139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó að ég verði að viðurkenna að ég geti ekki tekið undir allt í henni, sumt þó. Mig langar að ræða annað en jólasveina og húsafriðunarnefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem varðar hagfræðimenntun hans og þekkingu á fjármálum sem hann hefur unnið mikið með. Ég hef miklar áhyggjur af tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar og hefur komið fram áður að spá OECD um efnahagsþróun á Íslandi er mun lægri en við gerum ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem er hagvöxtur upp á 1,9%. Þó að það hafi komið fram hér áður og verið bent á að hagspá Seðlabankans sé hugsanlega hærri, 2,1%, mun þetta þýða um 15 milljarða kr. samdrátt á næsta ári ef spá OECD rætist. Spá Evrópusambandsins er öllu lakari, upp á 0,7% hagvöxt, sem þýðir að þá muni tekjur ríkissjóðs dragast saman um 27 milljarða kr. miðað við það sem við gerum ráð fyrir.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann, eins og ég sagði hér áðan, sérstaklega í ljósi menntunar hans og þekkingar hvaða mat hann leggi á þetta. Maður gæti ætlað að Evrópusambandið og það batterí sem því fylgir hefði mun meiri þekkingu á þeim mörkuðum sem við erum að framleiða og selja inn á, en hvað finnst honum um þetta? Vekur þetta honum ekki ugg um að hugsanlega muni þetta ekki ganga eftir? Eins og kemur fram er hagvöxturinn knúinn áfram af einkaneyslu og eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er ekki mikill afgangur hjá heimilunum í viðbót við skerðingu sem liggur fyrir nú þegar. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér um að tekjuhlið frumvarpsins sé mjög veik?