139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir hugleiðingar hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar um að tekjuhlið frumvarpsins sé mjög veik. Þess vegna leggjum við einmitt fram nýjar og mjög róttækar tillögur í þeim efnum. Ég leyfi mér alltaf að taka með varúð öllum framtíðarspám um hagvöxt, sérstaklega þeim sem koma frá beinum hagsmunaaðilum eins og í tilviki hér á Íslandi Seðlabankans sem er mjög bjartsýnisleg spá miðað við allar aðrar. Rökin fyrir spá Evrópusambandsins eru þau að það muni ganga mjög seint og erfiðlega að leysa úr þeim mikla skuldavanda sem heimilin eru í og þess vegna muni ekki verða sá nauðsynlegi vöxtur í einkaneyslu sem frumvarpið gerir t.d. ráð fyrir og sem m.a.s. Seðlabankinn segir að muni drífa áfram hagvöxtinn á næsta ári.

Við þurfum ekki annað en að horfa yfir sviðið til að sjá að þjóð eins og Íslendingar með 50–60 þús. heimili í alvarlegum fjárhagsvandræðum muni ekki eyða mjög miklum peningum. Sú aukning sem virðist hafa orðið í landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi þessa árs er að mínu mati bóla sem mun hjaðna aftur að loknum fjórða ársfjórðungi, og næsta ár munum við e.t.v. ekki sjá neinn hagvöxt. Ég dreg þær ályktanir einfaldlega af því sem ég skynja í þeim hagvísum sem við verðum vitni að á hverjum einasta degi. Tölur um landsframleiðslu eru mjög á reiki, sérstaklega á svona miklum óvissutímum, og ég tel að þær forsendur sem frumvarpið gefur sér í tekjum fyrir ríkissjóð á næsta ári séu óraunhæfar.