139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa gríðarlegu góðu ræðu og andsvar fullt af bjartsýni. Ég tók þó eftir því að hann gleymdi að geta þess að landið væri að rísa eins og sagt var hér tiltölulega snemma í haust. (Gripið fram í.) En vissulega ber að fagna öllum þeim áföngum sem við erum að ná á þessari erfiðu göngu. Við eigum að vera menn til að vega og meta hlutina í þokkalegu jafnvægi og vera ánægð með það sem vel gengur. Það eru hins vegar þeir mælikvarðar sem við erum að leggja á þetta — af því hæstv. ráðherra nefndi það sérstaklega að við værum að ná 100 milljarða bata umfram áætlanir á hallarekstri ríkissjóðs miðað við stöðuna eða langtímaáætlunina frá 2009 þá dreg ég það ekkert í efa en ég vil sjá hvernig sú tala er fengin. Ég fullyrði að sá grunnur sem þessi tala er reiknuð út frá — að menn hafi haft mjög óljósar hugmyndir um þær stærðir sem þá voru undir á þeim tíma og allt annað mat lagt á þá stöðu í dag en þá var gert. Ég vil sjá hvernig þetta er unnið. Ég fullyrði það, og legg á það áherslu að það er gert í fullri vinsemd, að upplýsingarnar sem við erum að vinna með í fjárlaganefnd hafa hingað til ekki gert okkur kleift að draga þetta fram. Bara eitt lítið atriði sem er þessi margumrædda landsframleiðsla, hún getur sveiflast til um tugi milljarða á einum fundi, allt eftir því við hvern við erum að ræða.

Þó svo að tíminn sé rétt að verða útrunninn hér í fyrra andsvari vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vilja horfa til efnahagstillagna okkar sjálfstæðismanna. Ég tel (Forseti hringir.) að ég fái tækifæri til að svara honum því í síðara andsvari.