139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áðan sagði hv. þm. Þór Saari að það eina sem gerði það að verkum að framsóknarmenn væru ekki mjög skynsamir væri uppbyggingin á stóriðju á Bakka. Þar hefur hv. þm. Þór Saari algerlega rangt fyrir sér. Það er mun meira sem þarf að laga en það.

Virðulegi forseti. Svo ég reyni að svara hv. þingmanni því sem hann bendir á í sambandi við menntakerfið. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að ræða þetta efnislega. Ég skynjaði á fundinum í hv. fjárlaganefnd með fulltrúum hv. menntamálanefndar að menn voru sammála um að það yrði að skoða þetta. En þá komum við alltaf að þessum vendipunkti — menn sjá alltaf eitthvert verkefni fram undan en svo virðist bara enginn þora að fara í það. Við þurfum að nota næsta ár til að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

Ég man eftir minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur en hún hafði ákveðnar hugmyndir um að skynsamlegra væri að sameina ákveðna háskóla úti á landsbyggðinni annars vegar og háskólana í Stór-Reykjavík hins vegar. Það er ákveðið innlegg í umræðuna. Ég hef þá trú á hv. menntamálanefnd að ég gæti nánast gefið mér það fyrir fram að ef menn færu í þetta málefni af yfirvegun og ræddu það með þeim hætti þá mundu menn komast að niðurstöðu.

Hvað viðkemur því að fara í flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu þá næ ég kannski ekki að fara yfir það í þessu stutta andsvari. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að við eigum ekki að gefa okkur neitt fyrir fram. Nú förum við inn í árið 2011 og við erum alltaf að kalla eftir því að við vöndum vinnubrögðin, tökum upplýstar ákvarðanir, höfum meiri gögn í höndunum og þar fram eftir götunum. Þess vegna eigum við ekki að gefa okkur þá niðurstöðu fyrir fram að það sé endilega skynsamlegra að fara í flatan niðurskurð heldur en eitthvað annað. Við eigum að taka efnislega umræðu um það. En þessar tillögur sem lagðar voru fram í frumvarpinu voru náttúrlega alger aðför að landsbyggðinni. Það deilir enginn um það, ekki lengur.