139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er orðin áhugaverð umræða. Ég held að hún sé farin að snúast um málefnamismuninn sem er á vinstri, hægri og miðjuflokkum. Mér fannst reyndar andsvar hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur staðfesting á því sem ég reyndi að lýsa í fyrra svari mínu. Það er erfiðara að selja miðjustefnu en að segja bara frelsi, frelsi, frelsi eftirlitslaust. Það hafa verið gerð mistök, og hvað þýðir það? Menn verða að endurskoða kúrsinn.

Kúvending hjá Framsóknarflokknum, já, það er rétt. Framsóknarmenn hafa viðurkennt það og gerðu það fyrstir flokka í þessu landi eftir hrun að þeir hefðu gengið of langt í átt til hins hægra frelsis. Þeir sögðu einfaldlega: Við verðum að rétta af kúrsinn. Við héldum mikið og glæsilegt flokksþing, skiptum bæði um forustufólk, um stefnu, áherslur og annað í þeim dúr. Við erum komin hér endurnýjuð með nýjan, skynsaman miðjuflokk og munum berjast fyrir þeim málum á öllum vettvangi. Í áliti hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, fulltrúa framsóknarmanna í fjárlaganefnd, kemur þessi stefna ákaflega skýrt fram.

Ég veit það að fyrir marga hægri menn og vinstri menn er erfitt að skilja miðjustefnuna. Þess vegna eru þeir ekki í okkar flokki. En öllum er velkomið að lesa þessi álit og ræða við okkur. Að lokum munu menn sjá að skynsemisstefnan er sú eina rétta. Það hefur komið fram sérstaklega í kreppustjórnum. Ef við lítum til sögunnar sjáum við að í stjórninni sem tók við á Íslandi um 1930 voru það framsóknarmenn einir, það voru þrír ungir menn, ráðherrar, sem reistu Ísland úr kreppunni sem þá var. Það er akkúrat sú stefna sem við eigum að fara í núna. (Forseti hringir.)

Það sama var gert í Bandaríkjunum hjá Roosevelt. Obama er að reyna þetta og við (Forseti hringir.) munum ná þessu að lokum. (Gripið fram í.)