139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki það ég ætli að svara andsvari vegna þess að þetta var meira framhald af samtali sem við áttum, ég úr ræðustól og hv. þingmaður í sætinu sínu. Ég held að þarna séum við alveg sammála.

Það sem ég var að gagnrýna áðan er að það kemur skýrt fram í breytingartillögunum og í fjárlagafrumvarpinu að verið er að gefa með annarri og taka með hinni. Utanríkisráðuneytið segist vera að lækka kostnað sinn um 100 milljónir. Utanríkismálanefnd Alþingis fer fram á 65 milljónir til sama verkefnis sem er aðildarumsóknin í heild sinni.

Ég hef oft spurt að því: Hvað með, eins og hv. þingmaður vakti máls á, aðrar stofnanir? Hvað með Alþingi? Ég hef sjálf farið í ferð með hæstv. forseta þingsins og formanni utanríkismálanefndar til Brussel til að hitta m.a. stækkunarstjórann fyrrverandi, hinn fræga Olli Rehn, og fleiri kommisara. Hvernig var sú ferð bókuð? Var það alþjóðastarf þingsins sem er mikilvægt og var skorið niður þannig að varamenn gátu ekki sótt nefndarfundi í Íslandsdeildunum hingað og þangað? Var það skorið niður til þess að ég gæti farið og hitt Olli Rehn?

Ég hef spurt að því hvernig haldið er utan um þetta af ríkisins hálfu. Ég hef ekki fengið nein svör. Það væri ágætt ef við mundum halda áfram að reyna að kortleggja þetta vegna þess að það er eitt að halda þessu áfram, ferlið er í gangi, en það er annað að við verðum að vita hvað þetta kostar. Við verðum að geta tekið ákvörðun á grundvelli allra fáanlegra upplýsinga hvað við viljum gera með þetta mál.