139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að detta í þessa umræðu í sambandi við efnahagstillögurnar vegna þess að við sögðum þegar málið var tekið út við lok 2. umr. að við mundum koma með breytingartillögu við 3. umr. Hv. þingmaður getur alveg andað rólega yfir því.

Fari frumvarpið í gegn eins og það er núna færir ríkissjóður rétt tæpa 3 milljarða kr. frá sveitarfélögunum til ríkisins. Því vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hann er formaður hv. samgöngunefndar, hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna og hvort honum finnist réttlátt — af því að hann fór mikinn í ræðu sinni og hældi hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum fyrir árangur — að færa svona miklar tekjur frá sveitarfélögunum í landinu inn í ríkissjóð. Sveitarfélögin sinna ekki síður mikilvægri grunnþjónustu í samfélaginu en ríkisvaldið.

Þegar tryggingagjaldið var hækkað á atvinnulífið í landinu brugðust forsvarsmenn þess við með því að segjast vilja taka þátt í því að auka skattlagninguna á tryggingagjaldinu vegna þess að það mundi hvort sem er koma niður á atvinnulífinu að greiða það. Nú er atvinnuleysið að minnka og tryggingagjaldið umfram það sem er greitt í atvinnuleysisbætur fer beint inn í ríkissjóð. Finnst hv. þingmanni þá ekki eðlileg skilaboð frá stjórnvöldum að skila því sem er tekið umfram aftur inn í atvinnulífið og inn í sveitarfélögin, einmitt til að koma fjárfestingu og hagvexti í gang? Ég vil fá svör við því hjá hv. þingmanni, sérstaklega í ljósi stöðu margra sveitarfélaga, hvort það sé gáfulegt og megi kalla góða fjármálastjórn að taka út úr sveitarfélögunum tæpa 3 milljarða kr. inn í ríkisstjórn frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við og skilja síðan sveitarfélögin eftir úti á gaddinum.