139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta var akkúrat svarið sem ég var að vonast eftir. Ég vona nefnilega að Alþingi beri gæfu til að ræða hvernig megi fara í niðurskurð í menntakerfinu. Mér hefur heyrst í dag, ekki bara á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eða þeim sem hér talaði á undan, heldur líka á þingmönnum úr Samfylkingunni og öðrum flokkum að það þurfi að hagræða í menntakerfinu. En þá segi ég enn og aftur: Vonandi berum við gæfu til að gera það eftir að fram hefur farið ítarleg og góð umræða.

Það er einmitt þess vegna sem við framsóknarmenn leggjum til að flatur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu verði enn á ný boðaður. Það var flatur niðurskurður í fyrra. Umræðan sem við höfum kallað eftir um heilbrigðismál hefur ekki farið fram. Fólki víða af landsbyggðinni var illa brugðið þegar tillögurnar lágu fyrir og ég ímynda mér að hv. þingmaður sé sammála mér um það.

En mig langar samt að spyrja hann að einu: Nú hefur komið í ljós að einkarekstur hefur víða mistekist í menntakerfinu. Það er mitt mat og dæmi hafa komið inn á borð okkar þingmanna sem sýna að sú fullyrðing mín á við rök að styðjast.

Svo er annað sem mig langar að spyrja um, varðandi ríkisábyrgðir eins og t.d. þær sem fylgdu með við sölu Lánasjóðs landbúnaðarins. Ríkisábyrgðirnar voru komnar til einkaaðila og þar var sýslað með þær. Getur ekki verið að við eigum að hætta þessu einkavæðingarbulli, svo ég noti svo stórt orð, (Gripið fram í.) fara varlega og láta ríkið sjá um sig (Forseti hringir.) og einkaaðilana sjá um sig?