139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Vinstri skýr, hægri stefna skýr og miðjan ekki skýr. Er það svona „haltu mér slepptu mér“-stefna? Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni og þess vegna er ég að reyna að fá það fram hjá Framsóknarflokknum hvort það sé orðin kúvending í stefnu flokksins. Ef hann lítur á söguna að þrátt fyrir að mönnum hafi þótt miðjan oft vera miðjumoð hefur engu að síður verið hægt að lesa skýra stefnu af hálfu fyrrum forustumanna Framsóknar í gegnum tíðina alveg aftur til Jónasar frá Hriflu.

Ég trúi ekki öðru en að Framsókn geti komi fram og talað sínu máli í menntamálum eða heilbrigðismálum. Það var alveg skýrt sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði áðan, þingmaðurinn að norðan, að hann væri einfaldlega á móti því að hafa einkaframtakið í menntakerfinu, hann var á móti því að hafa einkaframtakið í heilbrigðiskerfinu. (Gripið fram í.) Það var það sem hann sagði og ekkert annað. (Gripið fram í.) Hann vildi ekki blanda þessu saman.

Ég hef komið með nokkur gagnmerk dæmi sem við höfum sýnt fram á. Auðvitað hafa mistök átt sér stað. Það er bara þannig þegar við reynum að þróa áfram eflingu samfélagsþjónustunnar. En það eru líka mörg dæmi þar sem hægt er að flétta þetta saman. Ég nefndi m.a. á grunnskólastiginu Barnaskóla Hjallastefnunnar.

Ég vil hins vegar fagna afstöðu hv. þingmanns að sunnan yfir því að hann skuli þó ekki vera búinn að loka öllum dyrum á að það sé hægt að gera þetta saman með það að markmiði að efla þjónustu við landsmenn alla. Það er stundum hægt að gera það í hreinum og klárum ríkisrekstri, stundum í hreinum og klárum einkarekstri og stundum er þörf á að blanda þessu saman. Markmiðin þurfa að vera ljós, ákvörðun þarf að vera ljós, og ég trúi ekki öðru en að við getum horft nokkuð opið, eins og framsóknarmanna er siður, á viðfangsefnin sem við erum að leysa hér alla jafna. (Gripið fram í.)