139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er rétt að við erum sammála a.m.k. um að það er komið að þolmörkum Landspítala – háskólasjúkrahúss eða það er a.m.k. það sem ég tel.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að mörg af sjúkrahúsunum úti á landi eru einmitt að rækja skyldur sínar og hlutverk ágætlega sem heilsugæslusjúkrahús. Það eru hins vegar tækifæri víða úti á landi í hagræðingu í rekstri og í sparnaði. Ég þekki þetta ágætlega eftir að ég starfaði á nokkrum af þessum stofnunum úti á landi og hef samanburð við að vinna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar þá að spyrja þingmanninn: Telur hv. þingmaður að það sé hægt að spara í rekstri heilbrigðisstofnana úti á landi, til að mynda með sameiningu stofnana? Þá á ég sérstaklega við stofnanir eins og til að mynda Fjallabyggð, Dalvík og Blönduós og svo Sauðárkrók. Ég vil í því sambandi benda á að vaktsvæði t.d. sameinaðs svæðis Fjallabyggðar og Dalvíkur væri örsmátt í samanburði við til að mynda vaktsvæðið sem við sættum okkur við á norðanverðum Vestfjörðum á miklu fjölmennara svæði.