139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem nú stendur yfir um fjárlög fyrir árið 2011, 2. umr., er þung og mikil og eðlilegt að margir séu á mælendaskrá. Sumir segja að þetta séu kannski ein erfiðustu fjárlögin sem við erum að gera frá hruni, frá fjárlagagerð haustið 2008, það sem við gerðum fyrir 2009 og það sem við gerðum fyrir þetta ár og það sem verið er að gera núna 2011, alla vega tekur það vel í.

Ég ætla að reyna að einskorða mig við nokkra málaflokka og byrja á heilbrigðismálum. Það sem hefur valdið manni hvað langmestum vonbrigðum og angist eru þær tillögur sem komu fram í fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var 1. október, og allur sá mikli niðurskurður sem þar var settur fram, algerlega óræddar hugmyndir í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi, ekki bara í stjórnarflokkunum heldur í stjórnmálaflokkum öllum. Grundvallarbreyting var boðuð sem ekki verður liðið að verði gert á þennan hátt, þ.e. strúktúrbreyting er sett fram sem niðurskurður í tölum í fjárlögum. Slík breyting krefst agaðri vinnubragða. Í stjórnarsáttmálanum milli Samfylkingar og Vinstri grænna er kveðið á um slík vinnubrögð en þau voru því miður ekki viðhöfð í þessu máli. Það ber að harma og frá fyrsta degi, frá því er ég heyrði þessar tölur og heyrði um þennan mikla niðurskurð, hef ég sagt að ekki kæmi til greina að samþykkja þetta.

Þó að ég hafi setið í ríkisstjórn til 2. september sl. og tekið þátt í að búa til ramma utan um fjárlög, m.a. að setja fram kröfu um 5% niðurskurð í heilbrigðismálum, 10% í öðrum málaflokkum o.s.frv., þá var aldrei talað um að gera þetta á þann hátt sem þarna er sett fram. Enda fengu þessar tillögur falleinkunn. Efnt var til íbúafunda úti um allt land í landsbyggðarkjördæmunum öllum þremur, fjölmennir fundir. Ég hugsa að ég gleymi aldrei íbúafundinum á Húsavík. Það var engu logið um það að 1.400–1.500 manns mættu á þann fund og hann var sjóðheitur. Þar var þessum niðurskurði mótmælt kröftuglega. Stjórnendur lögðu fram sín mál og gerðu það vel. Það sama má segja um íbúafund sem haldinn var á Austurlandi sem ég komst því miður ekki á. Ég komst hins vegar á fund í mínum heimabæ, Siglufirði, sem tilheyrir sveitarfélaginu Fjallabyggð og hlustaði á rök þar. Sem nefndarmaður í heilbrigðisnefnd tók ég þátt í símafundi með forsvarsmönnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þar kom meðal annars fram að ef þær tillögur gengju eftir sem þar voru boðaðar þá væru það lágmark 300–400 milljónir sem mundu bætast við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, ef menn tóku 50–60% af þeim sem voru lagðir inn á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík, ef þeir færðust yfir til Akureyrar, þá væru það 300–400 milljónir sem vantaði þar inn, eða kostnaðarauki vegna þess.

Steininn tók alveg úr þegar fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Austurlands riðu til Vopnafjarðar, fóru þangað og sögðu þar á fundi að ágæt stofnun sem heitir Sundabúð, sem var byggð upp af Vopnfirðingum — maður hefur heyrt lýsingu á því þegar Vopnfirðingar voru búnir í sinni vinnu, þá fóru þeir að upp byggja upp þessa aðstöðu í steypuvinnu og annað í sjálfboðavinnu — þar sem leigðar eru út íbúðar til aldraðra á efri hæð en hjúkrunarsjúklingar eru á neðri hæð. Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands voguðu sér að fara þangað áður en fjárlagafrumvarp var fullkomlega tilbúið og boðuðu þar að næði þessi niðurskurður fram að ganga yrði Sundabúð lokað og til stæði að flytja 12 vistmenn hreppaflutningum annaðhvort á Eskifjörð eða Seyðisfjörð.

Virðulegi forseti. Það á að biðja Vopnfirðinga afsökunar á því hvernig þetta var sett fram. Jafnframt ætti að setja ofan í við stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem þetta gerðu vegna þess að þeir vissu eða áttu að vita að þessi mál yrðu tekin til endurskoðunar og þetta yrði aldrei samþykkt eins og þetta var sett þar fram, þessar vitleysishugmyndir og kröfur.

Virðulegi forseti. Ég átti líka fund á Sjúkrahúsinu á Norðfirði og hlustaði á þá aðila setja það fram hvernig þetta er rekið þar, sá fyrirmyndarrekstur sem þar er. Það gerðist ekkert á þessum íbúafundum og fundum þingmanna kjördæmisins með þessum heilbrigðisstofnunum annað en málið varð bara verra. Núverandi heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, sagði strax, og ég fagna því, að þessi niðurskurður kæmi ekki til greina. Hann gekk í þetta mál, sendi fulltrúa sína, að vísu sömu fulltrúa og bjuggu til fyrstu tillögur — og ég tek það skýrt fram að það eru ekki starfsmennirnir sem setja fram þessar tillögur, það eru pólitíkusarnir. En þar hefur verið tekið á og dregið úr kröfum um niðurskurð. Eins og komið hefur fram og kom fram frá fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins á fundi heilbrigðisnefndar í gær eða fyrradag er varanlega búið að taka til baka 1.200 millj. kr. af þessum 3 milljörðum sem skera átti niður á þessum stofnunum á landsbyggðinni plús jú auðvitað St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. En 560 millj. kr. niðurskurður geymist til 2012 og það er það sem veldur mér vonbrigðum. Það verður nóg að kyngja þessum niðurskurði núna, ef maður kyngir honum, fyrir árið 2011 og þeirri aðför sem er gerð að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. En niðurskurðaráform um 2012 mun maður aldrei samþykkja. Þar á þá rothöggið að koma, ef svo má að orði komast, og það verður einfaldlega aldrei liðið og aldrei samþykkt.

Virðulegi forseti. Það er hinn ískaldi raunveruleiki sem núverandi ríkisstjórn stendur frammi fyrir, að skera niður og hækka skatta. Það hefur verið gert í þeim tvennum fjárlögum sem ríkisstjórnin hefur sett fram. Það hefur ekki verið neitt gamanmál en nauðsynlegt engu að síður. Svo getum við deilt um það við félaga okkar í Sjálfstæðisflokknum og ef til vill Framsóknarflokknum hvaða leiðir eigi að fara. Ég ætla ekki að fara að rifja upp, fara aftur í tímann og horfa í baksýnisspegilinn, hvers vegna þetta gerðist og á hvaða vakt þetta gerðist. Þetta er hinn ískaldi raunveruleiki, þetta er hin slæma staða sem við stöndum frammi fyrir og þess vegna er mikilvægt að fara um þetta með gát. Það er ekki sama hvernig þetta er gert. Þessi framganga hvað varðar heilbrigðismálin hefur að mínu mati fengið falleinkunn, hvernig þetta var sett fram, og slíkt má aldrei gerast aftur. Þetta verður að vinna faglegar og betur en þarna var gert.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að snúa mér að því sem skiptir máli fyrir okkur Íslendinga í þessari kreppu. Það er ekkert annað en hagvöxtur og aukinn hagvöxtur og enn meiri hagvöxtur sem mun vinna okkur út úr þeirri kreppu sem við erum í. Ég hef sagt áður í þessum ræðustóli og skal gera það einu sinni enn að fjárhagsvandi ríkissjóðs og uppbygging atvinnulífs og annars slíks í landinu verður ekki leystur með því að hækka skatta endalaust, skera niður í ríkisrekstri endalaust eða fjölga störfum með því að ráða fleiri í vinnu hjá ríkinu. Þetta er ekki kostur. Við þurfum atvinnuuppbyggingu og aftur atvinnuuppbyggingu, við þurfum að ná sem flestum af þeim 13.000 sem ganga atvinnulausir í dag — þjóðin getur ekki farið svo með landa sína og það er líka illa farið með gott vinnuafl. Þess vegna verður að vinda bráðan bug að því að byggja upp atvinnulífið. Ég vil trúa að handan við hornið — við sjáum vexti lækka mikið, verðbólgu lækka mikið, krónuna styrkjast og fleira — sé að koma að því að við förum að gefa í í atvinnulífinu. Aukning atvinnu er það sem skapar þann hagvöxt sem við þurfum, auknar tekjur ríkissjóðs gegnum auknar tekjur fólks, skattgreiðslur til ríkissjóðs, minni atvinnuleysisbætur — þær eru í kringum 27–30 milljarðar í dag — og því er atvinnuuppbygging kannski brýnasta verkefni stjórnvalda nú á næstu mánuðum. Þá er allt undir, virðulegi forseti. Alveg sama hvort það eru stórframkvæmdir í samgöngumálum, sem vonandi eru á næsta leiti, í viðræðum við lífeyrissjóðina, framkvæmdir upp á 40 milljarða á næstu fjórum til fimm árum. Vonandi gengur það eftir, það gefur í í þá atvinnugrein og að auki þeir 6 milljarðar sem á að vinna fyrir í hefðbundnum ríkisframkvæmdum í vegamálum á næsta ári. Vonandi gengur þetta eftir og verður jákvæð og góð innspýting og þúsundir ársverka munu skapast.

Vonandi tekst líka fyrir jól að koma skattamálum gagnavera þannig fyrir að uppbygging þeirra fari á fulla ferð og þau sem eru í mikilli uppbyggingu og hafa þegar hafið starfsemi, eins og Thor Data Center í Hafnarfirði, með samningi við Operu í Noregi o.fl., vaxi og dafni. Við Íslendingar þurfum að laga skattkerfi okkar að því sem gerist í Evrópu þannig að við séum samkeppnisfærir við Evrópu á meðan við erum ekki komin inn í Evrópusambandið sem ég veit að fjölmargir í þessum sal eru hlynntir og eru að vinna að.

Í þriðja lagi hika ég ekki við að halda því fram að nú þegar umhverfismati að byggingu álvers á Bakka við Húsavík er lokið, vonum seinna og loksins, þá eigum við að einhenda okkur í að byggja þar 180 þús. tonna álver eins og arðsemisútreikningar hafa verið gerðir fyrir, arðsemisútreikningar sem skila mjög jákvæðri niðurstöðu og yrðu mjög til heilla fyrir það svæði. Ég er ekki talsmaður fyrir 350 eða 360 þús. tonna álveri á þessu svæði. Við eigum að einhenda okkur í 180 þús. tonna álver og þar eru sem betur fer tveir aðilar tilbúnir. Það er verkefni næstu mánaða að hrinda þessari framkvæmd í gang. Leitin að einhverju öðru til atvinnuuppbyggingar á norðausturhorninu og nýtingu þeirrar orku sem þar er hefur ekki borið árangur. Þá eigum við engan annan kost en þennan, enda er þetta ekki slæmur kostur. Þetta er stór vinnustaður. Að vísu mengar hann eitthvað hvað varðar gróðurhúsalofttegundir en ég nefni það stundum sem dæmi að þotufjöldi okkar Íslendinga mengar á við 14 Straumsvíkurálver.

Það sama vil ég segja, virðulegi forseti, um uppbyggingu álversins í Helguvík sem er hafin og hefur staðið yfir og er búið að eyða miklum peningum í. Ég get ekki séð, miðað við þá skoðun sem ég hef gert á þessu, að neitt standi í vegi frá hinu opinbera hvað þessa uppbyggingu varðar. Það getur vel verið að það hafi verið fram að þessu. Nú er þetta einfaldlega í höndunum á þeim sem ætla að selja orkuna og þeim sem ætla að kaupa orkuna. Þeir verða að ná samkomulagi og vonandi ná þeir samkomulagi þannig að atvinnuuppbygging þarna geti farið á fulla ferð strax á nýju ári.

Þó að við ætlum ekki að tala um eintóm álver, gagnaver eða samgönguframkvæmdir á vegum hins opinbera, sem eru nauðsynlegar og eru bestar á samdráttartímum — þá á hið opinbera að vera að framkvæma, það segir hagfræðin okkar, á bls. 1, eða hagfræði 101. Jafnframt þarf að gefa í og það er athyglisvert og ánægjulegt sem hefur komið fram um vöxt skapandi greina. Sama má segja um menningarmál að ég tali ekki um sjávarútvegsmál. Þar verður deilum að linna og nást sátt um vegna þess að mér virðist að allt sé frosið í þeirri grein. Einn aðili orðaði það á þann veg að útgerðarmenn keyptu ekki einu sinni málningarfötu lengur til að fara í endurbætur og viðhald skipa og fiskvinnsluhúsa vegna óvissu sem er í sjávarútvegsmálum. Því verður að linna.

Að lokum, virðulegi forseti, er það hinn mikli og stóri vaxtarbroddur sem við höfum séð síðustu tvö sumur, ferðaþjónustan sem gefur mikið í aðra hönd. Verst hvað vertíðin stendur stutt yfir en hún er góð það sem er og leggur mikið til þjóðarbúsins.

Ég hef farið yfir nokkur atriði hvað varðar atvinnuuppbyggingu þar sem gefa verður í vegna þess að ef það verður ekki, ef hagvöxtur eykst ekki og atvinnuuppbygging fer í gang og fleiri atvinnulausir fari af atvinnuleysisskrá og í vinnu og ef við minnkum ekki þessa 27–30 milljarða sem við greiðum í atvinnuleysisbætur með álagningu tryggingagjalds á þau fyrirtæki sem enn eru í gangi — þetta verðum við að gera og þá munum við sjá fram á betri tíð fyrir fjárlagagerð 2012. Þá munum við ekki sjá þær vondu tölur sem menn þykjast sjá þar í fjarska. Með þeim orðum er ég að segja að ég hika ekki við að halda því fram að ef eitthvað af þessu gengur eftir og helst allt þá þurfi ekki að koma til meiri niðurskurðar í heilbrigðismálum, þá ætti frekar að fara að gefa í. Það verður aldrei liðið að þessi mesta árás á landsbyggðina sem um getur í gegnum heilbrigðismálin gangi eftir fullkomlega.

Það er ánægjulegt til þess að vita að loksins hafi það tekist að málefni fatlaðra séu flutt yfir til sveitarfélaganna. Þetta hefur verið rætt í mörg ár, aldrei tekist fyrr en í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar. Það er ánægjulegt. Þessi málefni eru eins og önnur málefni betur komin heima í héraði en í fjarstýringu frá Reykjavík og úti um landið. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist með skólann þegar hann var fluttur yfir, þar spruttu út margir kvistir þegar þetta var komið heim í hérað. Nú þegar málefni fatlaðra eru klár að fara yfir þá á að einhenda sér í næsta verkefni sem er að flytja málefni aldraðra yfir til sveitarfélaganna árið 2012.

Ég hef eðlilega gert að aðalumtalsefni niðurskurðinn í heilbrigðismálum vegna þess að hann er að mínu viti það allra versta í þessum fjárlögum, sú mikla breyting sem þetta hefði í för með sér ef það allt hefði gengið eftir. En sem betur fer hefur verið stigið skref til baka og ég ítreka það sem ég sagði áðan: 1.200 millj. kr. af þessum 3 milljörðum eru teknar til baka varanlega og vonandi kemur aldrei til þess niðurskurðar árið 2012 sem settur er fram í gögnum frá heilbrigðisráðuneytinu gagnvart stofnunum á landsbyggðinni. Ég vil taka það skýrt fram að ég fagna því sem hér er sett fram að ekki sé verið að ráðast á burðarásinn í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þ.e. Landspítalann. Hann þarf svo sem að taka á hvað varðar rekstur en hér er ekki settur fram mikill niðurskurður frekar en á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ég fagna því vegna þess að þetta er flaggskip í okkar heilbrigðisþjónustu, frábær starfsemi sem þarna á sér stað og hana verður að vernda sem mest.

Virðulegi forseti. Hvað ber næsta ár í skauti sér? Hvað boðar blessuð nýárssól? Ég hef trú á að við séum að komast yfir erfiðasta hjallann. Það getur vel verið að við eigum eftir að taka nokkrar snerrur á næstunni um Icesave ef samningur kemur um það. En þegar því er lokið hika ég ekki við að halda því fram að þá mun ýmislegt fara í gang sem ég gerði að umræðuefni áðan hvað varðar atvinnuuppbyggingu með erlendu fjármagni, með erlendri fjárfestingu sem er nauðsynleg inn í landið vegna þess að atvinnuuppbygging á komandi árum verður ekki gerð með 100% lánsfé eins og var áður fyrr. Héðan í frá þarf að koma meira eigið fé inn í verkin og þess vegna er sú aðferð sem verið er að vinna eftir suður í Helguvík sú aðferð sem þarf að nota þar vegna þess að þar kemur erlent fé inn og þar kemur meira eigið fé inn til verkefnisins.

Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að með stórlækkun vaxta og það að verðbólgumarkmið Seðlabankans séu nú að nást — og menn geti ekki einu sinni munað hvenær það gerðist síðast, það eru fjölmörg ár síðan. Lækkun vaxta mun halda áfram, ég þykist sjá að vextir eigi eftir að lækka um 50, 75 punkta í viðbót og þá munum við sjá vaxtatölu sem við höfum aldrei lifað við. Það mun svo flæða út til atvinnuuppbyggingar þegar endurskipulagningu banka lýkur og atvinnufyrirtækja. Bankarnir verða að einhenda sér í að hjálpa þessum 6.000 fyrirtækjum að minnsta kosti sem eru með neikvætt eigið fé en eru með ágætisrekstur sum hver og mjög slæma efnahagsstöðu. Þeir þurfa að ganga í það að hjálpa þessum fyrirtækjum. Við skulum hafa eitt í huga — og þá ætla ég að rifja aftur upp að rúmlega 13 þús. manns eru á atvinnuleysisskrá — að ef hvert þessara 6.000 fyrirtækja gæti ráðið einn starfsmann í framhaldi af slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu þá hverfur helmingurinn út af atvinnuleysisskrá. Ef helmingur þessara fyrirtækja gæti gert þetta kæmu 3.000 manns í framhaldi af því inn í atvinnulífið. Við sjáum hvaða áhrif það hefði á efnahagslífið ef 3.000 eða 6.000 manns færu af atvinnuleysisskrá og færu að skapa tekjur og gætu borgað niður skuldir sínar og tekið þátt í eðlilegum rekstri í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áður verður þessi umræða um fjárlög löng. Mér finnst hún ekkert voðalega hörð. Mér finnst hálfpartinn vera nokkur samhljómur milli allra sem hér eru að tala þó að menn geti greint á um hlutina milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan sæki á stjórnarliðið hvað varðar skattahækkanir, niðurskurð og þetta allt saman. Ég þykist þess hins vegar fullviss að það væri ekkert öðruvísi sætu þeir sjálfir við stjórnvölinn, það væri ekki mikill munur á. En við erum í þessari efnahagskreppu. Við erum að reyna að koma okkur út úr þessari kreppu. Árið 2011 verður erfitt hvað varðar ríkissjóð, hvað varðar fjárlög. En ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, og ég er mjög bjartsýnn á að ýmislegt muni snúast í þessum mánuði eða kannski um áramótin, að árið 2012 muni fljótlega fara að birta til líkt og menn hafa verið að kalla eftir úr ræðustól Alþingis að það muni birta til fljótlega á nýju ári.