139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið upplýst um að niðurskurður í heilbrigðismálum í heildina á Íslandi sé 3,9% en ekki 5% eins og ég talaði um áðan og skal það þá leiðrétt.

Aðeins varðandi niðurskurðartillögurnar og það sem við köllum stórbreytingu, menn segja stundum strúktúrbreytingu í heilbrigðismálum sem boðað var í fjárlögunum, þá verður að segjast eins og er að það á ekki að fela það neitt og menn eiga ekki að tala gegn samvisku sinni. Það er bara þannig og það eru kannski hinir nýju tímar sem eiga að vera í störfum Alþingis og annars staðar að þessar tillögur komu manni á óvart þegar frumvarpið var lagt fram 1. október. Þó ég hafi setið í ríkisstjórn til 2. september þá voru þessar hugmyndir hvorki settar fram né kynntar. Þær urðu mér fyrst ljósar þegar fjárlagafrumvarpið kom fram. Það er bara þannig. Hvort sem talað var um flatan niðurskurð eða annað því ég vissi hins vegar nákvæmlega hvernig átti að haga 10% niðurskurði í mínu ráðuneyti og tók þátt í að útfæra það áður en tillögur og fjárlagatillögur voru sendar til fjármálaráðuneytis.