139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og mun reyna að svara þeim eftir bestu getu. Þær voru reyndar margar og í sjálfu sér þyrfti lengri tíma í að svara þeim en ég ætla að reyna að gera mitt besta.

Ég fagna því að koma eigi til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég frétti af því hér áðan að eitthvað ætti að gera, í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Við í þingflokki framsóknarmanna munum að sjálfsögðu fara yfir þær tillögur og meta en fögnum því að ríkisstjórnin sé að ranka við sér með þá vinnu.

Varðandi heimilin þarfnast enn stór hluti millitekjufólks aðstoðar. Stigin hafa verið jákvæð skref og ég fagna því hvað mest að vaxtabæturnar voru auknar um 6 milljarða. Ég legg til að við munum líka fara í barnabæturnar og auka þær. Skerðingin hefur verið gríðarlega þung fyrir barnafólk, hvort sem um er að ræða í velferðarkerfinu eða annars staðar og mæli ég með því að meiri hlutinn skoði þær tillögur okkar vandlega á milli 2. og 3. umr.

Varðandi orkuna og orkuframkvæmdir liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur tafið þau mál. Við getum nefnt dæmi. um Bakka á Húsavík sem var steypt í hið svokallaða sameiginlega mat en nú liggur fyrir að það tafðist um tvö ár. Ég hef sagt að hægt hafi verið að ráðast í Helguvík ef vilji hefði verið til þess hjá ríkisstjórninni og fara mun fyrr í orkuframkvæmdir, Búðarhálsvirkjun, neðri hluta Þjórsár. Allt eru þetta hlutir sem eru í einhvers konar stoppi út af því að þeir eru fastir í stjórnsýslunni.

Ég mun í (Forseti hringir.) seinna andsvari mínu svara varðandi heilbrigðiskerfið.