139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst gott að hlusta á hv. þm. Kristján Möller einu sinni sem oftar og mér fannst gott að finna það hversu keikur hann var og kappsfullur fyrir hönd ekki bara kjördæmis síns heldur líka fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Mér fannst skilaboð hans í stórum dráttum vera góð og mér fannst þau þörf. Ekki síst voru þau góð af því að þau komu frá stjórnarliðinu. Það er ekki oft sem maður hlustar á þingmenn stjórnarflokkanna sýna atvinnulífinu ákveðinn skilning, að við þurfum að framleiða, að við þurfum að nýta orkuauðlindir. Það er ekki oft sem við heyrum talað svona af hálfu stjórnarsinna en það þarf að vera gott fólk í öllum flokkum og þess vegna var mikilvægt fyrir okkur að heyra þetta.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvað hann ætlar að gera til að vinna gegn úrtöluöflunum, við skulum ekkert vera að tipla á tánum í kringum það, við vitum vel að þær raddir er ekki síst að finna að innan hans flokks en líka á meðal Vinstri grænna sem vilja koma í veg fyrir einmitt þessa orkunýtingu sem er okkur þörf, ekki bara fyrir álver heldur líka fyrir gagnaverin og ýmsar aðrar framleiðslugreinar sem við þurfum að efla og auka. Ég vil spyrja hvort hann ætli ekki að halda áfram að berjast fyrir því sem hann lýsti svo ágætlega.

Annað sem vakti athygli mína og það tengist vinnu varðandi fjárlögin, rammann sem hann vann með og samkvæmt fram til 2. september þegar hann hætti sem ráðherra illu heilli, þá var miðað við 5% niðurskurð í heilbrigðismálum. Ég spyr: Hvað gerðist á þessum mánuði fram að framlagningu fjárlagafrumvarpsins? Var fyrrverandi heilbrigðisráðherra eða sá sem á eftir kom ekki að vinna af heilindum í ríkisstjórnarsamstarfinu fyrst ramminn sem lá fyrir á ríkisstjórnarborðinu var 5% niðurskurður en síðan komu allt aðrar tölur fram fyrir þingið? Hvernig metur hv. þingmaður þetta?