. hækkun verði á útgjöldum vegna húsaleigubóta sveitarfélaga sem færast á þennan lið ef samkomulag um breytingar á bótakerfinu sem gert var 7. apríl 2008 verður framlengt óbreytt. Viðbótarkostnaður við kerfið vegna samkomulags væri þar með orðinn 1.528 millj. kr. á árinu 2011 en hann var upphaflega áætlaður 432 millj. kr.

Gerð er tillaga um 371 millj. kr. fjárheimild til jöfnunarsjóðs vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Um er að ræða greiðslur á árunum 2011–2013 sem ætlað er að vega upp á móti veikri stöðu útsvarsstofnsins á þessum tíma. Fjárheimildin tekur mið af áætlunum um útsvarsstofninn sem er áætlaður 846 millj. kr. árið 2011.

Gerð er tillaga um 201 millj. kr. fjárheimild vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Um er að ræða greiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga, m.a. vegna aðlögunar og útfærslu þjónustunnar. Samkvæmt samkomulagi um yfirfærsluna er gert ráð fyrir að árið 2012 verði framlagið hækkað í 395 millj. kr. og árið 2013 verði það 213 millj. kr.

Þá er gerð tillaga um 51 millj. kr. fjárheimild vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlaða á vegum sveitarfélaga sem fyrirhugað er að hefja á næsta ári. Notendastýrð þjónusta snýst um að einstaklingar sem þurfa varanlega aðstoð stjórni því að jafnaði sjálfir hvers konar stoðþjónustu þeir njóta, hvar og hvenær. Markmiðið er að fatlaðir geti notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns á við ófatlaða.

Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytisins verði aukin um 21,5 millj. kr. og felst í því að fjárheimild á Staðlaráð lækki um 1,3 millj. kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi.

Einnig er gerð tillaga um 22,8 millj. kr. framlag á liðnum til ferðamála.

Lagt er til að fjárheimild efnahags- og viðskiptaráðuneytisins verði aukin um 108,9 millj. kr. og eru þær þessar helstar:

Lagt er til að veitt verði tímabundið 15 millj. kr. framlag til þess að standa straum af kostnaði vegna aðkeyptrar þjónustu erlends sérfræðings. Vegna samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þarf að kaupa aðstoð og ráðgjöf erlends sérfræðings til þess að meta framkvæmd þeirra tillagna sem gerðar hafa verið um breytingar á umgjörð eftirlits á fjármálamarkaði og eftirfylgni við Basel-grunnviðmiðin. Sérfræðingurinn skal einnig gera áætlun um hvernig vinna megi gegn þeim veikleikum sem tilgreindir verða í matinu. Stefnt er að því að matið verði unnið og birt fyrir lok mars 2011.

Einnig er lagt til að veitt verði 10 millj. kr. framlag vegna nýrrar stöðu lögfræðings á skrifstofu efnahagsmála. Verkefni skrifstofunnar á sviði lögfræði hafa verið mjög umfangsmikil frá því að efnahagsmál komu til ráðuneytisins.

Þá er lagt til að veitt verði 4,6 millj. kr. framlag til að standa undir kostnaði sem nemur 40% stöðugildi og ferðakostnaður starfsmanns vegna vinnu við innleiðingu þjónustutilskipunar Evrópusambandsins hér á landi. Gert er ráð fyrir að starfsmaðurinn sinni einnig upplýsingaskyldu vegna þjónustutilskipunarinnar sem talin er verða töluverð.

Lagt er til að veitt verði 41 millj. kr. framlag til þess að fjármagna eftirlitsnefnd um skuldaaðlögun. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingar er lögð til breyting á 4. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Er þar gert ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra verði heimilt að skipa eftirlitsnefndinni, sem tilgreind er í 4. gr. laganna, starfsmenn sem starfa á ábyrgð og undir handleiðslu nefndarinnar.

Einnig er lagt til að veitt verði 20 millj. kr. framlag til liðarins Fastanefndir. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar úrskurðarnefnd sem geti úrskurðað um ágreining um niðurfærslu skulda fyrirtækis við sértæka skuldaaðlögun en reiknað er með að þrír einstaklingar skipi nefndina. Lagt er til að þeim aðila sem skýtur máli til úrskurðarnefndarinnar verði gert að greiða sérstakt gjald, málskotsgjald, sem renni í ríkissjóð. Er gjaldinu ætlað að taka mið af kostnaði við úrskurðarnefndina, svo sem vegna þóknunar nefndarmanna, reksturs mála fyrir nefndinni, starfsaðstöðu, sérfræðiaðstoðar og gagnaöflunar, en gert er ráð fyrir að um 100 mál fari til nefndarinnar á ári.

Lagt er til að 7,3 millj. kr. tímabundið framlag verði veitt til verkefnisins Athugun á skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórnin samþykkti 5. mars 2010 að ráðuneytið hefði forgöngu um. Gert er ráð fyrir að rannsóknin muni í heildina kosta allt að 50 millj. kr. fram til loka árs 2013. Þar af verði 40 millj. kr. vegna launakostnaðar en gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum vegna verkefnisins. Annar kostnaður er vegna hug- og vélbúnaðar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og viðhalds og þróunar gagnagrunns. Miðað er við að rannsóknin geti hafist fyrir lok þessa árs og að kostnaður ársins 2010 verði um 10 millj. kr., einkum vegna stofnkostnaðar við vél- og hugbúnað, en hækki svo í 13,3 millj. kr. á ársgrunni fram til loka árs 2013.

Lögð er til 11 millj. kr. hækkun á framlagi til Einkaleyfastofu í samræmi við endurskoðaða tekjuáætlun stofnunarinnar.

Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytisins verði lækkuð um 128,2 millj. kr. og eru ástæðurnar þessar helstar:

Skrifstofa um vernd, gróður- og dýraríki á norðlægum slóðum. Gerð er tillaga um 1,2 millj. kr. framlag til reksturs skrifstofunnar til að uppfylla samning Íslands gagnvart aðildarríkjum Norðurskautsráðsins og í samræmi við framlag annarra aðildarþjóða.

Gerð er tillaga um sömu upphæð til skrifstofu Norðurskautsráðsins um varnir gegn mengun hafsins.

Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag í fimm ár til vöktunar og skipulagðra viðbragða við uppblæstri og gróðureiningu við Skaftá.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til uppbyggingar í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, einkum í þeim tilgangi að bæta aðgengi fatlaðra, lagfæra göngustíga, framleiða og setja upp fræðsluskilti og bæta aðstöðu ferðamanna á annan hátt.

Lagt er til að framlag til framkvæmda í Vatnajökulsþjóðgarði verði lækkað um 25 millj. kr. og rekstrarframlag hækkað jafnmikil á móti. Tillagan er gerð samhliða annarri tillögu um 15 millj. kr. aukið rekstrarframlag og saman er þeim ætlað að byggja upp og efla þjónustu í þjóðgarðinum. Aukin aðsókn að þjóðgarðinum kallar á aukna þjónustu, svo sem landvörslu, og einnig hafa atvinnurekendur í nágrenni þjóðgarðsins kallað eftir lengri þjónustutíma í garðinum til að lengja virkan ferðamannatíma á hverju ári.

Lögð er til 600 millj. kr. lækkun á fjárheimildum á liðnum Endurvinnslan hf., skilagjald og umsýsluþóknun.

Gerð er tillaga um 350 millj. kr. framlag úr ofanflóðasjóði til að hefja framkvæmdir við varnargarða vegna snjóflóðahættu á Ísafirði og í Neskaupstað.

Lögð er til 8,5 millj. kr. fjárveiting til Náttúrustofnunar Íslands vegna aukins kostnaðar við flutning í nýtt húsnæði. Einnig er lagt til að náttúrustofur landsins hækki um 62,2 millj. kr.

Gerð til tillaga um 21 millj. kr. fjárveitingu til Veðurstofunnar til áframhaldandi verkefna vegna loftslagsmála. Fjárveitingin er grundvöllur þess að Veðurstofan geti verið aðili að og sótt um fjárveitingar m.a. til norrænna sjóða og til Evrópusambandsins.

Að lokum, virðulegi forseti, er lagt til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 1.407 millj. kr.

Í frumvarpi til fjárlaga voru vaxtagjöld áætluð 75.061 millj. kr., en þau eru nú áætluð 73.654 millj. kr. Mismunurinn er 1.407 millj. kr. til lækkunar. Meginskýringin er sú að áætlaðir vextir ársins 2011 lækka frá fyrri áætlunum og gengi krónunnar styrkist en á móti koma vextir af lánum sem ríkissjóður tekur yfir frá Ríkisábyrgðasjóði frá og með árslokum 2010 og áformuðum hærri erlendum vöxtum.

Greiddir vextir voru áætlaðir 75.341 millj. kr., en nú 71.422 millj. kr. Mismunur er 3.919 millj. kr. til lækkunar. Þar af eru 2,9 milljarðar vegna lægri nafnvaxta tveggja nýrra ríkisbréfaflokka sem gefnir voru út á síðari hluta árs 2010. Að öðru leyti er skýringa að leita í framangreindum þáttum.

Óskað er eftir nýjum og breyttum heimildum við 6. gr. frumvarpsins ásamt óskum um heimildir til kaupa og sölu jarða og fasteigna. Er óskað eftir því að heimild verði veitt til að efla eigið fé Byggðastofnunar um allt að 1.000 millj. kr. að fenginni úttekt iðnaðarráðuneytisins á framtíðarfyrirkomulagi lánastarfsemi stofnunarinnar. Heimild til að semja við sveitarfélögin um greiðslu og vaxtakjör vegna fjármagnstekjuskatts sem álagður er á árinu 2010 vegna tekjuársins 2009 og heimild til að veita nýjum Landspítala ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala við Hringbraut.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 13.299,3 millj. kr. til lækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta.

Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur verði 4.066,4 millj. kr., sem er 11 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Heildarjöfnuður verði neikvæður sem nemur 34,1 milljarði kr., sem er 2,3 milljarða kr. minni halli en í frumvarpi. Frumjöfnuður verði jákvæður um 18,8 milljarða og er það í samræmi við efnahagsmarkmið um að ná frumjöfnuði á árinu 2011.

Nokkur mál bíða 3. umr. en þau eru C-hluti, þ.e. 4. gr., og 5. gr. Auk þess bíða nokkur mál í A-hluta 3. umr. Má þar nefna málefni er varða sjúkrahús Vestmannaeyja, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands og Isavia.

Að lokum vil ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf. Í nefndinni ríkir lausnamiðað andrúmsloft þvert á stjórnmálaflokka sem mér líkar ákaflega vel. Ég vona að okkur takist að varðveita þann anda sem lengst. Það þýðir, virðulegur forseti, hins vegar ekki það að við séum alltaf sammála og það mun sennilega koma í ljós í ræðum nefndarmanna á eftir.