139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir um margt ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans bæði varðandi breytingartillögurnar sem liggja fyrir að eru margar hverjar til bóta og eins varðandi vinnulag, atvinnumál og fleira sem hann vék að í sinni ræðu.

Það var eitt sem mig langaði að ræða við hv. þingmann. Hann fjallaði töluvert um heilbrigðismál og tillögurnar sem liggja fyrir í þeim efnum. Ég veit að hann hefur haft ákveðnar skoðanir á þeim og hefur tjáð þær opinberlega. Hann hefur verið talsmaður heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Það kom fram í máli hv. þingmanns að hann mundi ekki fallast á frekari niðurskurð í þessum málaflokki en þann sem þegar er kominn fram. Mikilvægt væri að það lægi fyrir hvaða þjónustuskerðingu þetta ylli. Nú liggur fyrir að tvær stofnanir eru enn með 12% og önnur tók á sig 11% á síðasta ári. Telur hv. þingmaður að þarna sé of langt gengið eins og til að mynda með heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki sem tekur þá á sig 23% á tveimur árum? Það olli þjónustuskerðingum í fyrra og mun að öllum líkindum gera það núna. (Forseti hringir.)