139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna andsvari hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Hann tekur hér til varna fyrir jólasveina Mývatnssveitar annað árið í röð. Ég hef alltaf sagt að ég geri ekki athugasemd við að það séu jólasveinar í Mývatnssveit, ég vil hafa jólasveina sem víðast. Ég held að það séu jólasveinar víða og að við séum jafnvel allir jólasveinar ef því er að skipta. En ég geri athugasemd við að þeir séu fjármagnaðir af skattfé. Ég geri mér líka grein fyrir því að mikið af því fé sem fer í þessi smáverkefni úti á landi er bráðnauðsynlegt fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Ég geri ekki athugasemdir við það sem slíkt, heldur geri ég athugasemd við úthlutunaraðferðina. Að öðru leyti er ég sammála því að allt sem gert er til að viðhalda sem öflugustu mannlífi úti um allt land er af hinu góða.

Hvað varðar húsafriðunina er ríkið með stefnumótun í húsafriðunarmálum. Til að framfylgja þeirri stefnu hefur verið stofnuð húsafriðunarnefnd. Hún starfar á faglegum forsendum sérfræðinga sem forgangsraða þeim húsum úti um allt land sem þarf að setja fé í að vernda. Þannig er hlutunum best fyrir komið. Það er til stefnumótun og það er til fagstofnun til að sinna því verki. Ég skil líka ósköp vel að mjög víða séu falleg hús sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur áhuga á að séu gerð upp, og það hef ég líka persónulega. Ég hef aftur á móti ekki fagþekkingu á því hvort það hús eigi frekar en önnur að ganga fyrir um fjármuni. Ég hef sjálfur haft afskipti af húsafriðunarnefnd vegna gamals húss. Ég get borið vitni um að ákvarðanataka hennar í sambandi við friðun á því húsi var algjörlega á faglegum nótum og hún stóð sig mjög vel í því.