139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir biður mig um að spá um hagvöxtinn. Ég ætla ekki að fara út í það en ég get svo sem sett fram tölu. Þessi spurning er svolítið í stíl við það þegar ég sem samgönguráðherra, sem ég var í þrjú og hálft ár, var spurður um hvenær þessi og þessi göng yrðu opnuð eða þessi eða hinn vegurinn opnaður. Ég sagði þá yfirleitt: Í ágúst eða september. Það dugði alltaf þó að ég nefndi ekki árið.

Ég ætla ekki að nefna hagvaxtartöluna fyrir næsta ár en ég hef þá bjargföstu trú að hagvöxturinn verði meiri en hér er að dynja yfir í spám. Það er kannski ekkert óeðlilegt við að ýmsir greiningaraðilar úti um heim og annars staðar setji þetta fram vegna þess að ég gerði það í öðru andsvari áðan og tíndi til ýmsar framkvæmdir sem ég er alveg fullviss um að eru að fara á fulla ferð. Svo eru aðrar framkvæmdir sem ekkert er verið að spá í í þessari hagvaxtarspá en verður farið í og það mun auka hagvöxt.

Hv. þingmaður spyr mig líka um það sem ég sagði áðan um að eyða óvissu í sjávarútvegi. Ég hef alltaf verið hlynntur því að auka kvóta og veiða meira og hugsunin hefur verið sú að það sé hluti af aukinni atvinnu og auknum hagvexti að veiða meiri fisk og (Gripið fram í.) setja meiri kvóta á markað og koma því í gang. En það er mjög brýnt að eyða óvissu í sjávarútvegi vegna þess að við getum ekki lifað við þessar sífelldu deilur sem eru, því verður að linna. Hvernig sem það verður gert verður að vinna út frá þessari miklu skýrslu og miklu nefnd sem kláraði.

Ég hef ekki fylgst með því hvað sjávarútvegsráðherra er að gera núna, hvort hann er að semja ný frumvörp, en í mínum huga á ekki að vera mikið vandamál að ná sátt í sjávarútvegi. Númer eitt er í mínum huga að setja í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Númer tvö er að úthluta afnotarétti til þeirra sem gera út í dag og annað slíkt og gera það miklu betur en ýmsir aðrir og veiða, en þeir hafa afnotarétt. Síðan þarf að koma greiðsla fyrir þann afnotarétt til þjóðarbúsins að lágmarki að standa undir kostnaði í sjávarútvegi og helst meira í svona gósentíð eins og nú er í sjávarútvegi.