139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrri andsvörum talaði hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um að sjálfstæðismenn sæju ekki ástæðu til þess að gera ágreining við meiri hlutann í menntamálanefnd hvað varðar framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Ég vil taka fram að í mínu nefndaráliti er ekki beinlínis ágreiningur. Hins vegar kemur skýrt fram óánægja mín varðandi skort á markvissari aðgerðum og ákvarðanatöku um það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu. Það sem endurspeglast í mínu minnihlutaáliti er að við fáumst ekki við vandamál eða niðurskurð sem við þurfum að brúa fyrir næsta ár. Við erum að tala um að til þess að ná raunverulegum árangri til að við getum náð að byggja upp á nýtt atvinnulífið hérna, (Forseti hringir.) þurfum við að fara í kerfisbreytingar. Það er það sem ég tel að meiri hlutinn þurfi að íhuga alvarlega og setja (Forseti hringir.) sér skýr markmið til þess að við getum náð að byggja okkur upp aftur.