139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og tek heils hugar undir með honum hve mikilvægt sé að koma hér atvinnuuppbyggingunni í gang til þess að auka hagvöxt og skapa störf fyrir fólkið í landinu, sérstaklega á þeim tíma þegar verið er að skera niður ríkisútgjöldin og fólk missir vinnuna. Það er mjög mikilvægt að einkageirinn geti tekið við auknum störfum.

Hv. þingmaður byrjaði á því í ræðu sinni að tala um þegar þær tillögur sem lágu fyrir í frumvarpinu um niðurskurð í heilbrigðismálunum voru dregnar til baka og sagði það mikið fagnaðarefni. Þar erum við hv. þingmaður algjörlega sammála. Hann benti réttilega á að margir hefðu gert athugasemdir við tillögurnar, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar.

Ég er dálítið hugsi yfir þessu vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson upplýsti í þinginu um daginn, eftir að frumvarpið var lagt fram, að það væri að sjálfsögðu lagt fram af hæstv. fjármálaráðherra fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar og hefði fengist samþykki fyrir því áður en það var gert. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefðu verið kynntar fyrir þingflokki Samfylkingarinnar þær tillögur sem þar voru, sem voru náttúrlega algjörlega óafsakanlegar, og hvort það hefði ekki verið rætt sérstaklega í þingflokki Samfylkingarinnar áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram og hver eigi í raun og veru þessar tillögur — ekki komu þær af himnum ofan — hvort frumvarpið sé eingöngu verk fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur. Framkoman í málinu og virðingarleysi stjórnvalda gagnvart starfsfólki stofnananna og ég tala nú ekki um þá sem nýta þjónustuna er náttúrlega alveg með eindæmum og er sennilega einsdæmi í sögu þingsins, framkoman gagnvart þessu fólki.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Var þetta ekkert rætt og fengið leyfi í þingflokki Samfylkingarinnar áður en frumvarpið var gert? Það virðist klárlega hafa verið samþykkt í ríkisstjórn.