139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðu hennar áðan. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sérstaklega í ljósi orða hennar um lausnamiðað andrúmsloft í hv. fjárlaganefnd: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við getum breytt vinnubrögðunum við fjárlagagerðina til þess að styrkja þingið gegn framkvæmdarvaldinu?

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti fallist á þá skoðun mína að í fjáraukalögum hvers árs verði ekki samþykktar tillögur sem þegar hafa verið teknar af framkvæmdarvaldinu, og í raun búið að eyða þeim peningum sem þar er fjallað um án þess að það hafi verið borið undir þingið. Vegna þess að með þeim ákvörðunum er framkvæmdarvaldið að taka sér að útvíkka lögbundna þjónustu án þess að Alþingi fái að koma að því.

Í öðru lagi hvort hv. þingmaður taki undir þá skoðun mína að hugsanlega mætti setja ramma fyrir fjárlögin á vorþinginu og fela síðan framkvæmdarvaldinu að fylla hann út og kynna hann síðan við framlagningu frumvarpsins í október.