139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Annars vegar sagði ég áðan að ég teldi ekki ásættanlegt að ráðast í róttækar og erfiðar kerfisbreytingar á jafnviðkvæmri og mikilvægri þjónustu og heilbrigðisþjónustunni í gegnum fjárlagafrumvarp. Þess vegna talaði ég gegn þessum tillögum strax frá fyrsta degi og fagnaði því endurmati og samráði sem varð núna síðustu vikurnar og skilaði okkur þessari niðurstöðu.

Hins vegar með fjárlagafrumvarpið og framlagningu þá er áratugahefð fyrir því, það er ekkert nýtt, svona hefur þetta alltaf verið. Auðvitað koma einstakir þingmenn að einhverjum þáttum í aðdraganda þess og í vinnunni mánuðina á undan, ég hendi ekki reiður á því og hef enga yfirsýn yfir það. Örugglega er leitað samráðs við ýmsa um margt í útfærslunni og vinnunni eins og gengur, ríkisfjármálahópa o.s.frv.

Frumvarpið sjálft hefur um áraskeið — ég veit hvort það er áratuga, ég er bara ekki nógu kunnugur því til þess að fullyrða um það — verið lagt fram með þessum hætti. Það er ekki nýjabrum eða uppátæki núverandi ríkisstjórnar. Fjárlagafrumvarp er þess eðlis að það hefur alltaf verið lagt svona fram, eina stjórnarfrumvarpið sem er lagt fram á Alþingi beint frá ríkisstjórn án þess að það sé lagt fyrst fyrir þingflokkana. Fyrir þessu er áratugahefð sem hefur sjálfsagt skapast af því að frumvarpið er viðkvæmt og menn telja að það hafi orðið að vinna það svoleiðis. Sjálfsagt má breyta því eins og öllu öðru.

Bara til að taka af öll tvímæli um það, af því að þingmaðurinn nýtti sér þetta til að fordæma sérstaklega ríkisstjórnina og vinnubrögð hennar, þá er þetta ekkert nýtt af hennar hálfu. Þetta hefur verið svona lengi og auðvitað leitast menn við að ná sem vönduðustum tillögum inn í fjárlagagerðina á öllum sviðum. Þessar tillögur (Forseti hringir.) um heilbrigðismálin mættu mikilli mótspyrnu og var þeim þess vegna breytt, sem betur fer.