139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var reyndar mjög kaflaskipt og ég ætla bara að segja eitt við hv. þingmann, hann hélt hér langa ræðu um að við hefðum ekki lagt fram neinar tillögur og síðan vísar hann í þingsályktunartillöguna með efnahagstillögum okkar sjálfstæðismanna og vill kalla þær inn í hv. fjárlaganefnd. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það en umræðunni er ekki lokið. Þetta eru vinnubrögðin sem okkur er boðið upp á. Við boðum bara algjörlega aðra leið í þessum málum.

Ég ætla hins vegar ekki að nota tíma minn í að ræða þetta við hv. þingmann vegna þess að ég mun fara vel yfir það í ræðu minni á eftir, allan þann árangur sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn þakka sér og hvernig hann er kominn til.

Hv. þingmaður gerði áðan athugasemdir við það að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gerði frekari hagræðingarkröfu á aðalskrifstofur ráðuneytanna og spurði svo: Vill hv. þingmaður að það sé umfram 9%? Svo sagði hann í ræðu sinni líka til viðbótar: Það er búinn að vera 20% niðurskurður á stjórnsýslu og eftirlitsstofnanir og það er pólitísk ákvörðun. Þá langar mig bara til að minna hv. þingmann á tvennt, í fyrsta lagi er í fjárlagafrumvarpinu, og það er mjög mikilvægt að hv. þingmaður taki núna eftir, gerð krafa á dómsmála- og mannréttindaráðuneyti um 3,6%, á aðalskrifstofur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis er gerð 4,8% krafa. Þetta er sameinað ráðuneyti þannig að það er engin stoð fyrir þeim 9% sem hv. þingmaður hélt fram í ræðu sinni. Þetta er algjörlega rangt. Hitt sem ég vil nefna, af því að hv. þingmaður er formaður samgöngunefndar, er að stöðugildum starfsmanna í opinberri stjórnsýslu hjá Vegagerðinni hefur fækkað um tvö frá því í byrjun árs 2008. Það er engin aðhaldskrafa. (Forseti hringir.) Það að tala um að þetta séu pólitísk skilaboð og pólitísk áhersla (Forseti hringir.) er bara rangt.