139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf ánægjulegt að verða vitni að því þegar fólk er glatt, það gefur manni styrk og kraft til að takast á við daglegan veruleika. Ekki ætla ég að draga úr gleði hæstv. fjármálaráðherra í þessum efnum. Hann hlýtur þá væntanlega að vera mjög glaður yfir því að búið sem núverandi ríkisstjórn tók við af þáverandi minnihlutastjórn var miklu betur í stakk búið en menn ætluðu þegar sú ríkisstjórn var mynduð, minnihlutastjórnin. Menn voru þá kannski ekki með jafnveigalítil vopn í höndunum til að takast á við þau verkefni sem þá biðu og menn ætluðu á þeim tíma. Ég vona að það sé okkur báðum hið sama gleðiefni. Ég efast ekki um að það léttir hæstv. ráðherra róðurinn við þau erfiðu viðfangsefni sem hann glímir við í fjármálaráðuneytinu að hafa átt aðeins digrari sjóði en menn ætluðu þegar hrunið var að ganga yfir.

Ég fagnaði því sérstaklega að hæstv. ráðherra hefði gefið sér tíma til að ræða efnahagstillögurnar hér. Hann orðaði það á þann veg að hann hefði sýnt sjálfstæðismönnum þá kurteisi að ræða þetta. Gott og vel. Fínt mál að menn skuli vera kurteisir og umgangast hver annan af virðingu, hvar svo sem þeir eru í flokki. En ég hlýt að spyrja, eins og ég gerði í ræðu minni, hvernig menn vilja taka undir innihald þeirra tillagna og koma til framkvæmda einhverjum þeim atriðum sem þar er að finna. Það er sú krafa sem ég geri. Ef þeir ekki eru menn til þess ættu þeir að afgreiða með fullum rökum hvers vegna þeir vilja ekki framgang þeirra.

Ég læt mér bara nægja að nefna eitt lítið dæmi sem allir eru á einu máli um að verði til bata, ég nefni þetta enn og aftur en það er gagnaver á Reykjanesi. (Forseti hringir.) Hvað í ósköpunum dregur framgang þess máls alla þessa mörgu mánuði?