139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 2. umr. fjárlög fyrir árið 2011. Ég vil í upphafi máls míns, vegna þeirra orðaskipta sem urðu áðan milli mín og hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann talaði um að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hefðu ekki lagt fram neinar tillögur, taka af allan vafa um það og ítreka að frá okkur hefur legið þingsályktunartillaga frá því í nóvember með 41 útfærðum lið. Tillagan fjallar um það að við viljum fara aðra leið en ríkisstjórnin, skipta algerlega um kúrs og hætta þessari skattpíningarstefnu. Mér finnst, virðulegi forseti, mjög ódýrt hjá hv. þingmanni að koma með slíkan málflutning hingað og kalla eftir þessu. Ég er reyndar sammála því að það sé gott að þingflokkar leggi fram tillögur til að eiga efnislega umræðu og takast á um þær með rökum.

Ég vil í öðru lagi nefna það að fyrir rúmu ári, þegar við ræddum fjárlög fyrir árið 2010, buðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd meiri hlutanum upp á það að setjast niður með honum og vinna frekari hagræðingartillögur í frumvarpinu fyrir árið 2010. Við töldum mjög mikilvægt að það yrði gert því að víða er hægt að hagræða enn frekar en gert hefur verið nú þegar.

Þetta boð hefur nú verið ítrekað, að bjóða stjórnarmeirihlutanum upp á það að setjast niður og leita leiða til enn frekari hagræðingar. Því boði hefur ekki enn verið tekið. Við erum þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, sérstaklega núna fyrir árið 2011 þar sem tekjuhlið frumvarpsins er afskaplega veik og ekki þurfi mikið út af að bregða til að tekjur ríkisins dragist allverulega saman. Þess vegna er enn meiri ástæða til að leita allra leiða til að fara í frekari hagræðingu, það er mjög mikilvægt, og ég á erfitt með að trúa að stjórnarmeirihlutinn þiggi ekki þetta boð fulltrúa sjálfstæðismanna um að leita frekari leiða til hagræðingar.

Margir tala um hversu mikilvægt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og ég held að ekki séu miklar deilur um það í þingsal heldur hvaða leiðir eigi að fara. En við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að eins og að er stefnt við að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á árinu 2013 erum við einungis að standa undir beinum rekstri ríkisins og vaxtagreiðslum, þá hefur ekki enn myndast svigrúm til að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er allt eftir. Þá hafa margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sagt að þetta sé erfiðasta fjárlagafrumvarp sem lagt hefur verið fram. Ég er því miður ekki vongóður um að svo sé og hef miklar efasemdir um það. Það þarf að skera enn frekar niður á næsta ári og þarnæsta — þ.e. ef við náum ekki að koma hagvexti í gang sem ekkert bendir til, a.m.k. ekki á meðan núverandi hæstv. ríkisstjórn situr, svo mikið er víst, hún verður þá að snúa kúrsinum algerlega við svo ekki þurfi að skera niður um þessa 34 milljarða. Og ég er nokkuð viss um að fyrir 3. umr. munu verða frekari útgjaldatillögur sem klárlega eru ekki inni og eru vanmetnar og þurfa að koma inn. Hallinn verður ugglaust 36–38 milljarðar í það minnsta og sennilega yfir 40 milljarðar. Því er mjög mikilvægt að fólk átti sig á að það er gert með þeim hætti að skera verður enn frekar niður og það er alltaf verra þegar skorið er niður ofan í það sem búið er að gera áður.

Mig langar, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir þann veikleika sem ég tel vera mestan í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. tekjuhliðina. Komin er ný hagspá frá Hagstofunni, þjóðhagsspá, og hún fór verulega mikið niður frá þeirri spá sem frumvarpið sjálft gerði ráð fyrir. Það er búið að færa hana inn í breytingartillögur og laga fjárlagafrumvarpið að þeirri hagspá. En ég vil þó minna á — af því að mikið var talað um það hér fyrir hrunið að við hlustuðum hugsanlega ekki á váleg tíðindi og tækjum bara bestu mögulegu niðurstöðu sem gat fengist í allt sem við vorum að gera — að fyrir liggja aðrar spár. Annars vegar er frá OECD sem gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði mun minni og gangi spá OECD eftir munu tekjur ríkissjóðs lækka um 15 milljarða frá því sem ráð er fyrir gert. Ég tala nú ekki um þjóðhagsspána eða spána hjá Evrópusambandinu, sem ég taldi að margir hv. þingmenn í þessum sal tækju sem heilagan sannleik eins og allt sem kemur frá Evrópusambandinu. Hún gerir einungis ráð fyrir 0,7% hagvexti og það þýðir, virðulegi forseti, að tekjur ríkissjóðs munu minnka um 27 milljarða. Þá sjá allir fyrir sér, ef þetta gengur eftir, hversu risavaxið verkefnið er. Ég held að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við erum að taka þá spá sem er hugsanlega best þó svo að bent hafi verið á það, til að gæta allrar sanngirni, að spáin frá Seðlabankanum er 2,1%. Við erum klárlega að taka þetta í efri kantinum en að sjálfsögðu verðum við að taka mið af einhverju og viðmiðið hefur verið þjóðhagsspáin frá Hagstofunni, en það er hins vegar mjög mikilvægt að fólk átti sig á þessu.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur reikningslega séð, stærðfræðilega og tölulega séð. Um það þurfum við ekki að deila, það liggja fyrir tölur klárar um þann árangur sem hefur náðst í því að ná niður halla ríkissjóðs. Og þó að ég ætli ekki að eyða miklu af ræðutíma mínum í að fara yfir þetta á þeim grunni sem var byggður fljótlega eftir hrunið þá var það þannig að menn spáðu þessu kannski, höfðu náttúrlega ekki mikið í höndunum, voru svona frekar að giska inn í framtíðina sem eðlilegt er, og miðað við þær svörtustu spár hefur gengið ágætlega. En það er ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, svo mikið er víst. Það er vegna þess að innviðir samfélagsins voru miklu sterkari en ráð var fyrir gert, bæði útflutningsgreinarnar og það að við eigum gott og menntað fólk. Það er það sem hefur hjálpað okkur í því að ná betri árangri, því að ekki er það stefna ríkisstjórnarinnar, hún þvælist fyrir í öllum málum sem hún getur gert.

Hér hafa margir komið og hælt sér af styrkri fjármálastjórn og menn hafi náð miklum árangri. Við skulum bara fara yfir þetta í fljótu bragði og stikla ég þá aðeins á stærstu hlutunum. Hvernig hefur jöfnuðinum verið náð? Honum hefur verið náð með því að skera niður í verklegum framkvæmdum og svo ég nefni bara vegagerð eru það einir 12 milljarðar. Það er búið að skerða kjör hjá elli- og örorkulífeyrisþegum um 11 milljarða. Það er búið að færa 2,7 milljarða af næsta ári fyrir utan það sem gerist á þessu ári, 1.200–1.400 millj. kr., frá sveitarfélögunum í landinu inn í ríkissjóð. Það sem búið er að gera, er hvað? Það er ágætt að rifja upp að í fyrra var gert samkomulag við stóriðjuna um að greiða 1.200 millj. á ári í þrjú ár, 2011, 2012 og 2013. Síðan skyldi farið að greiða fyrir fram greiddan skatt. Þarna er því búið að ná í 3,6 milljarða af framtíðartekjum ríkissjóðs til að greiða niður hallann á ríkissjóði. Svo þegar kjörtímabilinu lýkur hjá hæstv. ríkisstjórn þarf að fara að borga til baka. Menn geta því sagt að verið sé að seilast inn í framtíðina til að ná í tekjur eða vera með svokallaðar einskiptisaðgerðir. Þetta eru einungis örfá atriði. Á síðasta ári gerðist það, virðulegi forseti, að seldar voru eignir fyrir 20 milljarða og vaxtagjöld voru um 20 milljörðum lægri en var reiknað með, það gerir 40 milljarða. Það er það sem er að hjálpa okkur, og sem betur fer er eitthvað að hjálpa okkur í þessu öllu saman. En mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar við ræðum efnislega um hvað hefur gerst.

Síðan hefur ríkisstjórnin valið að fara þá leið að skattpína allt, sama hvað það er, bæði fyrirtækin og heimilin, og það virðist ekkert lát vera á því. Það hefur gert það að verkum að við erum búin að ná halla ríkissjóðs niður í það sem hann er. Það er þau atriði sem ég hef talið hér upp. En hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert til að liðka fyrir fjárfestingum í landinu, akkúrat ekki neitt. Og að halda því fram að það sé vegna stefnu ríkisstjórnarinnar sem menn hafi náð einhverjum árangri er alrangt. Við skulum bara rifja það upp að þegar hæstv. fjármálaráðherra var búinn að vera með málefni Magma Energy í fanginu í heilt ár og hafði reynt að selja lífeyrissjóðunum það og fleirum innan lands sem vildu ekki kaupa hlutinn af því að það var svo mikil áhættufjárfesting, þá kom frægt fyrirtæki eins og kunnugt er frá Svíþjóð og keypti hlutinn af sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Þá varð uppi fótur og fit. Það endaði hvernig, virðulegi forseti? Skipuð var nefnd til að fara ofan í starf annarrar nefndar til þess að vita hvort gjörningurinn væri löglegur og í lagi. Niðurstaðan var sú. Og til að rifja það upp þá kom einn hv. þingmaður, Atli Gíslason, og sagði: Ja, ef þetta er allt saman eins og þetta á að vera verður bara að þjóðnýta þetta, þá verður bara að þjóðnýta fyrirtækið. Hvers konar skilaboð eru þetta? Það vita allir sem vilja vita og þeir sem vilja koma inn með erlenda fjárfestingu, og við erum öll sammála um að við þurfum erlenda fjárfestingu, en hvers konar skilaboð eru þetta? Þetta eru mjög dapurleg skilaboð og þetta gerir það kannski að verkum að menn sýna ekki mikinn áhuga á að koma hingað með erlenda fjárfestingu. Það eru staðreyndir málsins.

Það sem gerðist líka í þessu, virðulegi forseti, og ég vil undirstrika það, af því að við gleymum okkur oft þegar menn eru farnir að tala um stórar tölur, að þegar maður hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum mæla fyrir bandorminum sem hann kallaði svo — ég hef nú sagt það oftar en einu sinni að þetta er ekki neinn bandormur, þetta eru bara kyrkislöngur sem alltaf er verið að mæla fyrir hér því að þetta er að drepa allt — þá var talað um að þetta væru smávægilegar hækkanir, þetta væri bara smotterí, bara rétt til viðbótar því sem búið er að gera. Það er búið að gera þetta erfiða, þetta mikla sem hefur áhrif á stöðu heimilanna í landinu. Og hvað var það sem hæstv. fjármálaráðherra var að boða? Hann var að boða í þessum litla bandormi, sem eins og hann kallaði það var nánast ekki neitt neitt að hans mati, 8,7 milljarða kr. tekjuskerðingu hjá heimilunum. Ráðstöfunartekjur heimilanna minnkuðu um 8,7 milljarða. Það er ekki neitt neitt, bara svona pínulítið. Því til viðbótar var þetta hækkun á skuldir heimilanna um 2,4 milljarða fyrir utan fyrirtækin. Menn hljóta að sjá og skilja og skynja hvaða áhrif þetta hefur. Og þegar menn eru farnir að tala um svona tölur og kalla þær ekki neitt held ég að menn þurfi að fara að hugsa sig aðeins um.

Okkur greinir kannski helst á um hvaða leið skuli að fara, við viljum ekki fara skattahækkunarleiðina en menn geta svo deilt um og tekist á um það pólitískt og hugmyndafræðilega hvað er rétt eða rangt. Allir eru sammála um að þegar mikil uppsveifla er í hagkerfinu sé ekki mjög skynsamlegt að lækka skatta en þegar niðursveifla er í hagkerfinu hlýtur að sama skapi að vera mjög óskynsamlegt að hækka þá. Svo hafa menn fært fyrir því rök að ekki sé fært að fara aðra leið en hina svokölluðu blönduðu leið, með niðurskurði og skattahækkunum. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því þegar við skerum niður í ríkisrekstrinum að það er nánast bara ein leið fær sem eitthvað gefur, þ.e. að fækka starfsfólki vegna þess að stærsti hlutinn, ætli það séu ekki 70–80%, af útgjöldum ríkisins til stofnana eru laun. Þess vegna er mjög mikilvægt að einkageirinn fái að dafna og blómstra til að geta tekið við þessu fólki í vinnu en það virðast ekki allir skilja þannig að menn geta endalaust tekist á og rifist um þetta.

Ég vil þó segja áður en ég lýk þessum kafla ræðunnar að það hefði verið mjög mikilvægt ef við hefðum getað klárað að ræða efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna og fengið botn í það mál og vísað því inn í hv. fjárlaganefnd. En eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra tók hann þátt í umræðunni og menn höfðu skoðanaskipti og það er mikilvægt, ég tek undir það. Það er líka mjög mikilvægt að menn líti ekki þannig á, sama hver það er, hvort sem það erum við sjálfstæðismenn eða aðrir, að þeir hafi alltaf einu réttu lausnina, því að ef menn trúa því, eins og margir hv. þingmenn hér inni, þá er það ekki gott til árangurs. Það er einmitt mjög gott að taka gagnrýna umræðu um þá hluti sem menn greinir á um. Þá eru mestar líkur til þess að menn komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni, virðulegi forseti, þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, sú hörmung sem kom 1. október og var lögð fram. Ég get ekki orða bundist yfir því virðingarleysi sem stjórnvöld sýndu starfsfólki og notendum heilbrigðisþjónustunnar víðs vegar úti á landsbyggðinni, það var algjört og það er óafsakanlegt, með öllum þeim ótta og þeirri upplausn sem það olli í samfélaginu. Sem betur fer fór það svo að fólk reis upp um allt land og hrakti þessar tillögur til baka. Og það minnir mann á annað mál þar sem þjóðin tók fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum og er hugsanlega að dúkka hér upp, jólakötturinn eins og það hefur verið kallað, þ.e. Icesave-málið. Það fór nefnilega eins með þessar hugmyndir í heilbrigðismálunum hjá hæstv. ríkisstjórn og gerðist með Icesave, þjóðin tók fram fyrir hendurnar henni.

Síðan getum við deilt um hvort búið sé að skera nóg niður og hvar eigi að skera niður, hvernig eigi að gera það og hvernig eigi að hagræða. Það er alltaf gott að gagnrýna, ég skal viðurkenna það, en ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd buðum stjórnarflokkunum upp á það í fyrra að skera niður um 8 milljarða til viðbótar. Ég skil ekki enn af hverju því var hafnað. Þá hefðum við borið ábyrgð á því að skera það niður, tekið þátt í því og þurft að verja það. Nei, það var ekki þegið. Enn höfum við boðið upp á þetta og ég ætla að vona að tekið verði í útrétta sáttarhönd þannig að við getum hagrætt enn frekar.

Mig langar að nefna tvö mál og það geri ég einungis vegna þess að þau voru rædd fyrr í vikunni. Annað er um Byggingarstofnun. Nú er verið að setja 100 millj. aukalega í það stofna Byggingarstofnun og ég bara spyr: Til hvers? Það er ekki verið að byggja neitt, það er ekki verið að gera neitt þarna. Þetta er bara eitthvert hugðarefni um að steypa saman stofnunum þó að það kosti 100 millj. til viðbótar. Það er eins og til sé nóg af peningum.

Hitt er vatnatilskipun Evrópusambandsins upp á 80 millj. sem á að taka gildi 2024. Hvernig stendur á því að við getum ekki hægt á svona verkefnum í þeirri stöðu sem við erum? Við mundum gera það ef við værum að hugsa um heimili okkar, þá mundum við gera það.

Af því að ég átti orðaskipti við hv. þm. Björn Val Gíslason áðan og hann náði ekki að svara annarri spurningu minni ætla ég að fara aðeins yfir hana aftur. Við erum að tala um að það sé 9% niðurskurður á stjórnsýslustofnunum og eftirlitsstofnunum. Ég fór í gegnum ráðuneytin áðan og get nefnt aftur að dóms- og kirkjumálaráðuneytið er með 3,6% niðurskurð, samgönguráðuneytið er með 4,8%, þetta stendur í fjárlagafrumvarpinu, og svo geta menn verðlagsbætt þetta en niðurstaðan er samt, ekki 9%. Það þarf þá að nota mjög góða prósentu til að ná því upp. Hver voru skilaboðin þegar mælt var fyrir breytingum á Stjórnarráðinu? Þau voru að auðvitað þyrfti framkvæmdarvaldið að sýna fram á að það ætlaði spara þegar það gerði kröfur á undirstofnanir sínar um að gera slíkt. Sameinuð skrifstofa í sameinuðu ráðuneyti, þ.e. tvær aðalskrifstofur verða ein, 3,6%, 4,6%. Það er allur sparnaðurinn. Það er ekki nóg að tala um að það eigi að spara og gera það svo ekki.

Þessu til viðbótar af því að ég nefndi líka hvað gerst hefur eins og t.d. með Vegagerðina. Þar er búið að skera niður nánast allt framkvæmdafé. Auðvitað gefur augaleið, þó að ég sé ekki sáttur við hve harkalega hefur verið gengið fram þar, að ekki er hægt að setja jafnmikla peninga í að byggja upp vegi og gert hefur verið á undanförnum árum. Það sjá það allir heilvita menn. En hvað hefur gerst í starfsmannahaldi í stjórnsýslustofnun Vegagerðinnar, hvað hefur gerst þar? Frá því í ársbyrjun 2008 til 15. nóvember 2010 hefur verið fækkað þar um tvö stöðugildi. Og ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði að í almennri stjórnsýslu væri búið að skera niður um 20% en það er ekki búið að gera það alls staðar á þessum niðurskurðartíma. Það er klárlega fullt af stofnunum sem hafa ekki gert það. Við höfum líka orðið vitni að því að margar stofnanir, við höfum líka séð það í athugasemdum frá Ríkisendurskoðun, hafa ekki fylgt eftir tilmælum hæstv. forsætisráðherra um að lækka laun. Það eru nefnilega margar stofnanir sem eru enn svona eins og fríríki. Það er staðreynd. Þess vegna er svo mikilvægt að menn standi saman og reyni að ná einhverjum árangri þar, til að ná því markmiði að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum. Það er lífsnauðsynlegt.

Svo get ég ekki orða bundist, virðulegi forseti, yfir kynjaðri hagstjórn og að setja í þetta tugi milljóna. Það er í besta falli lélegur brandari. Á sama tíma og konur eru reknar úr störfum í heilbrigðisþjónustunni setja menn svona pólitísk gæluverkefni inn í ráðuneytin. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Svo kalla menn þetta styrka stjórnun. Þetta gengur algjörlega fram af mér, algjörlega, og allar þessar pólitísku ráðningar sem hafa átt sér stað. Ríkisstjórnin hefur sett met í mörgu, bæði skattahækkunum og líka því að ráða fjörutíu og eitthvað starfsmenn í ráðuneytin án auglýsingar. Ég sé nú bara hæstv. dómsmálaráðherra eða mannréttindaráðherra er víst vissara að kalla hann núna eftir ákæruna á hendur Geir H. Haarde, hæstv. mannréttindaráðherra, ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og þetta hefði verið gert með þessum hætti, þessar pólitísku ráðningar. Ég sé hann fyrir mér í ræðustól halda margar ræður um það. Þetta er algerlega furðulegt.

Síðan vil ég líka benda á, virðulegi forseti, að hér verið er að leggja til ekki nema eins og eitt stykki milljarð í Byggðastofnun en það vantar klárlega tvo til viðbótar og það kemur þá væntanlega fyrir 3. umr. Ég vil alveg sérstaklega eyrnamerkja þennan milljarð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því að hann vaknaði illa einn morguninn, svaf eitthvað illa, blessaður, fór öfugum megin fram úr eins og kemur oft fyrir hann. Þá tók hann bara einhverja ákvörðun sem kostaði skattgreiðendur 700–800 millj. Um það þarf ekki að deila vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðfesta það í svari. Það kostaði skattgreiðendur 700–800 millj. Það hefur líka verið upplýst að þetta var ekki einu sinni kynnt í hæstv. ríkisstjórn. Nei, hann tók þessa ákvörðun sjálfur, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er allt í lagi að senda bara skattgreiðendum þetta. Það er hægt að taka enn frekar af þeim því að þar er borð fyrir báru, en mörgum finnst það a.m.k. ekki.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem við þurfum að gera er að breyta fjárlagavinnunni frá upphafi til enda til að ná tökum á því vandamáli sem við erum að vinna að. Nú er það svo að markaðar tekjur fara inn í margar stofnanir sem sýnir það þegar menn fara að rýna tölur hjá stofnununum að staðreyndin er sú að á sama tíma og verið er að skera niður heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, aldraða og öryrkja, sem er sársaukafullt, við vitum það öll, hafa sumar stofnanir verið að blása út. Þær hafa verið að auka við. Þetta eru eftirlitsstofnanir, stjórnsýslustofnanir sem hafa verið að gera það. Jafnvel er dæmi frá árinu 2009 um 15,4% sem ein stofnun hefur bætt við útgjöld sín umfram bæði fjárlög og fjáraukalög. Halda menn að hægt sé að stjórna einhverju með þessum hætti? Auðvitað er það ekki hægt. Og hafa enga yfirsýn yfir það sem verið er að gera? Það er mjög mikilvægt að þessu verði breytt og að allar markaðar tekjur fari í ríkissjóð og síðan ákveði Alþingi viðkomandi fjárveitingu til ákveðinna stofnana og ráðuneyta. Það er gríðarlega mikilvægt því að við þessar aðstæður er ekki hægt að gera það með því að sumir geti verið að bæta við á sama tíma og skorið er niður inn að beini hjá hópum sem síst eiga það skilið.

Ég vil líka segja í sambandi við vinnuna sem við verðum að breyta og það hefur verið rætt á fundum hv. fjárlaganefndar — þar er hún reyndar mjög lausnamiðuð og fínn starfsandi og góðir nefndarmenn sem sitja þar saman og nánast trúnaður á milli hv. þingmanna. Við þurfum að breyta vinnubrögðunum þannig að settar verði reglur um að framkvæmdarvaldið komi ekki með gögn á fundi nefndarinnar nema með ákveðnum fyrirvara og hann þyrfti að vera 1–2 dagar, þannig að fólk gæti lesið gögnin og vitað um hvað verið er að ræða, oft og tíðum tugir milljarða. En þeir mæta fyrir nefndina og mönnum eru rétt gögnin yfir borðið. Þetta eru ekki nokkur vinnubrögð, þessu verður að breyta. Hins vegar tel ég, virðulegi forseti, að um þetta sé samstaða í hv. fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Það kom fram áðan að bæta á við aflaheimildir. Ég talaði mjög oft um það á síðasta ári að bæta ætti við þorskkvótann um 40 þúsund tonnum því að við verðum að skapa verðmæti til þess að vinna okkur út úr kreppunni, ekki skattpína okkur út úr henni og skera okkur niður á sama tíma. Það gengur ekki upp. Það endar á öngstræti. Hefðum við gert þetta í fyrra hefðum við ekki verið að minnka veiðistofninn, við hefðum verið að bæta veiðistofninn því að hann var að aukast. Hvernig voru markaðsaðstæðurnar í fyrra? Það var mjög hátt verð á fiski og eftirspurn í fyrra en núna gæti, því miður, farið að koma ákveðið bakslag í það á árinu 2011. Erfiðari markaðsaðstæður að því leyti til að efnahagsástandið er líka slæmt í mörgum öðrum löndum, í mörgum löndum í Evrópu þar sem okkar markaðir eru. Síðan er verið að bæta 100 þúsund tonnum við þorskkvótann í Barentshafi fyrir næsta ár þannig að sölumöguleikarnir og verðin verða hugsanlega og að öllum líkindum mun lægri á næsta ári. Ég tel, virðulegi forseti, að það hafi verið algjör mistök að bæta ekki við heimildir í fyrra.

Þá langar mig að fara aðeins yfir það sem kom mér a.m.k. töluvert á óvart við fjáraukalögin sem við fjölluðum um í gær, og líka að búið var að setja breytingar inn í fjáraukalögin, en það eru allar þessar færslur í bótaflokkunum. Það er mjög mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega. Við höfum kallað eftir því, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, að þetta verði skoðað mjög vel. Ein af þeim erfiðu aðgerðum sem var farið í árið 2009 með einum bandorminum var að fresta hækkunum hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum upp á 7 milljarða. Það var farið með það inn í árið 2010 og reiknað með að skerðingin yrði sú. Síðan kemur í ljós, virðulegi forseti, að skerðingin sem átti að verða hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum er 4 milljörðum hærri en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu 2010. Þetta segir okkur að við höfum ekki nægilega yfirsýn, þetta er of flókið kerfi og afleiðingarnar af þeim ákvörðunum sem eru teknar eru kannski mun alvarlegri og hafa meiri áhrif en til var ætlast. Því er gríðarlega mikilvægt að þetta mál og þessar skerðingar verði skoðaðar sérstaklega. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að þegar fulltrúar þessara hópa, þ.e. fulltrúar Landssambands eldri borgara og öryrkja, komu fyrir fund nefndarinnar kvörtuðu þeir sáran og hafa gert það allt þetta ár yfir þeim skerðingum sem þeir hafa verið að fá. Þetta staðfestir einmitt þær ábendingar sem þetta ágæta fólk hefur verið að benda á. Það hefur verið að benda á þetta.

Mig langar að taka bara tvö, þrjú dæmi. Ellilífeyririnn minnkar um 1.400 millj. kr. meira en ráð var fyrir gert í frumvarpinu. Hér er flokkur sem heitir Frekari uppbætur sem hefur síðan marga undirflokka. Þar eru 1.200 millj. kr. Gert var ráð fyrir að greiðslur sem eldri borgarar mundu greiða til öldrunarstofnana sem þeir dvelja á yrðu 373 millj. samkvæmt frumvarpinu. Hver var leiðréttingin? Leiðréttingin var sú að það var bætt við 557 millj., þ.e. meira en tvöfaldað það sem fyrir var. Það staðfestir enn og aftur hversu mikilvægt er að menn átti sig á þeim aðgerðum sem teknar eru gagnvart þessum hópum.

Af því að ég ræddi áðan tekjuhlið frumvarpsins sem ég tel mjög veika, og það staðfestist líka núna þegar við vorum að loka fjárlögum fyrir árið 2010 í fjáraukalögunum í gær, vil ég enn og aftur vekja athygli á því að tekjuskattur og staðgreiðsla einstaklinga er 5,1 milljarði undir áætlun miðað við þá þjóðhagsspá sem við lögðum upp með fyrir árið 2010. En samt er atvinnuleysið einu prósenti minna en reiknað var með. Atvinnuleysið er mun lægra en ráð var fyrir gert í frumvarpinu sem hefði átt skila þessum tekjum. Hvað segir þetta okkur, virðulegi forseti? Það er ugglaust margt sem spilar þarna inn í. Væntanlega það að fólk er að flytja úr landi og er þess vegna ekki skráð á atvinnuleysisskrá. Það er líka sveigjanlegri vinnumarkaður, held ég. Ég held að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegri en reiknað var með. Ef við tökum bara lítið dæmi: Á 100 manna vinnustað þarf að skera launakostnað niður um 10% og því þarf að segja upp 10 starfsmönnum. Þá bregst umhverfið þannig við og þeir sem vinna á vinnustaðnum að lækka frekar alla um 10% í launum en að láta 10 starfsmenn hætta, þ.e. það taka allir á sig kjaraskerðingu. Þetta er hugsanlega einn af þeim þáttum sem „blöffa“ atvinnuleysið. Þess vegna tel ég mjög varhugavert, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu fyrir árið 2011, að reikna einungis með því að taka 1% af atvinnuleysinu og þar af leiðandi minnka útgreiðslur atvinnuleysistrygginga um tæpa 3 milljarða, sem er mjög eðlileg stærð, en telja síðan á tekjuhliðinni að það hafi óveruleg áhrif á tekjuskatt einstaklinga. Það tel ég mjög óvarlegt, þetta tel ég veikleika í frumvarpinu.

Margir tala um að það hafi náðst árangur og ég viðurkenni að mun færri stofnanir eru nú reknar umfram heimildir en verið hefur mörg undanfarin ár. Það er hárrétt. Eigi að síður er það samt þannig allt of margar gera það enn og það er mikið um dulinn halla í fjárlögunum. Nærtækasta dæmið er Landspítalinn sem er núna búinn að fá 2,8 milljarða frysta og náði 3,2 milljarða hagræðingu. Við bentum á það í umræðunni fyrir ári síðan að þetta væri óraunhæf krafa á Landspítalann. Það væri ekki framkvæmanlegt að skera niður um 6 milljarða á einu ári. Þetta náði hins vegar fram og var sett inn í frumvarpið. Heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið brugðust síðan við á miðju þessu ári með því að semja við Landspítalann um að frysta 2,8 milljarða kr. halla með því skilyrði að Landspítalinn héldi sig innan fjárlaga, sem er mjög ánægjulegt og starfsfólk og forstöðumenn Landspítalans eiga mikinn heiður skilið fyrir að hafa geta dregið saman um 3,2 milljarða, það er virðingarvert og gott starf. En það veit enginn hvað um þessa 2,8 milljarða verður. Ríkið lánar Landspítalanum þessa peninga, það eru ekki reiknaðir dráttarvextir á þá og þetta finnst mér mismunun gagnvart öðrum stofnunum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir janúar til ágúst 2010 eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við það og þar eru þrjár stofnanir sérstaklega tilgreindar og reyndar 10 til viðbótar sem ekki hafa skilað rekstraráætlunum fyrir árið 2010. Þetta er harðlega gagnrýnt. En eigi að síður hefur náðst árangur og það er ánægjulegt að þarna eru mun færri stofnanir en áður.

Ég vil koma aðeins að því í sambandi við fjáraukalögin, af því að við vorum að ræða þau í gær, að það er algjörlega óþolandi að mínu mati — og það hefur viðgengist hér í áranna rás og sá slæmi ósiður byrjaði ekkert hjá núverandi ríkisstjórn þó að hún hafi tekið þá marga slæma upp — þegar framkvæmdarvaldið tekur sér vald til að ákvarða umfang opinberrar þjónustu án þess að Alþingi fái að fjalla um það áður. Það er hægt að líta þannig á að Alþingi sé í rauninni bara afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið, það er búið að taka ákvarðanirnar, það er búið að eyða peningunum þannig að það er ekkert hægt að gera. Alþingi er í raun og veru bara orðið afgreiðslustofnun. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar eina ferðina enn og þetta er kunnuglegur texti þar ef maður les í gegnum árin. Síðan er líka eitt atriði til viðbótar sem hægt er að vekja athygli á þar sem forsætisráðuneytið tekur ákvörðun um að leyfa þjóðgarðinum á Þingvöllum að fara í framkvæmdir á árinu 2010 og ætlar að draga það af árinu 2011 sem er stranglega bannað en það er samt gert.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég á eftir langar mig að fara aðeins yfir það sem ég tel vanta í frumvarpið. Við vitum það og það hefur komið hér fram að Íbúðalánasjóður þarf að lágmarki 2,2 milljarða til viðbótar á árinu 2011. Það hefur líka komið fram að Byggðastofnun vantar 2 milljarða til viðbótar þeim 1 milljarði sem merktur er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni. Við eigum líka eftir að taka hér og útfæra allar þær tillögur sem snúa að skuldavanda heimilanna. Það er dálítið í lausu lofti hvernig það verður gert varðandi þær vaxtabætur sem á að greiða. Síðan sagði hæstv. forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í vikunni að það þurfi jú að útfæra þetta en stefnt sé að því að lífeyrissjóðirnir og bankakerfið borgi þetta, en það liggur ekki fyrir. Það vantar því hugsanlega stórar breytur inn í fjárlagafrumvarpið.

Þessu til viðbótar vil ég minna á, af því að við ræddum ríkisábyrgðir síðast í gær, að í ríkisreikningi í árslok 2009 eru núna 1.211 milljarðar í ríkisábyrgð. Að stærstum hluta er það að sjálfsögðu Íbúðalánasjóður og svo fleiri, Landsvirkjun og aðrir, en þetta er farið að slaga upp í eitt stykki landsframleiðslu, svo við áttum okkur á því. Í ríkisreikningnum eru líka 340 milljarðar í lífeyrisskuldbindingum sem hvíla á okkur sem þarf einhvern veginn að taka á í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því hvert verkefnið er og ég vil nota síðustu sekúndurnar sem ég hef í ræðu minni til að segja þetta: Það er mikilvægt fyrir okkur núna, hv. þingmenn, sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að snúa bökum saman og reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum, leggja allt á vogarskálarnar hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um boð okkar sjálfstæðismanna til fjárlaganefndar að vinna að frekari hagræðingu í ríkisrekstri. Þar er fullt af sóknarfærum og við getum hagrætt betur, sérstaklega í ljósi þessa að tekjugrunnurinn er mjög veikur.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég að lokinni 2. umr. þakka meðnefndarmönnum mínum í hv. fjárlaganefnd fyrir einstaklega ánægjulegt og traust samstarf og mikil heilindi milli manna í allri þeirri vinnu. Það er okkur gríðarlega mikilvægt í þeim verkefnum sem fram undan eru.