139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir margt sem hv. þingmaður hefur sagt um gerð fjárlaganna. Ég þekki sjálfur ekki persónulega hvernig aðrar þjóðir bera sig að við fjárlagagerð nema ég veit til þess að í Bandaríkjunum liggja drög að fjárlagafrumvarpi hvers árs fyrir í upphafi ársins á undan þannig að við mundum fá inn á borð til okkar fjárlagafrumvarp ársins 2012 einhvern tímann í janúar, febrúar á næsta ári.

Ég veit ekki hvort það er þörf á því hér en fjárlagafrumvarpið mætti örugglega koma mun fyrr til kasta Alþingis. Hvort Alþingi ætti að hafa meiri aðkomu að frumgerð fjárlaga þori ég ekki að tjá mig almennilega um, ég veit ekki alveg hvernig framkvæmdin yrði á því, en hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur t.d. lagt hér fram hugmyndir um svokallaða fjármálareglu sem setur ákveðnar skorður við útgjöldum ríkisins. Það er mál sem er alveg þess virði að skoða.

Annað sem hv. þingmaður talaði um var að færa þessa safnliði inn í menningarsjóði til að ráðuneytin mundu ekki skera þá niður. Þar er ég alveg sammála og þegar ég gagnrýni þessa safnliði og útdeilingu þeirra víða um land er ég ekki að segja að það sé ekki þörf á þeim sem slíkum, heldur gagnrýni ég úthlutunaraðferðina. Ég tel það ekki heppilega leið að þeim yrði öllum úthlutað úr ráðuneytunum sem slíkum heldur einmitt, eins og oft hefur komið fram hjá mörgum þingmönnum, í gegnum menningarsamningana eða aðrar þær stofnanir eða skrifstofur sem til eru úti á landi sem eru þá nær þessum verkefnum, vita betur um hvað verkefnin snúast og geta þá haft viðeigandi eftirlit með þeim. Það verður að fylgja með fjármununum að fylgjast með því að verkefnin séu unnin. Það hefur t.d. komið fram hvað varðar fjármuni til bókaútgáfu að tugir bóka hafa fengið mikil framlög en bækurnar hafa aldrei litið dagsins ljós. Það er nokkuð sem við þurfum að passa okkur á að gerist ekki.