139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:06]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Í þeim plöggum sem eru til umfjöllunar þessa dagana hjá fjárlaganefnd og þingmönnum eru margar tölur og margar prósentur. En það má aldrei gleyma því að á bak við allar þær tölur og prósentur er fólk hringinn í kringum landið, ungt og gamalt, heilbrigt og veikt, með eða án vinnu. Þessar tölur virðast kannski vera flóknar en það má líka einfalda hlutina og segja sem svo að í ríkisbúskapnum nái endar ekki saman. Það þekkja það allir frá sínu heimili að þegar endar ná ekki saman sparar fólk og helst þar sem óþarfann er að finna, ef svo er hægt að segja, en hlífir þeim liðum sem eru lífsnauðsynlegir og hlúa að lífi.

Endar ná ekki saman í ríkisbúskapnum og þá er spurningin einfaldlega þessi, herra forseti: Ætlum við að eyða peningum hins opinbera í vexti á næstu árum eða viljum við byggja aftur hratt upp? Ég, eins og margir aðrir þingmenn, kýs seinni kostinn. Mér finnst það óbærilegt að við og afkomendur okkar séum að borga gríðarháa vexti af hruninu um ókomin ár. Það er af nógu að taka til þess að skera niður, við erum þegar byrjuð, en eins og ég mun víkja að síðar í máli mínu er ekki sjálfgefið hvar við skerum niður. Við gerum eins og heima hjá okkur, við hlífum þeim liðum sem varða lífið en skerum burt óþarfann.

Það eru þrjár leiðir í þeirri stöðu sem nú blasir við þjóðarbúinu. Það er vissulega hægt að hækka skatta. Ég er ekki mikill talsmaður þess að hækka skatta á fjölskyldufólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, er að koma sér fyrir í sinni fyrstu íbúð. Það er hægt að skera niður og þar eigum við enn ýmislegt eftir og vissulega er hægt að breikka skattstofnana með því að gefa í í hagkerfinu og þar eigum við mikla möguleika, gríðarmikla möguleika, sem að mörgu leyti hafa verið vannýttir, þá ber að skoða eins og ég mun koma að í ræðu minni innan tíðar.

Mínir ágætu félagar í Sjálfstæðisflokknum hafa bent á þá leið að lækka skatta. Þeir hafa komið með tillögur í þá veru. Enda þótt ég telji að skattbyrðin á fyrirtækjum sem standa illa vegna skulda og lánaþenslunnar á undanförnum árum sé of mikil tel ég ekki stætt á því að lækka skatta nú um stundir einfaldlega vegna þess að þá þurfum við að skera meira niður og ekki hafa komið fram neinar málefnalegar tillögur í þá veru frá þeim ágæta flokki eða frá öðrum flokkum hér á þingi. Reyndar er það svo að mínir ágætu félagar í Sjálfstæðisflokknum vilja bæði lækka skatta í góðæri og harðæri, jafngáfulegt og það nú er. En það er önnur saga.

Við þurfum að dvelja við þau verkefni sem blasa við okkur og þar þurfum við að skera niður og þar þurfum við að leggja tímabundið á auknar álögur sem við vissulega þurfum svo að taka til baka eftir því sem hjól atvinnulífsins komast hraðar af stað. Við þurfum að gefa í í hagkerfinu, 2% hagvöxtur eða þaðan af minna er langt frá því að vera nóg. Við þurfum að koma hagvextinum upp í minnst 4% til að eiga vinnu fyrir allt það fólk sem nú gengur um atvinnulaust hringinn í kringum landið. Til móts við það fólk þurfa stjórnvöld að koma, lánastofnanir og reyndar allt samfélagið því að það er vissulega áfellisdómur yfir stjórnvöldum á hverjum tíma að geta ekki útvegað fólki sínu vinnu. Vissulega ber þó að hafa í huga að ástandið er með eindæmum eftir það gífurlega efnahagshrun sem þjóðin varð fyrir og sjöföld þjóðarframleiðslan fór fyrir róða.

Herra forseti. Er vandi okkar Íslendinga einstakur? Nei, hann er það ekki. Enda þótt ekki sé hægt að ylja sér við það að margir hafi það erfiðara en Íslendingar ber hins vegar að horfa til þess að halli ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu er ekki nema 4%. Við getum horft til nágrannalanda okkar, t.d. til Írlands sem er nú að lenda í efnahagskreppu. Þar er þetta hlutfall mun hærra, hallinn sem hlutfall af þjóðarframleiðslu Íra nemur 32%. Ef við förum enn lengra sjáum við að Grikkir eiga við enn frekari vandræði að etja en við hér heima á Íslandi, þar er hallinn sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, ef ég man rétt, 16%. Hér eru því gríðarlegir möguleikar til að snúa þróuninni hratt við og snúa hjólum atvinnulífsins hratt af stað.

Herra forseti. Ég mun koma víða við í ræðu minni en mig langar næst að staldra við gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Þar hefur verið ráðist í mikinn niðurskurð og eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar hef ég gagnrýnt það, bæði í ræðu og riti, á fundum víða um land, að þar hefur mér fundist einna síst hafa tekist til í fjárlagagerð þessa árs. Við eigum, rétt eins og á heimilum landsmanna, ekki að skera niður þegar illa árar í viðkvæmustu flokkunum og alls ekki umfram það sem við ætluðum. Í þeim flokki sem ég tilheyri var lögð blessun yfir 5% niðurskurð í viðkvæmasta málaflokki landsmanna sem snýr að heilsu fólks og reyndar rétti fólks til heilsu — ég gekk að minnsta kosti út frá því að farið yrði fram með fremur deigum hnífi í þann lið. Svo varð ekki, niðurstaðan í fjárlagafrumvarpinu var önnur, þar var hreinlega ráðist að viðkvæmum heilbrigðisstofnunum úti á landi svo að líkja má við aðför. Þetta eru svo sem engin ný tíðindi úr mínum munni, ég hef sagt þetta víða um land og stend við það. Ég tel að þar hafi ekki verið ráðist að atvinnu fólks, eins og sumir hafa viljað halda fram, heldur miklu fremur að heilbrigðisöryggi fólks sem að mínu viti er svo að segja heilagt og, af því að hér stendur jafnaðarmaður, að jöfnum aðgangi hringinn í kringum landið að því sem maður taldi sjálfsagðan hlut að komast á heilbrigðisstofnanir og fá þar þjónustu.

Ég hef átt því láni að fagna, herra forseti, að heimsækja held ég allar sjúkrastofnanir í mínu kjördæmi á undanförnum mánuðum og vikum og það hefur reynst mér hollt. Mig langar að segja frá einni þessara heimsókna í Sundabúð í Vopnafirði. Þar tók á móti mér elsti núlifandi Vopnfirðingurinn sem verður 96 ára á morgun, 10. desember, frú Sigríður Pétursdóttir, fædd á Vakurstöðum í Vesturárdal, sem er einn af þremur grösugum fjörðum sem ganga inn af Vopnafirði. Hún tók þéttingsfast í höndina á mér og sagði: „Héðan fer ég hvergi.“

Af hverju segi ég þessa sögu? Jú, vegna þess, eins og ég gat um í upphafi, að á bak við allar þessar tölur og prósentur er fólk á öllum aldri, líka Sigríður Pétursdóttir, 96 ára á morgun, fædd í byrjun fyrra stríðs. Hennar hlutskipti hefði verið, ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga, að vera flutt hreppaflutningum 140 km yfir á Egilsstaði á síðustu metrum síns lífs. Kannski finnst sumum óviðeigandi að draga inn í þessa sögu nafngreinda Íslendinga en þetta snýst einmitt um Íslendinga með nöfnum, þetta snýst ekki bara um tölur og prósentur.

Ég hafna hreppaflutningum á borð við þá sem voru fólgnir í fjárlagafrumvarpinu eins og það birtist landsmönnum að óvörum fyrr á þessum vetri. Ég hafna því algjörlega og ekki síst á þeirri forsendu að hin pólitíska aðkoma að því máli var svo að segja engin. Prósenturnar og tölurnar voru ákveðnar, að því er mér sýnist, inni í ráðuneytunum og hjá framkvæmdarvaldinu án þess pólitíska umboðs sem þingmenn eiga og skulu hafa til að breyta samfélaginu. Það á að vera pólitíkin sem breytir samfélaginu, lýðræðislegt umboð sem breytir samfélaginu. Það eiga ekki að vera embættismenn og það á ekki að vera framkvæmdarvaldið sem hefur þar endanlegt vald. Það má aldrei verða svo, herra forseti.

Við skulum því hafa þessa sögu, af elsta núlifandi Vopnfirðingnum, sem verður 96 ára á morgun, í huga þegar við rennum í gegnum svona gögn full af prósentum og tölum. Það er fólk á bak við þetta allt saman, fólk sem ríkið ætlar að fá að hlutfalli jafnan skatt af og af öðrum. Þá á þetta fólk, hvar á landi sem það býr, að fá svipaða þjónustu fyrir það fé sem það leggur til sameiginlegra sjóða. Það skal vera svo.

Heilbrigðismálin verða ekki skorin niður nema með fullu samráði við heimamenn, nema með fullu samráði við sveitarstjórnir hringinn í kringum landið. Og það er annað sem ég hef gagnrýnt við þær tillögur sem fram komu í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi: Það var ekkert samráð haft. Svo að maður grípi nú ekki svo djúpt í árinni þá var að minnsta kosti svo lítið samráð haft að heimamenn gátu ekki brugðist við aðsteðjandi vanda, þeir fengu ekki til þess ráð né tíma. Við förum ekki í stórfellda kerfisbreytingu á heilbrigðismálum án samráðs og samstarfs við heimamenn á hverjum stað og án virðingar fyrir þeim málaflokki sem um ræðir, einhverjum viðkvæmasta málaflokki sem fjárlagafrumvarpið snýr að. Það má aldrei verða svo. Við förum ekki fram í þessum flokki með flumbrugangi.

Ég tel afskaplega mikilvægt að við eðlilega og ef til vill nauðsynlega endurnýjun og breytingar á þessum málaflokki, í ljósi breyttra aðstæðna, verði staldrað við tvennt sem mun aldrei breytast á Íslandi, að ég held, og það er sjálft landakortið og veðurlagið. Við getum ekki beitt reykvísku ráðuneyti sem reiknilíkani á staði eins og Vestmannaeyjar, á staði eins og Patreksfjörð og Ísafjörð, á staði eins og Vopnafjörð og Seyðisfjörð og Norðfjörð. Þar lokast fólk oftar en ekki inni sakir veðurs og við hljótum að eiga fyrir því í ríkiskassanum að geta sinnt þessu fólki þegar kemur að þess helgasta rétti sem er rétturinn til heilsu.

Þegar og ef við förum í kerfisbreytingar sem koma til vegna bættra samgangna munum við samt aldrei geta breytt því að vera með umdæmissjúkrahús á Ísafirði, á Norðfirði og í Vestmannaeyjum, einfaldlega vegna þess að þótt við bætum samgöngur þá breytum við aldrei landakortinu og því síður veðurlaginu. Ég tel því að í komandi fjárlögum munum við aldrei geta breytt þessu og því gagnrýni ég það hart og innilega að 3/12 þess niðurskurðar í heilbrigðismálum sé frestað. Ég samþykki það ekki og hef gert athugasemd í fjárlaganefnd við það; ég er tiltölulega sáttur við þær breytingar sem orðið hafa í heilbrigðismálum þar sem mikill hluti niðurskurðarins úti á landi er tekinn til baka en ég tek ekki þátt í því að dreifa þessari kerfisbreytingu yfir á næstu tvö eða þrjú ár. Ég lét því bóka það, í fundargerðabók fjárlaganefndar, að ég liti svo á að ég samþykkti þessi fjárlög með þessum afturbata í heilbrigðismálum í trausti þess að niðurskurður til heilbrigðismála úti á landi á næstu tveimur árum yrði aldrei umfram annan niðurskurð til þessa málaflokks. Við þetta mun ég að sjálfsögðu standa þegar og ef farið verður fram með álíka hætti í heilbrigðismálum hringinn í kringum landið og gert var við gerð þeirra umdeildu fjárlaga sem nú eru til umræðu, að minnsta kosti er varðar heilbrigðisþáttinn.

Ég tek hann sérstaklega út vegna þess að ég hef mótmælt honum, þessum eina lið, sem er að vísu stór og mikilvægur og viðkvæmur. Ég get ekki sætt mig við að meginþungi niðurskurðar í þeim málaflokki fari fram úti á landi vegna þess að breyta eigi öllu kerfinu þar í einhver heilsugæslusjúkrahús með reiknilíkani sem fundið er upp í Reykjavík og ekki tekið tillit til veðurlags og þess landakorts sem við öll ólumst upp við í skólastofunni heima í okkar byggðarlögum.

Herra forseti. Ég mun næst víkja að öðrum lið fjárlaga sem mér er nokkuð umhugað um. Hann lýtur að vinsælu dægurmáli þingmanna og heitir Safnliðir. Mjög hefur verið um það rætt hvort breyta eigi því kerfi þegar ýmsar stofnanir litlar, líknarfélög, söfn, menningarfélög, sækja um einstaka styrki til fjárlaganefndar, og út á það má setja. Ég hef svo sem tekið eftir því að ýmsir Reykjavíkurþingmenn láta þetta fara í taugarnar á sér og er það að ýmsu leyti skiljanlegt. En hafa ber í huga í þessu efni að einfaldur arftaki þessa kerfis hefur ekki verið nefndur svo að ég viti. Það er ekki sjálfgefið, herra forseti, að þessari deild fjárlaga verði komið í einhvern Reykjavíkursjóðinn í viðbót og deilt út þaðan. Það er að mörgu leyti eðlilegt að til þessara verkefna hafi menn lýðræðislegt umboð og þekkingu í sínu kjördæmi hringinn í kringum landið og tala ég þar um öll kjördæmin að sjálfsögðu.

Ég tel eðlilegast og réttast að farið verði með þetta sem nærþjónustu. Mér finnst ekki eðlilegt þegar horft er til þessara liða sem lúta einkum og sér í lagi að fjórum þáttum; líknarfélögum, menningarsamningum og vaxtarsamningum og nýsköpun ýmiss konar, að allur sá peningur sem fer til þessara liða, margvíslegra líknarstarfa, margvíslegrar menningarstarfsemi, mikilvægrar nýsköpunar og alls kyns nýrrar atvinnuþátttöku — að henni verði skammtað úr hnefa úr Reykjavík. Ég tel að betur fari á því að þetta verði flutt út til sveitarfélaganna, til nærsamfélaganna, og að menningarsamningunum verði breytt á þann veg að þeir fari úr ráðuneytunum og heim í hérað, til landshlutasamtaka ef því er að skipta. Að vaxtarsamningarnir fari frá iðnaðarráðuneytinu og yfir til nærsveitanna, nærsamfélagsins og þar til bærra landshlutasamtaka. Sömu sögu er að segja af einhvers konar líknarsjóði sem gæti orðið til í hverjum landshluta eða hjá hverju landshlutafélagi og nýsköpunarsjóð. Það er ekkert sjálfgefið að þessu sé öllu miðstýrt úr Reykjavík með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu höfuðborg. Þetta er nærþjónusta og á heima á þessum stöðum sem eru til þess fullbærir að ráða sínum málum sjálfir og hafa um það sjálfdæmi hvernig úthlutað er til ýmissa mála sem menn heima í héraði þekkja betur til en einhverjir ágætir embættismenn í Reykjavík. Ég legg það því til hér, herra forseti, að þessum ágætu safnliðum, sem hafa verið umdeildir og hefur verið úthlutað meira og minna af fjárlaganefnd á hverjum tíma, verði hreinlega útvistað til héraðanna hringinn í kringum landið, til landshlutasamtaka sem geta ávaxtað það pund miklu betur en miðstýringarvaldið í Reykjavík.

Virðulegur forseti. Ég mun næst víkja að þeim liðum sem verið hafa til umfjöllunar í fjárlaganefnd á undanförnum vikum og mánuðum. Fjárlagafrumvarpið hefur verið endurbætt og því hefur verið breytt. Þeim lið sem snýr að viðkvæmum málaflokki heilbrigðismála hefur verið hrundið og er það vel. Vinnan í fjárlaganefnd hefur verið góð og gjöful og samstaðan hefur verið ágæt og margt gert þar til batnaðar. Ég vil nota tækifærið og þakka ágætum félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf og margar góðar tillögur og þær endurbætur sem hafa farið fram á fjárlagafrumvarpinu. Því miður eru þær ranghugmyndir uppi víða í samfélaginu, heyrir maður og finnur, að fjárlagafrumvarpið sé fjárlög, þeim verði ekki breytt þegar þau koma fram sem fjárlagafrumvarp. Öðru nær. Það er að sjálfsögðu þingið sem setur sitt mark á fjárlögin og breytir þeim að vild og mikil og góð umræða hefur farið fram um þá liði sem hafa orðið til breytingar í þessu fjárlagafrumvarpi á undanförnum vikum og mánuðum.

Ég vil fyrst staldra við æðstu stjórn ríkisins. Auðvitað er það ekki sjálfgefið á tímum niðurskurðar að þar sé bætt í. En ég get auðveldlega varið þá hluti sem bætt er í hjá æðstu stjórn ríkisins og er fyllilega sáttur við þá liði. Flestir þeirra eru afleiðing hrunsins. Ég nefni þar stjórnlagaþing, sem fær viðbót upp á 36 milljónir, saksóknara, sem fær um 24 milljónir í viðbót, laun þriggja dómara, 40 milljónir, Ríkisendurskoðun 5 milljónir og hagræðingarkrafan til Alþingis hefur verið minnkuð nokkuð, sem kemur til af því að rannsóknarskýrsla Alþingis krefst þess einfaldlega af þjóð og þingi að þar verði störf bætt og það kostar peninga eins og aðrar endurbætur í samfélaginu. Ég get því ágætlega tekið undir þær tillögur sem varða æðstu stjórn ríkisins enda þótt það hafi ekki endilega verið sjálfgefið í byrjun að þar yrði gefið í. En þetta er allt verjanlegt vegna þess að við erum að búa til nýtt og betra samfélag og það kostar peninga.

Ég vek einnig máls á því, herra forseti, að endurbætur á fjárlagafrumvarpinu snúa blessunarlega líka að þremur mikilvægum málaflokkum í samfélagi okkar, menntamálum, félags- og tryggingamálum og heilbrigðismálum. Mig langar að víkja fyrst að menntamálunum en breytt fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að 640 milljónum verði bætt við þann málaflokk og ég er fyllilega sáttur við þá liði og tel þá vera til marks um að þingmenn þekki þjóð sína og þarfir hennar. Þar er verið að bæta um 140 milljónum við Háskóla Íslands sem þarf vissulega á þeim peningum að halda, ekki viljum við að sá stóri hópur fólks sem hefur misst vinnu hafi ekki tækifæri til að mennta sig á meðan hann er í atvinnuleit.

Ég nefni líka nýsköpun námsmanna, 30 milljónir þar í viðbót, sjávarútvegsrannsóknir í Eyjum 9 milljónir, Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarsetur Austfjarða, sem hvort um sig fá um 12 milljónir, og nýjungar í menntamálum á Reykjanesi 16 milljónir ásamt Fisktækniskóla þar í grenndinni 8 milljónir. Síðast en ekki síst er vert að geta aðhaldskröfunnar til framhaldsskólanna. Þar er vægari krafa sem nemur 200 milljónum þannig að hnífurinn verður ekki jafnbeittur þar og stefnt var að í upphafi. Þetta er vitaskuld allt verjanlegt og rökin á bak við þessa liði eru að koma til móts við samfélagið eins og það er á þeim tímum sem við lifum. Það þarf að gæta hófs í niðurskurði til þessara viðkvæmu málaflokka og ekki er sjálfgefið að fara fram með beittasta hnífinn í menntamálin.

Félags- og tryggingamálin geyma stóra tölu í þessum fjárlögum enda málefni fatlaðra að flytjast yfir til sveitarfélaganna, og það er vel. Án þess að ég ætli að fara að bera þann mikilvæga flokk saman við safnliðina er það að mínu viti nærþjónusta að sinna fötluðum og það er kærkomið að fá þann flokk yfir til sveitarfélaganna með því tannfé sem viðeigandi er. Ég vil staldra við skýringar á breytingum á fjárlagafrumvarpinu en í frumvarpi til laga um málefni fatlaðra stendur, með leyfi forseta:

„Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 6. júlí sl. um fjárhagsleg málefni yfirfærslunnar var samið um að útsvarshlutfall sveitarfélaga hækki um 1,2 prósentustig og að tekjuskattshlutfall ríkisins lækki á móti um samsvarandi hlutfall. Gert er ráð fyrir að til lengri tíma muni þessi hækkun útsvarshlutfallsins duga sveitarfélögunum til fjármögnunar þjónustunnar og hefur þá verið tekið tillit til ýmiss kostnaðar sem auka muni útgjöldin í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Ég gríp niður í þennan kafla breytts fjárlagafrumvarps að gefnu tilefni vegna þess að það þarf að sjá til þess að þessi málaflokkur, sem kostar um 10 milljarða kr., álíka mikið og landbúnaðarkerfið svo að dæmi sé tekið, sé ekki vanhaldinn í byrjun. Það ber að horfa til þess að báðir aðilar, jafnt sveitarfélögin og ríkið, gangi sátt frá samningsborði þegar yfirflutningur á sér stað á jafnmikilvægum og viðkvæmum málaflokki og málefni fatlaðra eru. Ég fagna þessum tímamótum í aðhlynningu og umönnun fatlaðra og tel að þessum málaflokki sé best fyrir komið í nærþjónustunni hjá sveitarfélögunum og segi það í trausti þess að báðir aðilar gangi sáttir frá samningaborði vegna þess að þessi málaflokkur má ekki við deilum milli þessara aðila.

Ég tel reyndar að á þessum tímamótum eigi sveitarfélögin að horfa til enn fleiri málaflokka hvað slíkan flutning varðar. Þegar maður flettir fjárlagafrumvarpinu frá ári til árs verður maður var við að fjöldi liða sem nú eru í fjárlagafrumvarpi er betur kominn hjá sveitarfélögunum sem að mínu viti fara betur með peningana en ríkisvaldið, þekkja sitt fólk, þekkja sína heimahaga og geta gert meira og betur fyrir peninginn en miðstýringarvaldið í Reykjavík. Mér þætti því vænt um að sjá það í fjárlagafrumvörpum næstu ára að framhaldsskólinn færi sömu leið og grunnskólinn, yfir til sveitarfélaganna. Það er að mínu viti nærþjónusta.

Það er með ólíkindum, herra forseti, að málaflokkar eins og eftirlitsiðnaður margvíslegur á vegum ríkisins skuli ekki fyrir lifandis löngu vera kominn yfir til sveitarfélaganna. Það er eins og ríkið sé að safna flugpunktum á leið sinni yfir landið til að líta eftir alls kyns iðnaði og matvælavinnslu. Auðvitað á þessi þjónusta að vera í nærumhverfinu hjá sveitarfélögum í stað þess að verið sé að fljúga mönnum fram og aftur um landið af því að stofnanirnar eru í Reykjavík. Þetta er nærþjónusta og það er betur farið með peninga hins opinbera heima hjá því fólki sem þekkir til en suður í Reykjavík með fullri virðingu fyrir okkar ágætu höfuðborg.

Ég held reyndar að ef málefni fatlaðra fara yfir til sveitarfélaganna með ágætum og sóma muni það vera ísbrjóturinn fyrir frekari yfirfærslu málaflokka til sveitarfélaganna þar sem þeir eiga í mjög mörgum tilvikum heima. Það er ekki sjálfgefið að hin opinbera þjónusta sé að 70% hjá ríkinu og 30% hjá sveitarfélögum. Það má allt eins snúa þessu við í framtíðinni og byrja strax og við erum reyndar byrjuð nú þegar.

Herra forseti. Ég vil þessu næst aðeins víkja að sjálfri fjárlagagerðinni. Ég er óhræddur við að gagnrýna þá liði í fjárlagafrumvarpinu sem mér finnst vera settir fram af skammsýni en ég er líka óhræddur við að fagna þeim liðum sem eru til bóta í fjárlagafrumvarpinu og þeir eru yfirgnæfandi. Það er rétt að geta þess í lokin og gagnrýna að fjárlagagerð hvers tíma á að vera pólitískt verk. Hún á ekki frá A til Ö að vera verk framkvæmdarvaldsins, og því síður embættismanna, hún á að verða til í því pólitíska litrófi sem þrífst innan þings og ekki síst í nefndum þingsins. Þess vegna finnst mér afskaplega mikilvægt að rammi hinna eiginlegu fjárlaga verði settur miklu fyrr en gert hefur verið á undanförnum árum, jafnvel strax á útmánuðum, vegna þess að það á að vera lýðræðislegt umboð, lýðræðisleg innstæða fyrir þeim pólitísku breytingum sem gerðar eru í landinu hverju sinni. Þess vegna er mikilvægt og reyndar sjálfsögð kurteisi við stofnanir landsins að ramminn í fjárlagagerð sé settur miklu fyrr. Og af hverju svo sem? Jú, það sparar peninga. Ef rammi fjárlaga er settur fyrr, svo sem eins og á útmánuðum sem ég nefndi, geta stofnanir ef til vill brugðist miklu fyrr við þeim kvöðum sem lagðar eru á þær undir lok árs eins og gert er nú. Fyrir vikið geta þær engan veginn brugðist við fjárlagafrumvarpi hvers tíma fyrr en jafnvel um mitt ár sem fjárlögin gilda fyrir.

Að mínu viti er því hreinn sparnaður að því að fjárlagaramminn verði settur miklu fyrr og af því að hér gengur fram hjá hv. þm. Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, skora ég á þann ágæta og góða formann að ganga í þau verk nú þegar að lokinni þessari fjárlagagerð og skoða þann möguleika að rammi fjárlaga verði færður mun framar til þess að stofnanir samfélagsins sjái betur fram í tímann og geti brugðist fyrr við aðsteðjandi vanda og aðsteðjandi breytingum.

Herra forseti. Ég hef farið um víðan völl sem eðlilegt er enda er fjárlögunum ekkert mannlegt óviðkomandi. Ég hef gagnrýnt þann lið fjárlagafrumvarpsins sem snýr að heilbrigðismálunum en ég hef jafnframt hrósað langflestum þeirra breytinga sem gerðar hafa verið og eru til hreinna bóta og speglast í því samfélagi sem við búum í í dag þar sem kreppan blasir við. Ef við göngum hratt til verks, förum klárlega og viskulega í niðurskurðinn, hækkum ef til vill álögur en þó aldrei umfram það sem nauðsynlegt er, og bítur ekki í skottið á sjálfum okkur, eigum við að geta komist nokkuð hratt upp úr þeirri lægð sem nú er í efnahag landsmanna. Endar ná ekki saman en þeir munu ná saman og árið 2013 verður ríkisbúskapurinn vonandi orðinn sjálfbær.

Enn er nokkuð í land, enda þótt við skerum niður á komandi ári blasir við að 34 milljarðar standa enn út af borðinu sem þýðir einfaldlega að við þurfum að grípa til enn frekari aðhaldsaðgerða á árinu 2012. En ég ítreka það hér, virðulegur forseti, að við getum gert betur í fjárlagagerðinni og þar staldra ég sérstaklega við það sem ég nefndi áðan að menn færi fjárlagarammann framar á árið svo að af því geti hlotnast sparnaður. Við þurfum á honum að halda.

Að lokum þetta: Ýmis blöð úti í heimi segja að kreppan sé á enda. Það eru engin smáblöð, Financial Times og New York Times, og hafa nú einhverjir tekið mark á þeim í þessu púlti. Vissulega hefur kreppt að en það eru ýmis teikn á lofti um að við séum að komast upp úr mesta öldudalnum. Þess vegna ríður á að þingmenn snúi bökum saman, skattyrðist ekki þó að menn úr öðrum flokki en þeirra eigin komi fram með góðar hugmyndir, sameinist um bætur og endurbætur í samfélaginu og hafi sæmilega trú á að markmiðið náist. Við hljótum að geta unnið saman að þessu verkefni þótt ekki sé til annars en að þjóðin hefði eitthvert eilítið meira álit á okkur en komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarnar vikur.