139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðu hans og sömuleiðis formanni fjárlaganefndar, báðar ágætar og málefnalegar. Vegna þess að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði nokkuð að umtalsefni tillögur sjálfstæðismanna og saknaði þess að menn hefðu rætt þær eða við þeim brugðist lét ég nú prenta út til gamans ræður sem ég hélt, bæði núna í vetur og í fyrra, þegar tillögur sjálfstæðismanna voru á dagskrá. Ég gerði mér far um að vera við umræður í báðum tilvikum og lauk að sjálfsögðu lofsorði á það að Sjálfstæðisflokkurinn legði stefnu sína fram.

Ég er ósammála hv. þingmanni varðandi það atriði sem hann hóf mál sitt á, þ.e. að ríkisstjórninni væri með öllu að mistakast að endurreisa efnahag landsins. Við getum örugglega öll óskað okkur þess og vildum gjarnan að það hefði gengið hraðar og að batinn væri meiri en það á ekki að neita staðreyndum eins og þeim að gríðarlegur árangur hefur náðst í ríkisfjármálum og stefnir í að samanlagður uppsafnaður halli, ef áform samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2011 ganga eftir, verði um 100 milljörðum kr. minni en efnahagsáætlun frá vorinu 2009 gerði ráð fyrir — og það munar um minna en það.

Í öðru lagi er að nást viðsnúningur í hagkerfinu. Það er orðið sæmilega vel staðfest með öllum fyrirvörum á niðurstöðum Hagstofunnar núna um þriðja ársfjórðung þar sem þó er spáð að orðið hafi 1,2% hagvöxtur, það fer nú út um allan heim að Ísland sé að vaxa á nýjan leik, ekki alltaf sem það ratar á forsíðu bæði Financial Times og New York Times, efnahagsmál á Íslandi. Það er ekki síður mikilvægt að Hagstofan dregur nú úr spá sinni frá því fyrr í ár um samdráttinn á öðrum ársfjórðungi, að hann hafi orðið lítill sem enginn. Það eru áreiðanlegri tölur eftir því sem frá líður eins og kunnugt er.

Útflutningsstarfsemin er mjög kraftmikil. Það stefnir í 110–120 milljarða afgang á vöru- og þjónustuviðskiptum Íslendinga á þessu ári. Það verður algjört met og það er gríðarlegur og dýrmætur viðsnúningur. Þegar tölur um innflutning (Forseti hringir.) eru skoðaðar er hann fyrst og fremst að vaxa í formi innflutnings á fjárfestingarvörum og hráefnum. Það eru líka góð skilaboð.