139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í máli síðustu þriggja eða fjögurra hv. þingmanna hafa menn getað séð muninn á vinstri stefnu í kreppustjórn og tillögum hægri manna. Núna ætla ég að koma hér fram með skynsemis- og miðjustefnuna. Hér hefur verið rætt að menn séu tilbúnir að fara í málefnalegar umræður um fjárlögin og það getur auðvitað verið áhugavert að í umræðum um fjárlögin séu ekki bara þurrar upptalningar af tölum. Auðvitað skiptir meginmáli, við sjáum það einfaldlega núna þegar við horfum tvö ár aftur í tímann, hvernig til hefur tekist í efnahagsstjórninni hjá núverandi ríkisstjórn eftir hrun. Þar hefur auðvitað mjög mörgu verið ábótavant, svo ekki sé sterkara til orða tekið.

Mig langar að byrja í ræðu minni að fara yfir og taka undir nokkur atriði sem komu fram í nefndaráliti 2. minni hluta, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Hann fjallaði einmitt í innganginum í máli sínu um þær hófsömu og ábyrgu miðjustefnu sem við framsóknarmenn viljum færa fram í fjárlagagerðina og þar af leiðandi efnahagsstjórnina. Í nefndarálitinu voru útfærðar á mörgum blaðsíðum, og var það bæði ítarlegt og vel gert, fjölmargar leiðir til að annars vegar auka tekjur ríkissjóðs og hins vegar örva hagvöxt og koma þannig hjólum atvinnulífsins af stað. Það verður að segjast eins og er að þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka á krepputímum um skattahækkanir og stöðugar álögur. Þær hafa, eins og við þekkjum, leitt af sér því miður bæði minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins eða jafnvel stöðnun þess.

Hvað útgjaldahliðina varðar kemur fram í áliti hv. þingmanns og 2. minni hluta sú stefna og skoðun okkar að leitast skuli við eins og hægt er að vernda velferðarkerfið og ekki skuli ganga lengra í boðuðum niðurskurði gagnvart heilbrigðisþjónustu landsmanna og landsbyggðar svo kerfið verði ekki skaðað varanlega.

Þegar menn ræða fjárlagagerð og efnahagsstefnu þurfa menn auðvitað fyrst og fremst að vita við hvaða forsendur þeir miða út frá, hvaða staðreyndir og tölur, og hvaða spá fram í tímann. Varðandi þjóðhagsspána vil ég líka nefna í framhjáhlaupi að þingmannanefndin í sumar og haust sem vann að ýmsum úrbótatillögum í sambandi við framtíðarstjórnsýslu þjóðarinnar sem yrði þá betri en sú við upplifðum á árunum í aðdraganda hruns, ekki síst, og eftir það, sagði að setja þyrfti á laggirnar eins konar endurvakta Þjóðhagsstofnun, óháða stofnun, sem mundi sjá um þessa vinnu. Það kom í ljós að í fjárlagagerðinni var miðað við úrelta þjóðhagsspá frá því í júní á þessu ári og ný þjóðhagsspá kom ekki fyrr en frumvarpið hafði verið lagt fram. Eins og við þekkjum öll þá lækkaði hagvaxtarspáin í þeirri þjóðhagsspá úr 3,2% niður í 1,9% eða um 35%. Það er auðvitað gríðarlegur samdráttur og ber vitni um þá röngu stefnu sem verið hefur.

Það hafa svo sem birst aðrar spár. OECD hefur spáð 1,5% hagvexti og ýmsar greiningardeildir jafnvel 0,9%. Ég held ég fari rétt með að Evrópusambandið eða hagfræðideild þar hafi spáð 0,7% hagvexti á Íslandi á næsta ári. Ef við erum heldur bjartsýnni en það og teljum að um 1% hagvöxtur verði er það álíka og sú mannfjölgun sem er á Íslandi. Þá má segja að enginn hagvöxtur verði á mann, á hvert höfuð, á Íslandi á næsta ári, hvað þá ef sá alvarlegi atgervisflótti sem við höfum svo sannarlega séð haldi áfram eða aukist. Í haust var talað um að allt að 10 manns á dag flyttu utan. Á fundi með launþegahreyfingunum í gærkvöldi kom það m.a. fram hjá aðilum frá BHM að greinilegar vísbendingar eru um að fólk sé jafnvel ekki að flýja atvinnuleysi heldur sé það einfaldlega að flytja frá vinnu og úr húsum sínum. Þetta eru tölur sem er ekki svo gott að sjá. Ég hef verið að reyna að finna það út hjá Hagstofunni hve margir hafa flutt úr landi eða vinna erlendis en búa enn á Íslandi en það er erfitt að sjá þær tölur.

BHM hefur reiknað það út og bent á að ef tveir þriðju námsmanna sem nú starfa erlendis snúa ekki aftur verði þjóðarbúið af um 40 milljörðum. Þetta er auðvitað gríðarlega alvarlegar tölur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því þegar við fjöllum um atvinnuleysi og atvinnuþátttöku.

Í þessari hagspá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um 1% og fari úr rúmlega 8% niður í 7,3% á næsta ári. Það er auðvitað mjög sérstakt í ljósi þess hversu lítill hagvöxturinn á að vera. Manni getur dottið í hug að þetta felist í því að hér sé um að ræða fólkið sem flytur til útlanda, þá fækkar því auðvitað á atvinnuleysisskrá, og hugsanlega fækkar um þá sem detta út af skrá eftir að hafa verið þar í þrjú ár. Reyndar stendur nú til að hækka það upp í fjögur ár á miðju næsta ári. Þannig eru forsendurnar og það getur verið erfitt að fjalla um þær ef menn gera sér ekki alveg grein fyrir því hver rétta staðan er. Hún er auðvitað umdeilanleg þegar tölurnar liggja ekki fyrir.

Mig langaði að segja almennt nokkuð um efnahagsástandið og þessa röngu stefnu. Til að mynda hefur hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar og stjórnarliði, margoft bent á að ríkisstjórnin sé á rangri leið. Hún er nú kannski sérfræðingur í kreppustjórnun, hagfræðingur, og hefur bent á aðrar leiðir, leiðum sem við framsóknarmenn höfum líka talað mjög mikið fyrir, þ.e. að fara varlegar í niðurskurð, hugsanlega til lengri tíma en setja meiri kraft í atvinnulífið og þannig búa til hagvöxt, verja velferðina og fara varlegar í þetta.

Þetta gerðu menn til að mynda ekki í Finnlandi, þeir gerðu nákvæmlega það sama og núverandi ríkisstjórn á Íslandi er að gera. Í fimm til sex ár í bankakreppunni í Finnlandi um 1990 sátu menn með hendur í skauti, skáru niður og sífellt meira og meira því það varð enginn hagvöxtur, hækkuðu skatta og skáru niður, fóru sömu leið og ríkisstjórnin hér er á. Eftir fimm, sex ár sáu menn loks að þetta var hin ranga leið og fóru í hina áttina og örvuðu til að mynda menntakerfið. Upp úr því spratt Nokia-hugbúnaðarrisinn og ýmislegt fleira og efnahagurinn fór að glæðast á ný. Engu að síður höfðu menn orðið fyrir verulegu tapi eftir þessi ár og heilu kynslóðirnar urðu að sætta sig við langtímaatvinnuleysi og höfðu jafnvel flosnað varanlega upp af vinnumarkaði og farið inn í félagslega kerfið.

Við ætluðum svo sannarlega að læra af þessari reynslu og forðast þetta en við erum enn á þessari leið, ríkisstjórnin er enn á þessari leið. Hún hlustar til að mynda ekki á raddir framsóknarmanna né heldur raddir úr eigin ranni eins og ég nefndi áðan með hv. þm. Lilju Mósesdóttur.

Síðan eru það aðrir frændur okkar og vinir, Færeyingar, sem gengu í gegnum bankakreppu á árunum 1994–1996. Þeir lentu í því að um einn þriðji hluti ungs fólks flutti úr landi. Því miður var það þannig. Þeir voru reyndar fljótir að ná sér úr þeirri kreppu, m.a. með því að auka fiskveiðiheimildir og auka tekjur sínar á tímabili en því miður varð þetta til þess að nokkur hluti af unga fólkinu, kannski allt að helmingur, sneri ekki aftur. Enn vantar þessa kynslóð í færeysku þjóðina. Þetta ætluðum við líka að forðast en við erum komin í nákvæmlega sömu stöðu. Við hefðum alveg getað lært af reynslunni. Við höfum svo mikið hér á Íslandi, við höfum svo mörg tækifæri og fjölmarga möguleika til að koma okkur upp úr kreppunni. Þess vegna er svo dapurt að við skulum fara í ranga átt. Ef við hefðum nýtt okkur öll þau tækifæri sem buðust, værum við nú komin nokkuð vel á veg en værum ekki að deila um það, eins og við gerum í dag, hvort við séum komin á botn öldudalsins, hvort við séum að snúa við, o.s.frv.

Í þessu sambandi langar mig að nefna að Obama-ríkisstjórninni í Bandaríkjunum var hrósað mjög af hagfræðingum á síðasta ári fyrir að dæla fjármunum út í kerfið og reyna þannig að auka neysluna. Síðan í ár virtist það ekki hafa dugað til, það ríkti of mikil tortryggni, menn voru of hræddir og settu peningana í vasann eða undir koddann eða inn á bankabækur. Þá kom upp talsverð gagnrýni og menn fóru að skoða af hverju þetta var. Staðreyndin var sú að þessi útdeiling fjármuna nam þó ekki nema um 3% af landsframleiðslu og að mati hagfræðinga var það allt of lítið, það hefði þurft eitthvað meira, einhverja stóra eimreið til að setja þetta í gang. Við búum við nákvæmlega það sama. Forkólfar Alþýðusambands Íslands hafa bent á að þrátt fyrir að margt jákvætt sé að gerast í litlu og smáu fyrirtækjunum, ekki síst þegar skuldaleiðréttingin verður búin að fara þar fram og þau geta síðan bætt við verkefnum, þurfi eitthvert stórt verkefni til að koma vélinni í gang. Það eru forkólfar ASÍ sem hafa barist fyrir því. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja um hljóð í salnum. Einn fund í einu.)

Í nóvemberspá Hagstofunnar, hagvaxtarspánni fyrir 2011 er Helguvík úti. Það er ein skýringin á því að 35% minni hagvöxtur er frá júníspánni til nóvemberspárinnar. Spyrja má auðvitað ríkisstjórnarflokkana að því hvort þetta sé yfirlýsing þeirra um að Helguvík verði ekki að veruleika. Ef það er tilfellið held ég að ríkisstjórnarflokkarnir ættu að koma heiðarlega fram og segja það, í stað þess að halda fólki, m.a. á Suðurnesjum, í þeirri von að þar sé eitthvað í vændum. Ef það verkefni er út úr myndinni, ættu menn að setja meiri kraft í önnur verkefni, m.a. á Suðurnesjum, til að koma þeim í gagnið. Til að uppfylla þörfina fyrir stór verkefni sem setja vélina í gang, ætti að stefna að því að setja alvörukraft í þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Bakka við Húsavík og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum.

Nú hefur það m.a. komið fram hjá okkur framsóknarmönnum að við höfum talað fyrir þessum framkvæmdum þótt þar sé um álver að ræða. Sumir hafa túlkað það sem svo að við séum sérstakir álverssinnar en auðvitað er það ekki þannig. Þá vitna ég enn og aftur í forkólfa ASÍ, þeir segja að það sé ekki atvinnustefna að vilja bara byggja álver heldur sé það atvinnustefna að vilja koma atvinnulífinu í gang. Þetta eru verkefni sem eru komin langt á leið og eigi að fara af stað og muni hugsanlega duga til að setja nægilegan kraft í atvinnulífið til að skapa hagvöxt.

Í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar kom fram að nauðsynlegur hagvöxtur væri 4% á ári, ekki þau 1,9% sem er spáð eða á bilinu 1–2% heldur 4%. Í því ljósi er kannski rétt að minnast þess að lífeyrissjóðirnir gera ávöxtunarkröfu upp á 3,5%. Ef hagvöxtur hér á landi er um 1% má spyrja sig: Hvaðan eiga peningarnir að koma í þá ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, frá hverjum á að taka þann ávöxt? Við erum kannski ekki að tala um að hér fari allt á fulla ferð á ný og við upplifum aftur árin 2005, 2006, 2007 enda er það kannski einmitt það sem við ættum að hafa lært; að fara hóflegar í sakirnar. Við verðum hins vegar að snúa þeirri stöðnun sem er í dag.

Sem betur fer, frú forseti, getum við svo sem sagt að ýmsar greinar blómstra, til að mynda sjávarútvegurinn. Þar spilar auðvitað staða krónunnar stórt hlutverk en ekki síður að á liðnum árum hefur sjávarútvegurinn fjárfest og styrkt sig þannig að hann hafði þá getu að geta farið af stað þegar jákvæðari aðstæður sköpuðust fyrir hann. Við gætum þar aukið tekjurnar enn frekar með því að auka kvóta lítillega án þess að „rísikera“ að ganga á auðlindina sem við höfum mjög góð tök á, í höndum Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Segja má að þar sé eftirlitskerfi sem sannarlega hefur varist í þeim ólgusjó sem við höfum verið í. Þrátt fyrir alla gagnrýni á sjávarútveginn og allt í kringum hann er staðan þar ólík þeirri á fjármálamörkuðunum. Í þenslunni stóðst bæði Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa ásókn fjármálaaflanna í þá grein. Sjávarútvegurinn er enn í okkar eigu, hann er ekki kominn í eigu erlendra banka. Ekki var gengið á auðlindina. Hún er að vaxa sem betur fer þannig að þar er sannarlega dæmi um eftirlitsstofnanir og vísindastofnanir og pólitíkusa sem hafa staðist freistinguna sem menn létu svo sannarlega undan á fjármálasviðinu og kannski á öðrum sviðum.

Önnur grein sem blómstrar er ferðaþjónustan. Krónan hefur klárlega stóra þýðingu fyrir hana. Einnig hefur Ísland sífellt náð meira og meira inn í heimspressuna, sumt auðvitað á neikvæðum forsendum en staðreyndin er sú að í kynningarefni virðist illt umtal vera betra en ekkert. Fjármálakreppan kom Íslandi á kortið, síðan Eyjafjallajökull og gerði gott betur en það. Þrátt fyrir það tjón og þær hörmungar sem gosið olli fólki sem þar bjó næst er staðreyndin sú að úti í hinum stóra heimi er Ísland mjög þekkt og krísustjórnun íslenskra ferðamálayfirvalda og utanríkisþjónustunnar í kjölfar gossins tókst mjög vel sem og að kynna Ísland, til að mynda í Bandaríkjunum. Fyrir vikið mun ferðaþjónustan njóta góðs af því í mörg, mörg ár héðan í frá. Auðvitað eru aðrar útflutningsgreinar líka að vaxa og njóta þar stöðu krónunnar.

Í fréttum síðustu daga hefur verið fjallað um skapandi greinar sem hafa skilað meira en 190 milljörðum inn í þjóðarbúið. Sú staðreynd sýnir að vinna síðustu ára og áratuga við að byggja upp öflugt og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf hefur tekist. Þrátt fyrir alla þá umræðu um að stjórnir fyrri ára hefðu verið með einhæft atvinnulíf hefur gleymst að í kjölfarið hafa til hliðar við stóriðjustefnuna skapast möguleikar á fjölbreyttu atvinnulífi. Undirstaða hagvaxtar og þar með að reyna að minnka atvinnuleysið og helst útrýma því, er nefnilega að efla útflutningsgreinarnar sem skapa gjaldeyri sem kemur inn í landið. Þeir fjármunir geta síðan margfaldast í verði, m.a. í þjónustugeiranum og í skapandi greinum.

Tækifærin á Íslandi, eins og ég kom inn á, eru óþrjótandi. Ísland er ríkt af auðlindum, ekki síst þeim sem skortur verður á í framtíðinni og er kannski orðinn nú þegar, þ.e. mat. Við búum svo vel að hafa nægilegt landrými, landbúnaðurinn mun geta aukið framleiðslu sína á næstu árum og áratugum og sjávarútvegurinn er einhver sá glæsilegasti og best rekni og afkastamesti í heimi og mun geta skilað þjóðarbúinu miklu á næstu árum og áratugum.

Önnur auðlind sem skortur er á í heiminum er vatn. Þar höfum við mjög ríkar auðlindir. Sú þriðja er síðan orka. Við vitum að við eigum gríðarlega mikið af endurnýjanlegum orkuauðlindum. Það gleymist mjög oft í umræðunni að orkan sem við nýtum hér á Íslandi er um og yfir 80% endurnýjanleg. Það land sem næst okkur kemur, Noregur væntanlega, er þar langt að baki. Nefna má síðan stórt ríki eins og Rússland sem ætlar að reyna að auka endurnýjanlega orku sína á næstu 25 árum og fer þá úr 1,5% upp í 4,5% og mun hafa margfalt, margfalt meiri áhrif á alheimsloft en við þótt við ykjum endurnýjanlegu orku okkar úr 80% upp í 100%. Auðvitað eigum við að vinna að því áfram að ganga varlegar um þær auðlindir sem við höfum, þótt við höfum ríkulega af þeim. Og alla þessa orku eigum við að fara í að nýta hér innan lands til að skapa störf og útflutningstekjur.

Þær Evrópusambandsaðildarviðræður sem eru í gangi núna eru m.a. til komnar vegna áhuga Evrópu á þeim auðlindum sem hér eru því Evrópa verður sífellt fátækari af auðlindum og þar á meðal fólki sem við höfum hins vegar nóg af, af ungu og vel menntuðu fólki ef við höldum vel á spilunum og töpum því ekki úr landi.

Vegna fjárlaganna sem við ræðum hér og fjáraukalaganna sem við ræddum í gær má spyrja hvar sjái stað þeirra styrkja sem streyma nú frá Evrópusambandinu, m.a. inn í ráðuneyti sem Samfylkingin stýrir og einnig umhverfisráðuneyti. Hvar sjást þessir styrkir í ríkisreikningi eða í fjárlögum? Rætt hefur verið að IPA-styrkirnir geti numið allt að 4 milljörðum. Ég held að það væri ákaflega áhugavert í þeim styrku, markvissu og agamiklu ríkisfjármálum sem meiri hlutinn hefur haldið fram að fjárlögin og fjáraukalögin snúist um, að á einhvern hátt sæist hvað orðið hefur um þá peninga og hvar þeir peningar muni koma niður.

Þar sem ég sit í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd langar mig að nefna hvernig fjárlögin koma við ráðuneytið og nokkrar stofnanir þess. Í ráðuneytinu var 9% niðurskurður og þar af leiðandi stofnunum sem þar til heyra. Reynt var að ná því í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Fiskistofu. Matvælastofnun var hlíft að nokkru leyti vegna þess að síðastliðið vor og reyndar á þessu ári og reyndar fram á það næsta er Matvælastofnun lykilstofnun í að innleiða nýja matvælalöggjöf Evrópusambandsins og til þess þarf umtalsvert meira fé en áður, það er sem sagt aukakostnaður. Komið hefur fram að í báðum þessum ríkisstofnunum, þ.e. Matvælastofnun og Fiskistofu, er skortur á starfsmönnum, þar vantar um þrjá til fjóra í hvora stofnun og eins í ráðuneytinu. Það gerir á bilinu 9–12 manns sem vantar í þessa vinnu vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það eru þá um 50–70 milljónir á ári í a.m.k. tvö ár. Það má jafnframt spyrja að því hvar það sést í fjárlögunum. Er gert ráð fyrir því? Eða er ekki meiningin að vinna af fullum heilindum og vandvirkni í samningaviðræðum við Evrópusambandið? Maður getur líka spurt: Á ekki að semja samkvæmt þeim skilyrðum sem sett voru inn í þingsályktun eða þarf að kalla málið inn í þing að nýju vegna þess að menn eru að svelta innlendar stofnanir og þær geta þar af leiðandi ekki staðið undir þeim verkefnum sem ætlast er til af þeim?

Frú forseti. Sá þáttur sem mest hefur verið gagnrýndur í fjárlagagerðinni og fjárlagafrumvarpinu er niðurskurður heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Dæmi um eitt sem kom fram í frumvarpinu upphaflega var allt að 40% niðurskurður á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík. Bent hefur verið á að það stangist jafnvel á við lög, í lögfræðiáliti sem hæstaréttarlögmaðurinn Dögg Pálsdóttir vann fyrir Norðurþing og sveitarfélagið Skagafjörð sem var líka með umtalsverðan niðurskurð. Niðurskurðurinn var reyndar um allt land og sú stefna sem sett var af stað í ráðuneytinu og hjá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar var auðvitað mjög einkennileg. Talað var um að tryggja ætti svokallaða heilsugæslu á öllu landinu en á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands á Höfn, þar sem eingöngu er heilsugæslu og engin skurðstofa eða sjúkrahús, var engu að síður skorið niður. Það var því eiginlega ekki heil brú í þessu.

Annað ósvífið dæmi sem mig langar að nefna, af því mér finnst það vera dæmi um það þegar menn skera niður án þess að kanna forsendur og velta þeim fyrir sér, er dvalarheimilið á Vopnafirði. Það er dvalarheimili í samfélagi sem hefur skilað á milli 4–4,5 milljarða útflutningstekna á ári í áraraðir eða áratugi. Elsta kynslóðin í þessu samfélagi sem hafði unnið allt sitt líf var nú komið inn á dvalarheimili sem það hafði byggt upp með eigin höndum í sjálfboðavinnu ásamt félagasamtökum á staðnum og sveitarfélagið átti húsið. En meira að segja þar átti að færa vistmennina 20 eða 24 á Egilsstaði um langa vegalengd þó svo að þar kostaði dvalarrýmið um tveimur milljónum meira á mann á ári. Þetta var auðvitað alveg galið og í raun og veru ósvífin aðgerð gegn fólki sem hafði byggt upp þetta litla samfélag sitt sjálft.

Sem betur fer, og þar vil ég hrósa ríkisstjórninni og meiri hluta fjárlaganefndar og hæstv. heilbrigðisráðherra, hefur verið dregið í land. En það verður hins vegar að segjast eins og er að eitt skortir. Ég hef kallað eftir því að hæstv. ráðherra og hugsanlega meiri hluti fjárlaganefndar komi hér upp og lýsi því yfir að sú stefna sem unnið var eftir hafi verið röng, hún hafi verið vitlaus, menn hafi tekið hana til baka og núna ætli menn að nýta tímann á þessu ári til að fara í alvöru samráð við fagaðila um allt land, finna hina réttu stefnu, hina skynsamlegu leið, og fylgja henni síðan héðan í frá. Þetta skortir.

Þar sem hér er fyrst og fremst um að ræða eins árs áætlun er óttinn sá að niðurskurður haldi áfram. Það kemur reyndar fram að fyrirhugað er að fresta hluta af niðurskurðinum til annars árs og síðan komi niðurskurður á þriðja ári. Við ræddum á síðasta þingi, eða vorþinginu minnir mig frekar en þar á undan, um fjármálareglur hjá sveitarfélögum og slíkt. Talið var algjörlega nauðsynlegt, og það hefur reyndar verið þannig um langa tíð, að sveitarfélögin setji sér ekki bara fjárhagsáætlun til eins árs heldur einnig til þriggja ára. Það er mjög mikilvægt að þær séu samþykktar. Ríkisvaldið er ekki enn komið með slíkar áætlanir. Þess vegna vantar inn í fyrirhugaðan niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum hvað menn ætla sér að gera í fjárlögunum fyrir 2013. Ef við höldum áfram á sömu braut og ríkisstjórnin hefur verið á mun enginn hagvöxtur verða og við munum horfa upp á sömu stefnu, þ.e. skattahækkanir á hverju ári og aukinn niðurskurð. Þá mun verða nauðsynlegt að skera áfram í heilbrigðisstofnanirnar og þá mun það nást á þremur eða fjórum árum sem til stóð að gera í einu vetfangi í fjárlagagerðinni fyrir 2011.

Þetta óttast ég og sérstaklega í ljósi þess að enginn vill koma hér og lýsa því yfir að stefnan hafi verið röng og menn hafi snúið af þeirri braut.

Ég vil hrósa meiri hluta fjárlaganefndar fyrir að hafa hlustað á fólkið, dregið í land og farið þá leið sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi í sinni ræðu og nefndaráliti, fara hófsamari leið, fara í flatan niðurskurð og nýta tímann til að fara skynsamlega yfir þetta. Jafnframt kemur fram í álitinu að auðvitað þarf sérstaklega að verja Landspítalann og aðrar sérstofnanir með jafnvel enn minni niðurskurði en þeim sem fyrirhugaður er.

Frú forseti. Ég kom hér nokkrum sinnum inn á stefnu Framsóknarflokksins. Á vordögum og aftur í haust lögðum við fram stefnu okkar sem byggist á því að fara hófsamari leiðir í niðurskurði, gera allt sem mögulegt er til að auka atvinnu og þar með hagvöxt. Í haust lögðum við fram tillögu til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt, ef ég má lesa aðeins úr henni, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.“

Síðan er í 10 liðum farið yfir það sem okkur fannst vera skynsamlegast og ef ég má nefna það, með leyfi forseta, þá var það:

„1. Almenn skuldaleiðrétting, með jafnræði, réttlæti og hagkvæmni að leiðarljósi, sem gagnist öllum.

2. Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

3. Trygging stöðugs verðlags.

4. Atvinnuskapandi framkvæmdir.

5. Jöfnun áhættu í skiptum lánveitenda og lántaka.

6. Stytting fyrningarfresta krafna eftir gjaldþrot.

7. Jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.

8. Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.

9. Gerð langtímaáætlana um útgjöld ríkisins.

10. Endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Hér var hratt farið yfir yfirskrift þessara tíu liða. Tillögunum var vel tekið og þær ræddar í þinginu en þær hafa síðan ekki komið hér inn aftur og er það auðvitað miður að til þeirra hefur ekki verið horft við fjárlagagerðina og mótun efnahagsstefnunnar. Að mínu mati væri staðan mun betri ef við hefðum nýtt okkur þessar leiðir. Ósk okkar var að þarna kæmu allir að og við settum ekki neinum stólinn fyrir dyrnar á nokkurn hátt. Þarna var rætt um almennar skuldaleiðréttingar en ekki samkvæmt neinni kröfu. Nú vitum við hvernig það hefur allt saman endað og auðvitað vonbrigði að við séum ekki komin lengra á þeirri leið.

Í áliti 2. minni hluta og hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar eru nokkrar af tillögunum sem við nefnum í þessum almenna texta og einnig breytingartillögur sem snúa að því að auka tekjur og ég hef nefnt hér, m.a. um orkukvóta. Ég hef reyndar ekki nefnt það að nýta hluta af tekjum af séreignarsparnaði, að skattleggja séreignarsparnaðinn og nýta inn í hagkerfið sem allra fyrst. Hér eru einnig nokkrar tillögur sem snúa að útgjöldum á móti og eru að hluta til til þess að verja velferðarkerfið og koma til móts við þá sem minnst eiga, eins og t.d. að auka persónuafslátt.

Við höfum líka talað um atvinnuskapandi verkefni. Til að mynda stendur til í breyttu fjárlagafrumvarpi að skera nánast allar samgönguframkvæmdir á brott. Þar viljum við fara í framkvæmdir sem snúa að mannaflsfrekum verkefnum. Ríkisstjórnin hefur talað á þeim nótum en minna hefur verið um efndir. Í þessu sambandi er átt við fjölmörg lítil verkefni sem munu gera mikið fyrir hvern stað því það eru fjölmargir litlir verktakar, ekki síst jarðverktakar og í smíðaverktakageiranum, án vinnu, ætli það sé ekki allt að 30% atvinnuleysi í þeim greinum. Það væri mjög skynsamlegt að reyna að setja fjármuni í þetta sem víðast, í minni verkefni alls staðar á landinu og koma þannig atvinnulífinu í gang og fleira fólki í vinnu. Það mundi síðan skila sér, eins og við ræddum um áðan, í vaxandi hagvexti sem stækkar kökuna og skilar að lokum hærri fjárhæðum í ríkissjóð sem er auðvitað lykilatriði.

Ef við drögum saman sem ég hef talað um hér er það auðvitað fyrst og fremst atvinnuleysið, atvinnuleysið er böl sem við eigum ekki að sætta okkur við, við eigum að segja því stríð á hendur og gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá öllum vinnufúsum höndum verk að vinna. Það eru næg tækifæri á Íslandi. Það eru fjölmörg verk óunnin og tækifæri. Sum þeirra kosta mikla fjármuni og við þurfum að leita til erlendra fjárfesta með þau, önnur eru miklu minni. Við getum sjálf farið af stað með þau, hvort sem er hjá ríkinu eða einkaaðilum. Skapa þarf trú á að framtíðin sé betri en það sem við höfum verið að upplifa en það gerum við ekki með því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir frá hendi meiri hluta fjárlaganefndar og ríkisstjórnar. Við verðum að fara skynsamlegri leiðir. Við verðum að fara leiðir sem kenna sig við miðju. Við verðum að fara þá leið sem kemur fram í áliti 2. minni hluta og sem ég hef talað fyrir í ræðu minni.