139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og félaga í fjárlaganefnd að skattkerfið má ekki lama fólk og fyrirtæki. Skattkerfið er rétt eins og tilfærslukerfið, í sjálfu sér jöfnunartæki og er hægt að beita til jafnaðar og reyndar ójafnaðar ef svo ber undir. Skattkerfið getur líka verið hvatatæki. Það hefur ekki verið notað að mínu viti í nægilega ríkum mæli í þá áttina.

Ég tel að þingheimur eigi að leggjast á eitt og koma fram með uppbyggilegar tillögur í þá veru að skattar og skattheimta geti leitt af sér ýmislega hvata. Þeir sem sýni af sér samfélagslegan metnað (Forseti hringir.) út í atvinnulífinu, atvinnufyrirtæki, geti með ýmiss konar ívilnunarkerfi, rétt eins og stóriðnaðurinn (Forseti hringir.) fær hér heima, fjölgað atvinnutækifærum.

(Forseti (KLM): Ég vil vekja athygli þingmanna á því að það er smá ólag á klukkunni hérna í ræðupúltinu, en við munum halda kontról á því hérna í forsetastóli.)