139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:26]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það sem ég ætlaði að gera í lok ræðu minnar en gerði í andsvari, að þakka sjálfstæðismönnum framlag við þá vinnu sem hér hefur farið fram, var vel meint og ætla ég ekki að draga neitt undan í því. Ég lít þannig á það starf sem hefur farið fram í fjárlaganefnd að það hefur verið ágæt samstaða um þau mál sem þar hafa verið rædd þó að stundum hafi menn tekist á, eins og gengur. Það hefur verið ágæt samstaða vegna þess að við erum, held ég öll, langflest ef ekki öll, með sama markmið í huga þó að við tökumst á um leiðir.

Þess vegna skiptir framlag minni hluta, stjórnarandstöðu, auðvitað máli þó að hlutverk stjórnarandstöðunnar sé fyrst og fremst að veita aðhald og gagnrýna tillögur og hugmyndir sem stjórnarliðar koma með fram. Þannig á það að vera. Það á að vera gagnrýnin umræða og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur sannarlega staðið undir því að halda uppi gagnrýninni umræðu á þetta fjárlagafrumvarp sem og mörg önnur mál sem við höfum rætt á þessum vettvangi.

Það tilheyrir nýjum vinnubrögðum að við eigum að hugsa öðruvísi en gert hefur verið. Við eigum að koma fram með tillögur okkar og hugmyndir, leggja þær á borðið, þó að við séum í stjórnarandstöðu eða minni hluta, og takast á um þær þar. Það er mín skoðun og langt í frá að ég muni vilja líta á þær sem tillögur sem eigi bara að slá út af borðinu vegna þess að þær komi frá stjórnarandstöðunni. Þær verða þá auðvitað að koma fram. Það er það sem ég meina, við viljum fá — eða ég tala um sjálfan mig — ég vil fá slíkar tillögur inn á borð, formlegar tillögur til að takast á um og rökstyðja og jafnvel að ná samkomulagi um. Það er oft þannig að þegar tillögur (Forseti hringir.) koma fram ná menn samkomulagi um einhverja hluti, jafnvel þó að það sé ekki nákvæmlega eins og lagt (Forseti hringir.) var upp með í upphafi.