139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðunni. Það er nú þannig að þegar kemur að tekjukaflanum eða atvinnumálunum erum við sjálfstæðismenn oft og tíðum sammála um hvaða áherslur eigi (Gripið fram í.) að vera — við og sjálfstæðismenn, ekki „við sjálfstæðismenn“, svo það sé á hreinu.

Það sem mig langaði að spyrja hv. … (Gripið fram í: Ertu sjálfstæður framsóknarmaður?) Já, ég er sjálfstæður framsóknarmaður, það er rétt til getið. Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann er hins vegar varðandi menntakerfið. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom í andsvar rétt áðan [Hlátrasköll í þingsal.] og hafði eitthvað út á það að setja að ég sagði að við þyrftum að taka til endurskoðunar einkarekstur í menntakerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum einmitt að gera það vegna þess að nýleg dæmi sýna að eftirlitið í þeim málaflokki hefur ekki verið nægilega gott. (Gripið fram í: Ég kem í ræðu á eftir.) Reyndar lagði hv. þingmaður það þannig út að ég væri jafnvel bara á móti menntun almennt. Ef ég hef ýjað að því á einhvern hátt biðst ég afsökunar á því að hafa verið óskýr. Ég er ekkert sérstaklega á móti menntun, ég er reyndar bara mjög fylgjandi menntun. Ég vil taka fram að Háskólinn í Reykjavík og aðrar stofnanir sem eru einkareknar hafa verið að gera gríðarlega góða hluti. Ég er hins vegar á móti þessu í prinsippinu þannig að það sé sagt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hver hennar skoðun er á einkarekstri og hvort hún sé sammála mér um að við þurfum að auka eftirlit með þeim fjármunum sem ríkissjóður leggur til þessa málaflokks.