139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör og fagna því að hann ætli að halda áfram að berjast fyrir uppbyggingu á Suðurnesjunum, ekki síst á sviði orkumála. Ég held að það sé mikilvægt að heyra líka þetta hljóð í stjórnarmeirihlutanum.

Ég vil koma að öðrum þætti í fjárlagafrumvarpinu sem skiptir náttúrlega gríðarlega miklu máli. Það eru tekjuforsendur fjárlaga. Nú sjáum við fram á og það liggur alveg ljóst fyrir að forsendur fjárlagafrumvarpsins og fjármálaráðuneytisins eru afar hæpnar, svo ekki sé meira sagt. Af hverju segi ég það? Jú, m.a. út af því að þjóðhagsspá Hagstofunnar er nýkomin og byggir á allt öðrum grunni en fjárlagafrumvarpið gerir. Við erum með forsendurnar frá ESB sem gefa um 1% hagvöxt, að mig minnir, og þá spá styrkir spáin frá Íslandsbanka frá því í gær. Það bendir því allt til þess að þær forsendur sem eru í fjárlagafrumvarpinu séu ekki réttar. Það gerir það að verkum að tekjuforsendur fjárlaga eru byggðar á hæpnum grunni.

Ég vil fá álit hv. þingmanns á því hvernig hann sjái þetta gera sig og þá hvaða tillögur hann sjái til úrlausnar í þeim efnum.