139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún eyddi talsverðum tíma ræðu sinnar í að tala um skattamál og nauðsyn þess að draga úr skattheimtu og afturkalla þá skatta sem hafa verið lagðir á að undanförnu. En ég hef verið að reyna að glöggva mig á þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna sem lögð var fram á Alþingi í nóvember um einmitt þetta efni og þar sem segir, með leyfi forseta:

„Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með aukið á vanda þeirra. Heimili sem að öðrum kosti hefðu ráðið við greiðslubyrði af lánum sínum eru komin fram á hengiflugið vegna skattpíningar. Besta leiðin til að hjálpa heimilum í skuldavanda er að tryggja þeim umráð stærri hluta sjálfsaflafjár síns, rífa ekki af þeim hverja krónu til að fjármagna útbólginn ríkissjóð sem er í engu samræmi við þann efnahagslega veruleika sem við búum við í dag.“

Í lok sömu greinar í greinargerð tillögunnar segir:

„Því er hér lagt til að allt að 10 milljörðum kr. verði varið til að lækka skattbyrðina á næsta ári og að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði að fullu dregnar til baka árið 2012.“

Ég hef áður spurt að því við hvað sé átt nákvæmlega hér. Á að draga allar skattahækkanir sem gripið hefur verið til til baka? Er verið að tala um bensíngjald, er verið að tala um olíugjald, er verið að tala um hækkun á tekjuskatti einstaklinga, er verið að tala um kílómetragjaldið, skatt á áfengi, bjór og tóbak o.s.frv., bifreiðagjöld? Hvað er nákvæmlega um að ræða í þessu tilfelli? Eru þetta m.a. þeir skattar sem hv. þingmaður er að tala um að þurfi að kalla til baka sem lesa má úr þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna sem var til umræðu í haust?