139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:44]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta hafa verið mjög góðar umræður hér í dag í 2. umr. um fjárlögin fyrir árið 2011, málefnalegar og góðar umræður. Ég tel að við séum á réttri leið hvað varðar umfjöllun um þann mikilvæga þátt sem fjárlögin eru með því að takast á um stefnu og strauma og mismunandi áherslur á þann hátt sem við höfum gert í dag.

Ég vísa til framsöguræðu hv. formanns fjárlaganefndar, Oddnýjar Harðardóttur, og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, varaformanns fjárlaganefndar, hvað varðar forsendur tekna og útgjalda og fjárlagaramma frumvarpsins. Ég ætla ekki að fara í þann þátt, þau hafa rakið hann mjög vel. En eins og fjárlagafrumvarpið er ætíð unnið leitar fjárlaganefnd eftir umsögnum fagnefndanna á þeim köflum fjárlaga sem snúa að viðkomandi fagnefndum og mun ég einbeita mér að því að gera grein fyrir áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar og þeim þætti sem aðallega snýr að heilbrigðismálum.

Ljóst er að þegar fagnefndir eru beðnar um álit er það á frumvarpi eins og það er lagt fram. Glögglega hefur komið fram í umræðunum í dag að á engum málaflokki hafa verið gerðar eins miklar breytingar í frumvarpinu og á þeim kafla sem snýr að heilbrigðisþjónustunni. Þar af leiðandi snýr sú umsögn sem ég ætla að grípa niður í að frumvarpinu og er alveg ljóst að sú gagnrýni sem kemur fram í nefndaráliti heilbrigðisnefndar hefur skilað sér og m.a. verið tekið tillit til umsagnar nefndarinnar rétt eins og fram kom í frumvarpinu sjálfu þegar það var lagt fram. Ljóst var að sá rammi sem heilbrigðisráðuneytinu var gert að vera innan í áætlunum rammafjárlaga, sem við byggjum á og ætlum að ná til að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum árið 2013, var of þröngur. Frá byrjun var ljóst að það yrði mjög erfitt fyrir heilbrigðisráðuneytið að fara í þann niðurskurð eða þær breytingar sem ráðuneytinu var ætlað að ná innan þess ramma sem það fékk, 4,7 milljarðar í niðurskurð var erfiður biti að kyngja.

Ráðuneytið fór þá leið að verja þær stofnanir sem höfðu tekið hvað mestan skell á sig eða aðlögunarkröfur strax 2009 og á þessu ári, þ.e. Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, og fara frekar í aðhaldskröfu hvað varðaði sjúkrastofnanir um landið. Þær tillögur sem fyrir lágu hafa mikið til verið dregnar til baka og farið í gagngera endurskoðun á þeim.

Ég vil nefna að flatur niðurskurður á allar heilbrigðisstofnanir hefði gengið of nærri þeim stofnunum sem tóku á sig mikla skerðingu 2009 og 2010, eins og ég sagði áðan. Meiri hlutinn tekur undir þá forgangsröðun sem fram kemur í frumvarpinu að standa annars vegar vörð um grunnþjónustuna, þ.e. heilsugæsluna, og hins vegar sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Meiri hlutinn hefur efasemdir um að sú aukning á fjárframlagi til sjúkraflutninga sem boðuð er í frumvarpinu muni nægja til að mæta aukinni þörf aðhaldsaðgerða. Nú hefur verið dregið úr þessu. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið mun ekki koma til jafnmikilla sjúkraflutninga og áætlað var. Þetta jafnast því út.

Frumvarpið leggur til ákveðnar skipulagsbreytingar sem gera annars vegar ráð fyrir eflingu heilsugæslunnar eins og mögulegt er en hins vegar er dregið saman á sjúkrasviðum flestra sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Meiri hlutinn telur þó að samráð og frekari greiningar á stöðunni um allt land hefðu gert grunninn undir þá hugmyndafræði sem birtist í frumvarpinu traustari. Forsendur frumvarpsins byggjast á því að metin var þörf fyrir fjölda sjúkrarýma á hverri stofnun miðað við landsmeðallag og fjárframlög metin samkvæmt þeirri greiningu. Framlag á hvert sjúkrarými var samræmt og lækkað sem hefur mikil áhrif á heildarfjárveitingu til hverrar heilbrigðisstofnunar. Enn fremur er hjúkrunarrýmum fækkað og meiri áhersla lögð á heimahjúkrun. Á þeim stofnunum sem gert er að fækka hjúkrunarrýmum ber að gæta þess að sú áhersla skili sér í auknum framlögum til heimahjúkrunar á starfssvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Meiri hlutinn áréttar að félagsþjónusta sveitarfélaga er mislangt á veg komin. Landfræðilegar, félagslegar og lýðfræðilegar aðstæður sveitarfélaga eru misjafnar og taka þarf tillit til þess þegar farið er í grundvallarbreytingar eins og þær sem frumvarpið leggur upp með. Uppbygging félagsþjónustu sveitarfélaga verður að fara saman við breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustu og gefa verður sveitarfélögum svigrúm til að auka og þróa heimaþjónustu samhliða áætlaðri fækkun hjúkrunarrýma vegna aðhaldsaðgerða eða skipulagsbreytinga. Til þess að draga megi úr útgjöldum til heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að beina þjónustunni á rétt þjónustustig. Fyrsta stigs þjónusta er heilsugæsla, svæðissjúkrahús, hjúkrunarheimili, hjúkrunarrými stofnana og heimahjúkrun. Annars stigs þjónusta eru umdæmissjúkrahús, sérfræðingar og endurhæfingarstofnanir. Þriðja stigs þjónusta er háskóla- og kennslusjúkrahús. Öll þjónustustigin eru mikilvæg og vanti einn hlekkinn eykst álag á öðrum og oftast á dýrari þjónustu. Því er mikilvægt að þrátt fyrir fækkun sjúkra- og hjúkrunarrýma verði þess gætt að halda samþættingu og þeirri hagræðingu sem í henni er fólgin.

Við umfjöllun nefndarinnar og í viðtölum við heilbrigðisráðuneytið sem og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana kom fram að nauðsynlegt sé að farið verði í gagngerar skipulagsbreytingar og stefnumörkun um heildstæða framtíðarskipan heilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Með slíku endurmati er mögulegt að draga markvisst úr útgjöldum málaflokksins og halda jafnframt uppi gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Það er skoðun meiri hlutans að mikilvægt sé að hafa staðgóða þekkingu á starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig, skilgreina hlutverk þeirra og hvað felist í því hlutverki. Óhjákvæmilegt er að flokka sjúkra- og hjúkrunarrými réttilega svo að niðurskurður eða aðhaldsaðgerðir lendi á réttum rekstrarlið og falli að forgangsröðun í frumvarpinu. Komið hefur í ljós að heilbrigðisstofnanir hafa fært fjármagn á milli þjónustusviða innan stofnana eftir því hver þörfin hefur verið hverju sinni og getur því niðurskurður á sjúkra- og hjúkrunarsviðum haft áhrif á aðra starfsemi stofnunarinnar, svo sem heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Telur meiri hlutinn að í þeirri vinnu sem fram undan er sé mikilvægt að heilbrigðisstofnanir og stjórnvöld vinni saman að leiðum til að bregðast við niðurskurðarkröfum.

Í viðtölum nefndarinnar við forsvarsmenn sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana kom fram sú skoðun að samráð yfirvalda við stofnanirnar hefði ekki verið nóg við undirbúning þeirra niðurskurðarkrafna sem fram koma í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur að við endurmat og gagngerar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu sé nauðsynlegt að meiri samvinna sé höfð við heilbrigðisstofnanir þar sem miklar breytingar eru fyrirhugaðar. Þar að auki telur meiri hlutinn ekki ráðlegt að ráðist verði í fyrirhugaðar breytingar á þeim hraða sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur verði farið í þá vinnu í aukinni samvinnu við þær stofnanir og sveitarfélög sem í hlut eiga. Meiri hlutinn minnir á fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í velferðarráðuneyti. Telur meiri hlutinn að við þá sameiningu gefist frekar tækifæri til endurskipulagningar og samþættingar í velferðarþjónustu.

Mjög hörð mótmæli hafa verið víða um land vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu. Hafa mótmælin snúið að byggðasjónarmiðum, atvinnuöryggi, skerðingu á þjónustu, áhyggjum af öryggi, auknum ferðakostnaði, tilflutningi og fækkun starfa. Meiri hlutinn ítrekar þá skoðun sína að ýmsu megi breyta í heilbrigðisþjónustu á landinu en nauðsynlegt sé að hægar verði farið í þær breytingar og nánara samstarf haft við stjórnendur sjúkrahúsa og aðrar heilbrigðisstofnanir, starfsfólk og notendur. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að ekki sé gengið svo hart fram við niðurskurð að fótum sé kippt undan rekstrargrundvelli þjónustueininga.

Nefndin ræddi uppbyggingu heilsugæslunnar hér á landi en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún verði styrkt á landsvísu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að átak verði gert til eflingar heilsugæslunnar. Á fundum nefndarinnar kom fram að skortur á sérfræðimenntuðum heilsugæslulæknum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, leiði til þess að fólk leiti oftar en ekki beint til sérfræðinga utan heilsugæslunnar. Til að hægt sé að tryggja að sjúklingar leiti á eðlilegt þjónustustig, t.d. með eins konar tilvísunarkerfi, þarf að fara í sérstakt átak til að laða lækna í sérnám í heimilislækningum og gera ráð fyrir einhverjum kostnaði því tengdu á fjárlögum ef ekki á að koma til varanlegs læknaskorts um allt land innan fárra ára. Aldurssamsetning innan greinarinnar gerir slíkt átak enn mikilvægara en ella.

Meiri hlutinn telur að þrátt fyrir þá niðurskurðarkröfu sem heilbrigðisþjónustan í landinu stendur frammi fyrir sé nauðsynlegt að standa vörð um velferðarþjónustuna í þeim efnahagsþrengingum sem blasa við í náinni framtíð. Þrátt fyrir þær miklu skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á heilbrigðisþjónustu í landinu er nauðsynlegt að gera stofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilsugæsluumdæmi eða þjónustusvæði. Koma þarf á skipulagðri nærþjónustu sérfræðinga með því til dæmis að binda ákveðinn einingafjölda við skilgreindar stofnanir.

Í viðtölum nefndarinnar við forstöðumenn heilbrigðisstofnana og fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins kom fram að huga þyrfti að frekari sameiningum stofnana bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ráðist verði í þá vinnu og að það verði gert í samráði við viðkomandi stofnanir ef rekstrarforsendur eru fyrir hendi. Sameiningar stofnana auka og styrkja þjónustu við íbúana, auka öryggi og nýta betur þekkingu fagfólks um leið og þær skapa sterkari rekstrareiningar. Er það skilningur meiri hlutans að sameining heilbrigðisstofnana geti jafnframt skapað sóknarfæri fyrir viðkomandi stofnun. Þar sem hvorki er rekstrarleg hagræðing né faglegur ávinningur af sameiningu ber að stuðla að auknu svæðisbundnu samstarfi stofnana. Í viðtölum nefndarinnar við fagfélög lækna og hjúkrunarfræðinga kom fram að forgangsröðun frumvarpsins sé í samræmi við þá þróun sem heilbrigðisþjónustan hefur tekið og stefnt er að í lögum nr. 40/2007. Fagfólkið telur hins vegar augljóst að vinnubrögð við undirbúning frumvarpsins hefðu mátt vera faglegri og breytingarnar markvissari. Ekki hafi verið farið í þarfagreiningu og skilgreint hvaða þjónusta sé nauðsynleg á hverjum stað og hvað felist í hugtökum eins og grunnþjónusta, umdæmissjúkrahús, heilsugæslusjúkrahús og fleira. Áréttar meiri hlutinn enn og aftur að nauðsynlegt sé að við aðdraganda og undirbúning að skipulagsbreytingum í heilbrigðiskerfinu séu fagleg vinnubrögð höfð í heiðri, sérstaklega með tilliti til þess hversu viðkvæm þjónusta á í hlut. Sparnaðarkrafa ráðuneytisins kemur þungt niður á mörgum heilbrigðisstofnunum en eins og fram hefur komið þarf að fara í vandaða stefnumótunarvinnu og frekari útfærslu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem hugtök eru skýrð, byggt er á þarfagreiningu og tekið er tillit til sérstöðu hvers landsvæðis eins og hægt er um leið og hagræðis er gætt.

Sjúkratryggingastofnun Íslands er ætlað veigamikið hlutverk í lögum. Áætlun stofnunarinnar um útgjöld sjúkratrygginga árið 2011 er nokkuð hærri en kemur fram í fyrirliggjandi frumvarpi. Meiri hlutinn telur ljóst að stofnunin geti gegnt mikilvægu hlutverki við að ná fram aukinni hagræðingu innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta á meðal annars við um samninga við heilbrigðisstarfsmenn, um kaup á þjónustu í lyfjamálum og í vinnu stofnunarinnar á þarfagreiningu á þessum þjónustuliðum. Fram kom í máli forstjóra stofnunarinnar að ein áhrifaríkasta leiðin til að ná fram sparnaði í heilbrigðisþjónustunni væri að koma sem fyrst á rafrænni sjúkraskrá. Meiri hlutinn hvetur til þess að unnið verði markvisst að því að innleiða rafræna sjúkraskrá á öllum heilbrigðisstofnunum og í sérfræðigreinum.

Í frumvarpinu kemur fram að unnið er áfram að áformum um aðhaldsaðgerðir og við nánari útfærslu kynni að reynast ástæða til að gera einhverjar tilfærslur eða breytingar á fjárheimildum sem yrðu lagðar fram við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Telur meiri hlutinn að í ljósi alls ofangreinds verði að leita allra leiða til að auka fjárframlög til málaflokksins í fjárlögum 2011.

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég las svo til allt álit meiri hluta heilbrigðisnefndar er sú að ég tel að vinnan sem fór í gang eftir að frumvarpið var lagt fram hafi í raun og veru skilað okkur vel á leið hvað varðar þær ábendingar sem fram koma í álitinu. Þegar í október var skipaður faghópur innan heilbrigðisráðuneytisins sem heimsótti hverja einustu heilbrigðisstofnun á landinu. Vinnulag þeirrar nefndar var eftirfarandi: Lögð var sérstök áhersla á að draga fram sjónarmið fagstjórnenda lækninga og hjúkrunar á hverri einustu stofnun. Tilgangurinn var að yfirfæra útfærslu stofnunarinnar á fjárlögum og fá mat stjórnenda á áhrifum heilbrigðisþjónustu á íbúa svæðisins, fá athugasemdir og mat fagstjórnenda á niðurstöðum um metna þörf á legurými á upptökusvæði stofnunarinnar, meta í samráði við fagstjórnendur möguleg áhrif á öryggi íbúa og sjúkraflutninga og kanna áhrif tillagna á öldrunarþjónustu á svæðinu. Að auki voru rædd staðbundin málefni á hverjum stað eftir því sem við átti.

Einnig kom fram að á þeim tíma sem liðinn er frá því að við lentum í hinu mikla efnahagshruni 2008 og gerðar voru aðhaldskröfur á þessar stofnanir hefur dregið mjög úr launakostnaði en launakostnaðurinn er um 70–80% af rekstrarkostnaði stofnananna. Mikið hefur því áunnist í að draga saman kostnað heilbrigðisstofnana.

Ég ætla ekki að hlaupa frá nefndaráliti heilbrigðisnefndar án þess að minnast á safnliðina. Nefndin tekur undir með öðrum nefndum um úthlutun á safnliðum og hvetur til þess að þeirri vinnu fjárlaganefndar verði breytt og styður þar af leiðandi þá vinnu sem verður farið í strax á næsta ári.

Nefndinni bárust 38 umsóknir sem hún fór vel og rækilega yfir. Í álitinu er gerð grein fyrir breytingum þar sem lagðar eru til hækkanir á styrkjum eða framlögum til ákveðinna félaga og rökstutt hvers vegna. Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í það. Varðandi þau félög og verkefni sem liggja fyrir heilbrigðisnefnd á safnliðum er sárt að hafa ekki meira fjármagn til þess að styrkja fleiri og veita hærri styrki. Við reyndum að úthluta fénu eins fagmannlega og okkur var unnt.

Ég held að ég láti þetta nægja nema að ég vil sérstaklega nefna Landspítala – háskólasjúkrahús sem fær með tilliti til annarra stofnana tiltölulega væga niðurskurðarkröfu. En eftir sem áður er stofnunin núna á mjög viðkvæmu stigi hvað reksturinn varðar. Það er alveg augljóst að erfitt er að lenda í eins miklu hruni og við lentum í og standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að skera bæði niður í opinberri þjónustu og auka skatta til þess að koma á sjálfbærni í ríkisbúskapnum. Öðruvísi gengur það ekki. Við tökum við búi Landspítalans og fjölmargra annarra stofnana sem voru í fjársvelti í öllu góðærinu. Við þekkjum vel að varla er keypt inn það tæki sem ekki er fengið með annaðhvort söfnun eða gjafafé þar sem Lions, kvenfélög eða fólk tekur sig saman til þess að safna fyrir ákveðnum tækjum. Þetta hefur viðgengist lengi en nú er svo komið að m.a. Landspítalinn, sem við þurfum að gera hvað mestar kröfur til að eigi að vera vel tækjum búinn, á orðið í erfiðleikum með að endurnýja tækin. Í raun og veru eru komin rauð viðvörunarljós hvað varðar tæki sem notuð eru til ákveðinna aðgerða. Að mínu mati og margra annarra hefði verið þægilegra í þeim niðurskurði og aðhaldi sem Landspítalinn þarf að taka á sig núna eins og aðrar stofnanir ef búið hefði verið að rekstrinum svo sómi væri að þau ár sem hér átti að vera allt í blóma.