139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ágæta ræðu og málefnalega í flestu. Ég hjó eftir því í ræðu þingmannsins að hann taldi stefnuna í heilbrigðismálum ekki vera rétta og kallaði eftir því að einhver stjórnarþingmanna kæmi í pontu og segði að stefnan eða aðgerðirnar sem voru planaðar hafi verið rangar eða vitlausar.

Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að stefnan í heilbrigðismálum, eins og hún kemur fram í frumvarpinu, hafi verið röng. Stefnan sem þar kemur fram, eða menn töldu sig vera að fara eftir, er sú að heilsugæslan er fyrsta stoppið og það tel ég að sé ekki rangt. Það kom hins vegar í ljós að undirbúningsvinnan að tillögunum sem lagðar voru fram var ekki næg. Það vantaði samráð við heimamenn. Upplýsingar sem komu fram við þessa yfirferð sýndu að margar af þeim heilbrigðisstofnunum sem reknar eru úti á landi höfðu fjármuni sem ætlaðir voru til sjúkrasviða en eru notaðir á heilsugæslusviði. Þetta virtust ekki vera upplýsingar sem skiluðu sér nægilega vel inn í ráðuneytið.

Breytingar sem gerðar eru núna eiga eftir því sem ráðuneytið telur að tryggja rekstrarhæfi stofnananna og það er náttúrlega vel. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að flatur niðurskurður í kerfinu hefði verið heppilegri, þar með talið 3% niðurskurður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi? Telur þingmaðurinn að Landspítalinn hefði þolað þann niðurskurð?