139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir að koma upp og segja það sem mér hefur ekki tekist að fá nokkurn ráðherra til að segja, þ.e. að stefnan hafi ekki verið röng og menn ætla sér áfram í þessa átt. Það hafi verið rangar forsendur, það hafi ekki verið samráð og undirbúningurinn hafi verið vitlaus o.s.frv., en að stefnan sé rétt.

Ég er ekki viss um að svo sé. Þegar menn eru búnir að skoða réttu forsendurnar, þ.e. hvað heilsugæslusjúkrahúsin á landsbyggðinni eru að vinna, er ég ekki viss um að menn ætli sér að skera nokkuð þar burt vegna þess að þau uppfylla lagalega skyldu sína um grunnþjónustu í hverju héraði. Ég er ósammála því að stefnan sé rétt. Ég tel hana ranga en mér finnst heiðarlegt að koma upp og lýsa því yfir að hún sé rétt og það hafi bara verið vitlaust gefið.

Varðandi það hvort við eigum að fara í flatan niðurskurð er það akkúrat það sem ég talaði um og kemur fram í áliti okkar framsóknarmanna. Við teljum að það hefði verið réttari leið, bara hóflegri, minni flatur niðurskurður. En, ég sagði það líka í ræðu minni, ég hjó eftir því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi okkar framsóknarmanna í fjárlaganefnd, sagði það líka og það kemur fram í álitinu að við vildum verja sérstaklega með enn minni niðurskurði sérhæfðu sjúkrahúsin eins og Landspítalann og sjúkrahúsið á Akureyri sem þurfa að gera flóknari aðgerðir. Ég tel að við séum komin að endamörkum á niðurskurði á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þannig að við getum verið sammála um það, ég og þingmaðurinn.