139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[01:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að vera hér klukkan hálftvö að nóttu að ræða fjárlagafrumvarp, en svona er þetta á þinginu á þessum árstíma. Ég tek það fram að ég flyt ekki síðustu ræðuna í kvöld. Það er búið að ræða þetta fram og aftur og fara yfir, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði mjög vel áðan, bæði tekju- og gjaldahlið frumvarpsins þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór vel yfir pólitíkina í fjárlagafrumvarpinu. Ég geri hennar orð að mínum hvað það varðar.

Mig langar að tala um nokkur atriði sem hafa vakið athygli mína í þessu frumvarpi og í breytingartillögum meiri hlutans. Ég byrja á því sem mér er mjög huglægt, Suðurnesin. Mig langar aðeins að fara yfir málefni Varnarmálastofnunar sem er nefnd í frumvarpinu. Í breytingartillögum fjárlaganefndar er lagt til, vegna þess að ekki er búið að finna verkefnum Varnarmálastofnunar stað, að fjárheimild Varnarmálastofnunar verði millifærð yfir á nýjan fjárlagalið, varnarmál.

Mig langar aðeins að fara yfir forsögu þessa máls vegna þess að, eins og við vitum, Varnarmálastofnun var sett á laggirnar árið 2007 af utanríkisráðherra Samfylkingarinnar sem þá var í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þá var lykilatriði að aðskilja borgaraleg og hernaðarleg verkefni og þessari stofnun var komið á fót. Við ríkisstjórnarmyndun Vinstri grænna og Samfylkingar hefur einhvers staðar í bakherbergjum verið samið um að gegn því að ríkisstjórnin samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu mundu Vinstri græn fá niðurlagningu Varnarmálastofnunar fyrir sinn snúð. Þessu held ég fram fullum fetum og hef gert áður í þessum ræðustól. Ég vil leyfa mér að kalla þetta hringlandahátt og hrossakaup, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, (Gripið fram í.) — hringlandaháttur og hrossakaup.

Nú ætla ég að rökstyðja það. Við ræddum þetta í fyrra. Þegar hæstv. utanríkisráðherra kom fram með frumvarp um að leggja niður Varnarmálastofnun var það gert vegna þess að þá átti að stofna nýtt innanríkisráðuneyti — það var reyndar ekki komið eins langt þá og það er komið núna, þá var það enn þá eitthvað sem átti eftir að klára fyrir lok kjörtímabils en nú hefur það verið klárað eins og allir vita og tekur til starfa um áramótin. Ég hafði efasemdir um að það gerðist, en ég get viðurkennt að það tókst að stofna ráðuneytið. Það dugði samt ekki til, eins harðlega og það var gagnrýnt, m.a. af þeirri sem hér stendur, fyrir hvers lags vinnubrögð væru við niðurlagningu stofnunarinnar og hvernig mönnum dytti til hugar að byrja á því að leggja niður stofnun frá og með 1. janúar 2011. Lögin voru samþykkt í lok júní. Forstjóranum var sagt upp 1. september og stofnunina átti að leggja niður frá og með næstu áramótum sem verða innan þriggja vikna. Í millitíðinni átti að taka þessi verkefni og dreifa þeim um allar koppagrundir þangað til innanríkisráðuneytið væri komið á laggirnar. Nú er náttúrlega að koma í ljós það sem allir sáu fyrir og bentu á, nema þeir sem stóðu að þessari lagasetningu, að þetta gengur ekki upp. Nú er staðan sú þegar starfsmenn þessarar stofnunar hafa búið við óvissu í nánast hálft ár — reyndar miklu lengur vegna brotthvarfs varnarliðsins og þess tíma sem tók að finna þessu farveg og reyndar fyrir brotthvarf varnarliðsins ef maður horfir lengra aftur í söguna vegna þess að Ameríkanar höfðu dregið úr starfseminni um langa hríð — þá vita þeir, þremur vikum áður en stofnunin verður lögð niður, ekkert hvar og hvenær þetta allt saman gerist og hvert verkefnin fara.

Hrossakaup og baktjaldamakk kallaði ég þetta. Það er í rauninni alveg með ólíkindum að maður verði vitni að því núna að sá starfshópur sem átti að sjá um að koma verkefnum stofnunarinnar fyrir út um allt stjórnkerfið kemur sér ekki saman um verkið, ráðherrarnir tveir eru ósammála og þremur vikum fyrir niðurlagningu stofnunarinnar er algjör óvissa um hvert verkefnin fara. Þetta eru engin smámál. Þetta eru mál sem snúa að vörnum þjóðarinnar.

Þá kem ég að því sem þetta fjárlagafrumvarp og þessar breytingartillögur sýna fram á. Það er nefnilega dálítið sérstakt. Ég nefndi áðan að verið væri að færa fjárheimild Varnarmálastofnunar yfir á varnarmál. Fjárheimildir Varnarmálastofnunar eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 889 milljónir og höfðu lækkað um 100 milljónir milli ára, niðurskurður þar eins og annars staðar og svo sem ekki mikið við því að segja. 889 milljónir voru í frumvarpinu, 859 milljónir í stofnuninni og 30 milljónir í tækjum og búnaði. Síðan er hér lítil tillaga, 03-213, þar sem lagt er til að 20 milljónir verði millifærðar af þessum nýstofnaða lið, Varnarmál, á lið Alþingis og er framlagið ætlað hlutlausri upplýsingaveitu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem starfa mun í samræmi við reglur sem forsætisnefnd þingsins setur samkvæmt tillögum utanríkismálanefndar.

Nú held ég að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ætti að sperra eyrun. Í fjárlagafrumvarpinu kemur í ljós mjög skrýtin stefna Vinstri grænna. Varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sagði í dag að þetta plagg væri pólitískt. Ég tek undir það, það er bullandi pólitík í fjárlagafrumvarpinu. Þar er verið að útdeila peningum. Þar er verið að útdeila í það sem stjórnvöld setja í forgang. Þess vegna er mjög athyglisvert að þegar utanríkisráðuneytið lætur að því liggja að skorið sé niður í aðildarumsóknarferlinu um 100 milljónir, eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, verðum við vitni að því að fjármunir af lið varnarmála eru færðir til, af því Vinstri grænum þykja varnarmál verulega ömurleg, yfir á lið sem er greinilega orðinn nýjasta uppáhaldsumræðuefni og áhugamál Vinstri grænna og snýst um að auka upplýsingagjöf vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Mér finnst þetta mjög athyglisvert. Það sannar það sem kom berlega í ljós eftir fund Vinstri grænna í Hagaskóla um daginn að Vinstri græn eru orðin ESB-flokkur. Hér eru þau í leynimakki að færa á milli liða. Þetta er sérstaklega ósmekklegt þegar maður hugsar til þess að við erum, eins og ég lýsti hér áðan, í ferlinu við niðurlagningu stofnunarinnar. Um er að ræða stofnun sem á að leggja niður og verið er að færa fjárheimildir á milli. Skýringarnar, ég verð að lesa þær, með leyfi forseta. Hér segir:

„Ekki liggur fyrir hvernig fjárheimildum Varnarmálastofnunar verður skipt upp og því eru þær til að byrja með fluttar yfir á lið 03-213 Varnarmál þar til endanlegar tillögur um skiptingu fjárheimilda hafa verið lagðar fram af verkefnastjórn sem skipuð var sérstaklega til að hafa umsjón með daglegum rekstri og útvistun verkefna.“

Það sem ég sagði áðan á við um þetta. Verkefnisstjórn kemur sér ekki saman um mál og verkefnin bíða þangað til búið er að finna út úr þessu. En hvað gerist í millitíðinni? Þá koma menn eins og hrægammar og byrja að kroppa í stofnunina sem búið er að leggja niður en er komin á biðreikning. Það er byrjað að kroppa af þeim reikningi til að setja í önnur helstu gæluverkefni Vinstri grænna, eins og Evrópusambandsaðildarumsóknina. Þetta þykja mér skrýtin vinnubrögð. Ég veit af lestri nefndarálits hv. utanríkismálanefndar að það er vel sloppið að þetta skulu ekki hafa verið nema 20 milljónir vegna þess að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá 17. nóvember 2010 segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að framlag til varnarmála í frumvarpinu verði lækkað um a.m.k. 65 millj. kr. eða sem nemur upphæð viðbótarframlags vegna upplýsingamála í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem nefndin gerir tillögu um, samanber nánari umfjöllun hér á eftir.“

Síðan heldur þetta áfram:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 150 millj. kr. fjárveitingu í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það er lækkun um 100 millj. kr. miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Nefndinni hefur borist afrit af bréfi utanríkisráðuneytisins til fjárlaganefndar frá 13. október sl. þar sem fjallað er um fjárframlög til frjálsra félagasamtaka vegna upplýsingagjafar um Evrópusambandið. Áréttað skal að í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu var lögð sérstök áhersla á mikilvægi upplýsingamiðlunar í samningaferlinu og að séð yrði til þess að fjármunir verði til ráðstöfunar þannig að félagasamtök sem málið varðar geti með beinum hætti tekið þátt í opinberri umræðu og miðlað upplýsingum um málið.“

Allt gott og blessað. Ég er viss um að formaður Heimssýnar er sammála því að það þurfi að gera ráð fyrir peningum til stuðnings báðum sjónarmiðum og ég geri ekki athugasemd við það, ég tek það sérstaklega fram.

Hér segir enn fremur:

„Sérstakur upplýsingahópur skipaður fjórum nefndarmönnum úr utanríkismálanefnd hefur um nokkurt skeið unnið að því að móta tillögur um útfærslu á styrkveitingum til slíkra aðila. Tillaga hópsins er til umfjöllunar í nefndinni og á grundvelli hennar leggur meiri hlutinn til að 65 milljóna framlagi verði varið til upplýsingamála í fjárlögum 2011 og að framlög til varnarmála verði lækkuð að sama skapi.“

Þarna tekur sem sagt meiri hluti utanríkismálanefndar sér það bessaleyfi að taka fjárveitingu, sem er á biðreikningi og ekki vitað hversu mikið verður til ráðstöfunar eða hvert verkefnin fara eða hvaða verkefnum verður haldið áfram, og byrjar að kroppa í hana, 65 milljónir, bara af því þetta er þannig málaflokkur að fáir koma honum til varnar. Það er ekki eins og verið sé að loka spítala einhvers staðar norður í landi heldur er þetta fjárlagaliður um varnarmál. Ég ætla að leyfa mér að koma þessum fjárlagalið til varnar.

Mér finnst líka og vil benda á að það er akkúrat ekkert gagnsæi eða gegnsæi, hvort orðið sem menn vilja nota. Utanríkisráðuneytið segist lækka framlag sitt vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu um 100 milljónir. Þetta kemur allt úr sama vasanum. 100 milljónir sparast í utanríkisráðuneytinu. Og um hvað er gerð tillaga? 65 milljónir í Alþingi sem enduðu að vísu í 40, þær 20 milljónir sem teknar voru frá Varnarmálastofnun og 20 milljónir af lið Alþingis. Af hverju skyldi það nú vera? Af hverju er Alþingi með þetta? Jú, eins og kemur fram í bréfi utanríkisráðuneytisins frá 13. október sem nefndarálitið vísar í er það vegna þess sem segir, með leyfi forseta:

„Í þeim fjárveitingum sem utanríkisráðuneytinu hafði verið ætlaðar sérstaklega vegna málsins hefur ekki verið gert ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi af þessu tagi, enda ekki við það miðað í nefndarálitinu að ráðuneytið hafi forgöngu um þann þátt upplýsingamiðlunar sem hér um ræðir.“

Það nefndarálit sem vísað er til er meirihlutaálit utanríkismálanefndar þegar aðildarumsóknin var samþykkt. Ég fór að rýna í það nefndarálit eina ferðina enn til að athuga það hvort það væri nú þannig að á þessu bæri utanríkisráðuneytið ekki ábyrgð, alla vega ekki fjárhagslega ábyrgð. Ég gat ekki fundið það út. Hér segir meira að segja á bls. 9 í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá því í fyrrasumar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á, að aðildarviðræður við ESB eru á stjórnskipulegri ábyrgð utanríkisráðherra og því ljóst að meginþungi vinnunnar verður í höndum utanríkisráðuneytisins.“

Þarna finnst mér Alþingi segja alveg klárt og kvitt að þetta sé á stjórnskipulegri ábyrgð utanríkisráðuneytisins. Síðan er rætt um að það eigi að vera hlutlaus upplýsingagjöf, sem ég ítreka að ég er ekki andsnúin en ég vil bara hafa gagnsæi í fjárveitingum til umsóknarinnar um Evrópusambandsaðild. Ég gagnrýndi það þegar umsóknin var til umfjöllunar að mér þættu þær 1.000 milljónir sem gert er ráð fyrir í kostnaðaráætlun með þingsályktunartillögunni sem samþykkt var alls ekki vera nóg. Ég benti m.a. á að það væri allt svo loðið í kringum hvað teldist til kostnaðar vegna umsóknarinnar og hvað ekki. Nú gumar hæstv. utanríkisráðherra af því að þetta kosti ekki svo mikið, að búið sé að lækka þetta um 100 milljónir en svo er beðið um 65 milljónir á næsta stað. Það getur vel verið að á fleiri stöðum, vegna þess að ég hef ekki lúslesið fjárlagafrumvarpið eins og margir nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd, sé verið að lauma fjárveitingum í þetta verkefni. Mér þætti gaman að vita það vegna þess að það kemur hvergi fram í breytingartillögum. Það kemur á einum stað fram í fjárlagafrumvarpinu eftir því sem ég kemst næst, á einum stað kemur fyrir tala tengd aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, og það er þegar verið er að tala um þessa 100 milljóna lækkun. Ég leyfi mér að efast um að fullkomið gagnsæi sé í því.

Þannig að ef maður tekur hv. þm. Björn Val Gíslason á orðinu um að fjárlagafrumvarpið sé pólitískt plagg, sem ég er sammála, er ljóst að Vinstri grænum þykja varnarmál ekki nógu skemmtileg en eru algjörlega komin upp í ESB-vagninn vegna þess að þau eru tilbúin til þess að færa til fjármuni í löngum bunum. 20 milljónir er kannski ekki stóri peningurinn í þessu fjárlagafrumvarpi en þetta eru skýr skilaboð. Það er hægt að gera mikið fyrir 20 milljónir. (SER: … tilkynningar.) Þetta eru tilkynningar, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Það er nefnilega málið að það eru ýmsar tilkynningar hér.

Þetta voru góð kaflaskil í ræðu minni vegna þess að ég ætla að halda mig við Suðurnesin. Mig langar að ræða tilkynningar frá ríkisstjórninni sem varða Suðurnesin og hafa verið nokkrar. Haldinn hefur verið fundur, fundur ríkisstjórnarinnar í Víkingaheimum, myndir teknar í því fallega safni og gefnar út alls konar yfirlýsingar um ýmis mál sem setja eigi á koppinn og nú eigi að taka höndum saman. Við Suðurnesjamenn fögnuðum því eftir þennan fund að svo virtist sem nú væru allir farnir að róa í sömu átt, a.m.k. væru allir komnir í sama bátinn. Mönnum þótti róðurinn ganga mishratt en allir voru sammála um að núna þyrfti að taka á því og allir væru tilbúnir að róa í sömu átt. Þess vegna verður maður svo svekktur þegar maður heyrir, eins og í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag, hæstv. dómsmála-, samgöngu-, mannréttinda-, sveitarstjórnar- og hvað þetta allt saman heitir -ráðherra Ögmund Jónasson lýsa sig andsnúinn einu tilteknu verkefni, flugvélaverkefninu ECA, svokölluðu. Hann lýsir sig andsnúinn því og kemur með rangfærslur, t.d. um að það kosti íslenska ríkið svo mikið að undirbúa það og að flugmálayfirvöld séu andsnúin því. Það er bara ekki rétt. Þvert á móti hefur fyrirtækið lýst því yfir oftar en einu sinni að allur sá kostnaður sem ríkið kunni að verða fyrir vegna þessarar leyfisveitingar, hvort sem hann felist í vinnu eða öðru, verði greiddur af fyrirtækinu. Það er því ekki kostnaðinum fyrir að fara enda snýst þetta ekkert um hann. Þetta eru bara afsakanir af því að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson er á móti því að herflugvélar, hvort sem þær eru óvopnaðar eða ekki, verði staðsettar hér á landi. Það er hans skoðun og hann á bara að segja það. Hann á ekki á sama tíma, hvorki hæstv. dómsmálaráðherra né aðrir hæstv. ráðherrar, að koma og segja við Suðurnesjamenn: Samskiptin við Suðurnesjamenn hafa gengið illa. Enginn á að vera í neinum umkenningaleik, nú eigum við öll að standa saman og gefa út tíu atriða yfirlýsingu sem ykkur er gert klárt og kvitt að framfylgja. Gjörið þið svo vel.

Nú róa allir í sömu átt en við erum ekki í sama bátnum. Það á bara að róa í sömu átt þegar við eiga verkefni sem stjórnvöldum eru þóknanleg. Þetta er orðið eins og í einhverju ríki sem ég hélt að við tilheyrðum ekki. Það er valið úr og þangað sem stjórnvöld vilja stefna megum við fara. Þá stefnu tel ég ekki geðslega.

Hér er yfirlýsingin frá 9. nóvember 2010, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá þessum ágæta fundi í Reykjanesbæ sem vakti von. Sú von er því miður óðum að slokkna. Þar átti m.a. að leysa gagnaversmálið. Hér segir að lagt verði fram frumvarp á Alþingi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt varðandi þetta. Við vitum hvar málið er statt. Við vitum að í 20 mánuði hefur það verið fast í fjármálaráðuneytinu. Nú er komið fram frumvarp sem gengur ekki nógu langt og mun ekki leysa vandann. En sem betur fer var það rætt á Alþingi í gær og allt lítur út fyrir að þingið taki völdin af hæstv. ríkisstjórn vegna þess að henni er greinilega um megn að klára þetta. Nú hefur myndast samstaða í hv. iðnaðarnefnd um að taka málið að sér og klára það vonandi fyrir jól.

Mikið hefur verið rætt um menntamál á Suðurnesjum. Það er heill kapítuli út af fyrir sig. Mikið er rætt um að efla þurfi menntunarstig á Suðurnesjum, það sé lægra en annars staðar. Það er að mörgu leyti rétt og fyrir því eru margvíslegar ástæður. Ein ástæðan er reyndar sú að menntafólk hefur flutt frá Suðurnesjum. Suðurnesjamenn sem alast upp í menntakerfinu á Suðurnesjum, eins og ég sjálf, fara í háskóla, framhaldsnám, kannski til útlanda og koma aftur en flytja ekki heim. Ég flutti ekki fyrr en nýverið vegna þess að það var enga vinnu að fá við mitt hæfi, ekki frekar en margra annarra sem voru í sömu sporum og ég. Menntafólk flyst því á brott. Skólakerfið er ágætt á Suðurnesjum, það vantar ekkert upp á það. Grunnskólar, frábærir grunnskólar. Fjölbrautaskólinn, mjög góður, algjörlega samkeppnisfær við aðra skóla. En þegar fólk leitar sér frekara náms þá fer það og kemur ekki til baka vegna þess að tækifærin eru ekki þarna. Önnur ástæða fyrir þessu er að þegar varnarliðið var stærsti atvinnuveitandi á Suðurnesjum krafðist varnarliðið ekki mikillar menntunar, ekki háskólamenntunar eða framhaldsmenntunar, vegna þess að störfin þar voru sérhæfð og herinn sendi starfsfólk sitt frekar í þjálfun á eigin vegum. Fólk fékk því sérhæfða menntun sem varð gagnslaus eftir að varnarliðið fór.

Í yfirlýsingunni frá ríkisstjórnarfundinum segir að á þessu eigi að gera bragarbót. Þróa eigi nýtt og fjölbreyttari námsframboð á Suðurnesjum. Þar segir enn fremur að rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður. Það er mjög mikilvæg yfirlýsing. Við fögnuðum því, Suðurnesjamenn. Við fögnuðum því að með þessu væri sagt skýrt, þetta verður ekki orðað skýrar, að rekstrargrundvöllur menntastofnunar á Suðurnesjum yrði tryggður. Síðan lítur maður spenntur til þessara breytingartillagna. Ég leit reyndar fyrst mjög spennt til fjáraukalagafrumvarpsins en varð fljótlega ekkert spennt yfir því vegna þess að þar var ekkert um þetta að finna. Næst leitaði ég í breytingartillögunum og þá kemur breytingartillaga og undir Framhaldsskólar, almennt — nýjungar í skólastarfi. Framsögumaður meiri hluta mælti svo fyrir henni, með leyfi forseta:

„…er lagt til að veitt verði 16 millj. kr. framlag til tveggja ára, m.a. til að tryggja samstarf menntastofnana á Suðurnesjum. Þetta er í samræmi við ákvörðun sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í Reykjanesbæ 9. nóvember 2010. Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra tryggt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og efla ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.“

Þetta var afraksturinn af lúðrablæstrinum í Víkingaheimum í Reykjanesbæ. Ég verð að segja að þetta veldur mér vonbrigðum.

Við þingmenn Suðurkjördæmis áttum reyndar mjög góðan fund í dag — fórum fram á að hæstv. menntamálaráðherra sæti með okkur og skólameistari Keilis, fyrrverandi hv. þm. Hjálmar Árnason — um fyrri setninguna sem ég las, að rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum yrði tryggður. Þó svo að það sé mjög fínt að tveir sérfræðingar sitji í tvö ár og spái í hvernig námsframboð Fjölbrautarskóla Suðurnesja, Keilis og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og jafnvel Fisktækniskólans í Grindavík fari saman held ég að það liggi einfaldlega meira á að tryggja Keili og fjölbrautarskólanum það fjármagn sem þarf til að skólarnir geti rekið sig og tekið við þeim fjölda Suðurnesjamanna sem vilja afla sér menntunar núna eftir að hafa hætt eða flosnað upp úr námi af einhverjum ástæðum á einhverju tímabili í lífi sínu og fá þarna tækifæri til að byrja upp á nýtt.

Ég er svo sannarlega vongóð eftir þennan fund. Við, þingmenn kjördæmisins, munum fylgja málinu eftir. Ég heyrði hér ágætisræðu 1. þingmanns kjördæmisins, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, sem hann flutti fyrr í dag þar sem hann talaði sérstaklega um að hann bæri von í brjósti um að hægt væri að gera breytingu á þessu þannig að, eins og einn hv. stjórnarþingmaður sagði á fundinum, að baki orða ríkisstjórnarinnar byggju aðgerðir, í krónum og aurum. Það er ekki nóg að tala fallega. Það verður að klára þessi mál til að allt gangi upp. Það er ekki eins og verið sé að biðja um ölmusu þangað suður eftir. Á sama tíma og skorið er niður til þeirrar stofnunar sem ég nefndi áðan, Keilis, er ríkið búið að taka 2,5 milljarða út af vallarsvæðinu, varnarsvæðinu á Ásbrú, vegna sölu eigna og annarra tekna af rekstri Þróunarfélagsins. Það er því verið að tala um að fá lítið brot af því til að hægt sé að halda áfram að þróa þetta samfélag og koma því í það horf að það standi undir sér og að atvinnulífið nái að festa þar rætur aftur. Það eru svo sannarlega tækifæri þarna út um allt.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan um yfirbragð frumvarpsins. Um það hefur verið rætt og ég ætla ekki að verja tíma mínum í að endurtaka það sem félagar mínir úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, fjárlaganefndarmenn okkar, gera góða grein fyrir í vönduðu og ítarlegu nefndaráliti um sjónarmið okkar, ég ætla ekki að endurtaka ræður þeirra. Ég vildi sérstaklega verkja athygli á þessum tveimur atriðum. Það er að sjálfsögðu af öðru að taka. Nefna má heilbrigðismálin, það er búið að fara vel yfir þau. Því ber þó að fagna að ríkisstjórnin var rekin til baka með þær tillögur sem birtust í fjárlagafrumvarpinu. Það er náttúrlega með ólíkindum, og þá kemur maður aftur að þessu með vinnubrögðin sem ég byrjaði á að gagnrýna í ræðu minni, að það skuli hafa verið ætlun nokkurs manns að setja fram heilbrigðissefnu í fjárlagafrumvarpi án þess að tala við kóng eða prest. Það eru vinnubrögð sem ég vona að ríkisstjórnin hafi lært að ganga ekki upp.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira, en vildi nota tímann til þess að benda á þessi atriði.