139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að fylgjast með hv. þingmanni því að hann er mjög vígfimur maður hér í þingsölum. Ég hélt að ég hefði æst hann upp áðan af því að ég minntist á ágætisfótboltalið sem er þó ekki eins gott og það sem ég held með og ég hélt að ég hefði sært hann fram þess vegna. Ég ætla engu að síður að svara þeirri spurningu sem hann beindi til mín varðandi skattamál, hvaða skatta við sjálfstæðismenn ætlum að afnema.

Það sem við höfum lagt áherslu á og viljum gera er að afnema alla óhagkvæma skatta sem draga úr þrótti í atvinnulífinu. Það er fyrst og fremst það sem við viljum gera. Að draga ekki fjölskyldurnar niður heldur minnka greiðslubyrði til þess m.a. að ýta undir neyslu og um leið veltu í samfélaginu. Það sama er með atvinnufyrirtækin, við heyrum þetta alls staðar þar sem við komum. Hv. þingmaður hlýtur að hafa heyrt það í kjördæmavikunni, alla vega heyrði ég það í mínu kjördæmi að byrðarnar eru að verða svo miklar að fyrirtæki sem eru á bjargbrúninni eru að gefast upp.

Hvað var það sem ég nefndi áðan varðandi skattkerfisbreytingarnar? Ég var ekki bara að tala um hækkanirnar á sköttunum sem slíkum, því að það er ljóst að skatturinn á fyrirtækin er lægri hjá okkur en í Svíþjóð, en það er svo margt, margt annað sem hefur orðið til þess að við fælum fjárfesta og erlendar fjárfestingar frá landinu af því að við höfum gert kerfið svo flókið og við erum að reyna að taka meira og meira þannig að við verðum ekki lengur aðlaðandi kostur fyrir erlenda fjárfesta. Svar mitt er fyrst og fremst það að við ættum að afturkalla þá skatta sem hafa óhagkvæmni í för með sér fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu.